Grein

Soffía Vagnsdóttir.
Soffía Vagnsdóttir.

Soffía Vagnsdóttir | 19.11.2003 | 13:50Fagna þingsályktunartillögu um Háskóla á Ísafirði

Það er mikið gleðiefni á að sjá að fram er komin þingsályktunartillaga frá alþingismönnunum Kristni H. Gunnarssyni, Gunnari I. Birgissyni og Magnúsi Stefánssyni um stofnun Háskóla á Ísafirði. Á alþingi eru ákvarðanir teknar og lög samþykkt. Það er því afar ánægjulegt að sjá að tveir af þingmönnum kjördæmisins ásamt einum þingmanni af höfuðborgarsvæðinu hafa haft frumkvæði að því að leggja fram þingsályktunartillögu um mál sem fyrir löngu er orðið tímabært að hrinda í framkvæmd.
Ég skora á alla þá sem talað hafa fyrir háskóla á Vestfjörðum, hvar í flokki sem þeir standa, að leggjast á eitt og fylgja ályktuninni vel eftir meðal „sinna manna og kvenna“ á alþingi til þess að víðtækur stuðningur og þrýstingur fáist við stofnun skólans. Þannig ná þær tillögur sem þingmennirnir eru með um að ráðinn verði rektor strax á næsta hausti til undirbúnings að verða að veruleika.

Ég fagna því sérstaklega að í tillögu þeirra skuli felast hugmyndin um námsbraut í tengslum við menntun tónlistarkennara. Það er afar brýnt að slíkt nám verði til hér og svo sannarlega eitthvað sem heimamenn geta tekið fullan þátt í að móta og manna að miklu leyti þegar þar að kemur.

Ég færi kveðjur til Kristins, Magnúsar og Gunnars, flutningsmanna þingsályktunartillögunnar og hvet þá, aðra þingmenn, einkum þingmenn kjördæmisins, til að fylgja málinu eftir á alþingi af fullum þunga. Sem og hvet ég þá þingmenn aðra sem hafa áttað sig á mikilvægi þess að með því að styrkja jöfnum höndum menntun og menningu í hinum dreifðu byggðum landsins styrkjast þær og þurfa ekki lengur að verja tilverurétt sinn. Hann er fullkomlega eðlilegur og án nokkurs vafa þjóðhagslega hagkvæmur. Hver veit nema stofnunardagurinn verði á afmælisegi Hannibals eftir allt saman!!!

Soffía Vagnsdóttir, tónmenntakennari í Bolungarvík.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi