Grein

Arnar Guðmundsson.
Arnar Guðmundsson.

Arnar Guðmundsson | 24.11.2003 | 18:13Samgöngur = framþróun!

Arnkötludalur!

Mann rekur í rogastans við að sjá þetta nafn í umræðu um samgöngubætur Vestfirðinga, – hugga mig samt við þá von, að þarna sé eingöngu prívatpæling einhvers „klúbbs“ í Bolungarvík, og að ekki sé nein vigt á bak við þetta, – en er þó ekki alveg rór. Skemmst er að minnast tillagna Vegagerðarinnar á Ísafirði um nýjan veg milli Eyrar í Kollafirði og Bjarkalundar. Þar voru nokkrar útfærslur, en tvær þeirra sýnu skárstar. Það voru leiðir merktar B og F (B er sérstaklega nefnd sem „vegtæknilega góður kostur“ og mikil vegstytting). Þær myndu stytta leiðina suður um 22 km eða 27 km eftir því hvor leiðin væri farin, en báðar taka af tvo fjallvegi/hálsa (Hjallaháls og Ódrjúgsháls).

Vegagerðin vildi hins vegar mæla með að farin yrði leið merkt C, en hún styttir leiðina aðeins um 15 km og heldur inni fyrrnefndum fjallvegum/hálsum. Ástæðan: þessi leið er ódýrari en hinar! Að þessu skoðuðu er ekki að sjá að Vegagerðin á Ísafirði ætli Vestfirðingum öðrum en Barðstrendingum þessa leið suður, því ekki hafa kostnaðartölur svo mjög truflað pælingar um þveranir fjarða í Ísafjarðardjúpi. Að auki má minna á að Arnkötludalsleið verður ekki ókeypis þótt stofnaður yrði um hana sér sjóður og sú framkvæmd myndi nokkuð örugglega hafa áhrif á aðrar vegaframkvæmdir til handa Vestfirðingum.

Ég skil ekki þessa fjallavegaþrá sem virðist ríkja í samlegð Vegagerðarinnar og Arnkötludalspælurum þegar hægt er að gera mun vænlegri framtíðarveg gegnum Barðastrandasýslu og norðurúr – leið sem best myndi gagnast öllum Vestfirðingum vestan Súðavíkur, enda í öllum tilfellum sú stysta. Nú má e.t.v. skilja á mér að hafi eitthvað á móti því að vegur verði gerður um Arnkötludal. Vegarins vegna og dalsins er mér nokk sama, en þarna eru svo þröngir hagsmunir í dæminu að mér verður hálfillt við að sjá þetta tengt samgöngubótum á Vestfjörðum.

Göng úr Dýrafirði í Arnarfjörð!

Þessi setning er á við fagran fuglasöng. Svo skemmtilega vill til að hann hefur heyrst oftar en einu sinni. Skemmtilegast verður þó þegar sá söngur verður rofinn af vélaskrölti borsins mikla. Sú tenging hefði mikil áhrif og góð hvort sem litið er til þeirra sem búa norðan eða sunnan Arnarfjarðar. Íbúar sunnan Arnarfjarðar hafa beinlínis hefð fyrir því að sækja ýmsa þjónustu til Reykjavíkur vegna þeirra einföldu staðreyndar að þeir eru ekki á sama samgöngusvæði og íbúar norðan Arnarfjarðar. Á þessu græðir Reykjavík og Vestfirðir tapa.

Ég heyri stundum þegar talað er um framtíð Vestfjarða, að það sé nú ýmislegt ágætlega boðlegt í Ísafjarðarbæ, svo sem ýmis konar tækniþjónusta, gott sjúkrahús, þokkalegar verslanir og menningarfyrirbæri, og þá ekki síst mikill og góður menntaskóli. Já, gott og vel. Þá er bara að fá fleiri til að nota þetta, – eins og t.d. íbúa sunnan Arnarfjarðar. Það halda kannski einhverjir að þeir (íb. s. Arnfj.) bíði spenntir eftir Arnkötludalsleiðinni til að komast í Ísafjarðarbæ. Flestir sjá þó (vonandi) að jarðöng úr Dýrafirði í Arnarfjörð er öflugasta samgöngubótin.

Glaður var ég að sjá Ólínu Þorvarðardóttur nefna önnur göng úr Dynjandisvogi. Sjálfur hef ég verið á þeirri skoðun, – þó ekki eins djarftækur og Ólína sem vill gjarna fara yfir í Vatnsfjörð. Ég sá fyrir mér að; í stað þess að byggja upp nýjan veg um Dynjandisheiði, jarðgöng úr Dynjandisvogi, yfir í Geirþjófsfjörð og þaðan síðan strandleið í Trostansfjörð. Þannig yrðu Vestfirðir ein samgönguheild allt árið. En hvort sem göngin verða ein eða tvenn er þessi sjálfsagða samgöngubót sterkur röstuðningur fyrir því að leggja allt kapp á að fyrirhugaðar vegabætur frá Eyri í Kollafirði að Bjarkalundi verði með sem skynsömustum hætti og beri mark framsýni.

Að lokum vil ég kyrja með Ólínu samstöðusönginn góða, en það er sá söngur sem ég hef á tilfinningunni að of fáir Vestfirðingar kunni, – en þyrftu að læra sem fyrst. Aðeins þannig getum við blómstarð á ný. AG 10/11´03.

–––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––

Að loknum þessum skrifum fannst mér að ég ætti að láta þessa grein liggja í láginni, enda grein Ólínu góð eins og skynsamri konu sæmir. Svo fór þó ekki, því að; – eftir að ég fór nýverið inn á bb.is og las þar grein eftir Birnu Lárusdóttur, forseta bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, þar sem hún er að leiðrétta „misskilning“ fólks sem spáir í og tjáir sig um samgöngumál á Vestfjörðum. Sannarlega fór um mig hrollur við þann lestur. Hún kom m.a. inn á hina miklu nauðsyn Arnkötludalsleiðar (að mati bæjarstjórnar Ísafjarðar) sem stytti leiðina frá Ísafirði til Reykjavíkur um 40 km miðað við leiðina um Strandir (sem fyrrnefndir börðust fyrir á sínum tíma). Það þýðir að hin nýja leið fyrir Ísfirðinga verði jafnlöng/stutt og að fara um Barðaströnd, – eins og hún er í dag.

Með fyrirhuguðum vegabótum á vegi nr 60 (frá Eyri við Kollafjörð að Bjarkalundi) styttist sú leið um 22 km ef farin væri leið B. Ekki er þó einsýnt að sú leið verði farin, heldur jafnvel leið C sem styttir leiðina „aðeins“ um 15 km og heldur því miður inni tveimur fjallvegum. Þessu veldur mat Vegagerðarinnar á Ísafirði, – þó um styttri og öruggari heilsársveg sé að ræða – of mikill kostnaðarmunur. Sá kostnaðarmunur er u.þ.b. 400 milljónir. Til samanburðar má geta þess að Birnu Lárusdóttur finnst 700 milljónir ekki há upphæð ef því er varið í Arnkötludal og gagnist færri Vestfirðingum heldur en ef farin væri „vesturleiðin“. Þá á eftir að taka tillit til Dýrafjarðargangna sem gætu stytt leiðina um aðra 20 km. Ísafjarðargöngin eru nú þegar til staðar. Sú gangnagerð var studd af suðursvæðinu [hafa ráðamenn þar líklega talið að skynsemin væri komin til að vera hvað samgöngumál áhrærir).

En mér er svo sem sama

Já, eiginlega er mér það, þó Ísfirðingar vilji fara lengri leiðina suður, – en ég skil það bara ekki þegar fyrir liggur að Djúpleiðin verður alltaf 40 km lengri en vesturleiðin (eftir 10 ár eða svo). Já, mér er líka sama þó Dýrafjarðargöngin séu svona seint í tímaröðinni eins og Birna lýsir, en skil ekki að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar leggi ekki áherslu á stystu mögulegu leiðina (vesturleiðina). Sú leið yrði ekki aðeins stysta mögulega leið suður, heldur líka það að þá myndi opnast nothæf heilsárstenging milli norður og suðursvæðis. Tenging sem að auki myndi bæta hag verslunar, þjónustu, mennta- og menningarmála, fyrst og fremst á norðursvæðinu, – svæði því sem Birna L. kallar höfuðstað Vestfjarða.

Vitleysan í forgang

Það er mér hins vegar ekki sama um. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur „séð ástæðu til að álykta sérstaklega um veginn um Arnkötludal og bent á nauðsyn þess að hið fyrsta verði hafist handa við þá vegagerð“. Þarna er um níðþrönga hagsmuni að ræða. Þessi sama bæjarstjórn hefur ekki svo ég viti til, ályktað sérstaklega um nauðsyn þess að farin verði styttri leiðin, en ekki hin lengri tveggjafjallaleið frá Eyri í Kollafirði að Bjarkalundi. Bæjarstjórn Vesturbyggðar, Tálknafjarðar og Reykhólahepps gerði það hins vegar. Hvar var samhugur bæjarstjórnar Ísafjarðar þá? Allavega ekki með Barðstrendingum. Kannski hjá Vegagerðinni á Ísafirði.

Auðvitað veit fólk að fé til vegamála kemur úr einum sameiginlegum sjóði. Fé sem fer til Vestfjarða – fer til Vestfjarða. Fullorðið fólk á ekki að láta út sér fullyrðingar eins og að 700 milljónir til Arkötludalsvegarins hafi ekki áhrif á önnur verkefni á Vestfjörðum. Það veit betur. Kannski er það ástæðan fyrir því að Vegagerðin á Ísafirði vil fara fyrrnefnda tveggja fjallaleið í Barðastrandasýslu, og spara (í þeirri vegagerð) fyrir rúmlega helmingi kostnaðar Arnkötludalsleiðar. Kannski einmitt þessvegna mótmælti ekki bæjarstjórn Ísafjarðar, Vegagerðinni á Ísafirði, tveggjafjalla leiðinni. Kannski einmitt þessvegna finnst sumu fólki í lagi að fremja skemmdarverk á fyrirhuguðum vegabótum í Barðastrandasýslu.

Skemmdarverk

Tek ég kannski stórt upp í mig með svona orðanotkun? Það finnst eflaust einhverjum. Mér finnst það bara einfaldlega skemmdarverk þegar stendur fyrir dyrum að endurnýja löngu ónýta leið, að leggja til fyrrnefnda tveggjafjallaleið fyrir jafnlítinn sparnað og raun ber vitni. Sparnaður sem er jafnvel enginn til lengri tíma litið, enda vegur sem mun notast um aldir. Snjómokstur og viðhald yfir tvö fjöll/hálsa ásamt meiri líkum á slysum á slíkum vegi kosta sitt, reiknað til til langs tíma, sem eðlilegt er að gera. Þess vegna kalla ég þetta skemmdarverk! Skemmdarverk sem ekki aðeins vinnst á samgöngum Vestfirðinga sunnan Arnarfjarðar, heldur allra Vestfirðinga annarra en Strandamanna.

Þetta fullyrði ég því þótt yfirstjórn(ir) norð-Vestfirðinga ætli þarbúum Djúpleiðina suður, þá hef ég (og fjölmargir fleiri) sannfæringu fyrir því að norð-Vestfirðingar muni aka vesturleiðina suður, þegar bundið slitlag verður komið frá Flókalundi að Bjarkalundi, enda stysta mögulega leið suður sem fyrr segir. Munu þá margir harma, ef fyrrnefnd „tveggjafjallaleið“ verður fyrir valinu. Því vil ég aðeins segja að lokum. Verum framsýn. Tökum nefið úr naflanum.

Arnar Guðmundsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi