Grein

Pétur Tryggvi Hjálmarsson.
Pétur Tryggvi Hjálmarsson.

Pétur Tryggvi | 10.11.2003 | 09:48Um umhverfissköpun

Það er dásamlegt að fá verðlaun. Svo virðist sem jafnvel séu veitt verðlaun fyrir hvað sem er. En oft er það svo með viðurkenningar, að þær segja meira um þá sem veita þær heldur en þá sem fá þær. Stundum er viðurkenningin veitt einhverju því sem pöpullinn á erfitt með að sætta sig við. En eftir veitinguna verða flestir sáttir og jafnvel stoltir af að fá að snerta viðurkenndan óskapnaðinn. Þeir eru til dæmis ófáir níðingarnir í heiminum sem hafa verið heiðraðir.
Þar sem landslag hefur verið metið ljótt eða hættulegt er kallað til mannfólk, sem hefur meiri gáfur en frumkraftarnir, til að umskapa náttúruna þannig að hún falli vel inn í umhverfið. Einhverjar rannsóknir segja að fólki líði betur í sérhönnuðu og verðlaunuðu umhverfi. Ef einhverjum líður öðruvísi en niðurstaða rannsóknar færði sönnur á, þá er hann ekki normal. Einhverra hluta vegna sækir fólkið samt í umhverfi frumkraftanna þegar það hefur tíma til eigin ráðstöfunar. Þar líður fólki best, hvað sem rannsóknir segja.

Þeim stöðum fer fækkandi hér á landi þar sem ekki hefur verið komið fyrir flekkjum grenitrjáa sem mynda æxli til „fegrunar“ ósnortinnar náttúru. Og nú er komið að því að verðlauna nýjasta „hitt“ verktakamáttarins, sem eru snjóflóðavarnargarðar.

Bent hefur verið á að hleypa má snjósöfnun niður í litlum hættulausum spýjum áður en snjómagnið verður óviðráðanlegt. En sú aðferð er ekki verktakavæn og fær þess vegna ekki medalíu.

Sést hefur stórfenglegra landslag en vinnuvélalandslag. En það landslag er aldrei verðlaunað vegna þess að enginn makar krókinn á þeirri sköpun og enginn veit hverjum á að veita heiðurinn.

– Pétur Tryggvi. Höfundur er silfursmiður á Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi