Grein

Eggert Stefánsson.
Eggert Stefánsson.

Eggert Stefánsson | 03.11.2003 | 09:16Lýst er eftir jarðgöngum

Þetta er ekki ný frétt, þetta er hluti úr frétt sem birtist á bb.is þann 4. október 2002. Margir lifnuðu við og fylltust eftirvæntingu, a.m.k. var það svo með mig – væri nú loksins eitthvað að gerast í þessu máli? Eitthvað virðist hafa farið öðruvísi en ætlað var, nú er liðið rúmlega eitt ár frá því þessi frétt birtist og enn hef ég ekki orðið var við að Arnarfjarðar-Dýrafjarðargöng hafi verið samþykkt. Aftur á móti á að fara að byrja á göngum undir Almannaskarð, göngum sem skv. jarðgangaáætlun frá árinu 2000 (sem ég veit ekki annað en sé enn í gildi) átti ekki að hugsa um fyrr en eftir mörg ár.

Í Fréttablaðinu 30. júlí sl. segir meðal annars:

„Verið er að vinna að hönnun ganga um Almannaskarð. Meiningin er að bjóða verkið út með haustinu. Vonandi verður hægt að byrja á verkinu fyrir áramót og reiknum við með að því ljúki að mestu leyti á næsta ári, segir Einar Þorvarðarson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi, um fyrirhuguð jarðgöng um Almannaskarð.“

Vegurinn um Almannaskarð fer hæst í 155 m hæð yfir sjó, göng undir munu ekki stytta leið neitt – 0 km, skv. töflu í Jarðgangaáætlun Vegagerðarinnar frá árinu 2000. Vegurinn um Hrafnseyrarheiði fer í 552 m hæð, göng Arnarfjörður-Dýrafjörður, á þeim stað sem helst er rætt um, stytta leið um 25 km milli t.d. Patreksfjarðar og Ísafjarðar.

Í áðurnefndri Jarðgangaáætlun Vg kemur einnig fram að vegurinn um Almannaskarð var lokaður að meðaltali 1 dag á ári á árunum 1994-98 en vegir um Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðar um 120 daga á ári á sama tímabili.

Meiri samanburður: Nú er gerð ganga milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar komin vel af stað, göngin munu stytta leiðina á milli þessara staða um 30 km sem er vissulega mjög gott. Ekki er verra að þá losna menn við hættulega kafla á núverandi leið, leið sem þó er mokuð og þar með fær alla daga.

Leiðin Ísafjörður-Patreksfjörður, þ.e. kaflinn Þingeyri-Vatnsfjörður, er skv. mokstursáætlun Vegagerðarinnar mokaður tvo daga í viku, vor og haust, meðan snjóalög leyfa.

Ef núverandi leið milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar er ófær verð ég að aka um Djúp, Steingrímsfjarðarheiði, Strandir, Laxárdalsheiði, Reykhólasveit og Klettsháls – alls á sjöunda hundrað kílómetra! Í stað 170 km um núverandi sumarleið, eða 140-150 km eftir að Arnarfjarðargöngin verða komin. Ef einhver getur nefnt eitthvað sem nálgast þessa vegalengd á „vetrarkróki“ annars staðar á landinu þætti mér vænt um að heyra það. Ég fullyrði að annað eins þekkist ekki hérlendis.

Þann 11. mars 1999 var samþykkt á Alþingi þingsályktun, nokkurs konar aðdragandi jarðgangaáætlunar Vg. Í ályktuninni segir meðal annars: „Sérstaklega verði horft til framkvæmda sem rjúfa vetrareinangrun, koma í stað annarrar kostnaðarsamrar vegagerðar, stytta vegalengdir eða stækka atvinnusvæði.“

Sé horft á þessa setningu er í mínum huga augljóst að jarðgöngin Dýrafjörður-Arnarfjörður ásamt lagfæringum á Dynjandisheiði (helst ættu náttúrlega að koma göng undir hana líka) ættu að hafa forgang fram yfir aðrar gangaframkvæmdir. Þar með talin göng undir Vaðlaheiði, Hellisheiði eystri og út í Vestmannaeyjar.

Sem betur fer eru æ fleiri að sjá nauðsyn betri vegtengingar milli norður- og suðursvæða Vestfjarða. Í skýrslu sem Samgöngunefnd Ísafjarðarbæjar sendi frá sér árið 2001 segir meðal annars að nefndin vilji að framkvæmdir við jarðgöng á leiðinni milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar hefjist innan þriggja ára. Einnig: „Nefndin telur farsælt að tekið verði upp nýtt hugtak í vegasamgöngum á Vestfjörðum með því að vinna af kappi að heilsárstengingu um Vestfirði sem tengi saman allar byggðir fjórðungsins og kallist Vestfjarðahringurinn.“

Í janúar 2003 samþykkti sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps áskorun til stjórnvalda varðandi fiskveiðar og samgöngur. Þar segir í 6. grein: „Að stjórnvöld hraði vinnu eins og kostur er við þær samgöngubætur sem fyrirhugaðar eru milli norður- og suðurhluta Vestfjarða til að auka samskipti milli þessara svæða eins og hægt er til að tryggja búsetu sem best á Vestfjörðum.“

Í frétt á bb.is 17. júlí 2003 segir m.a.: „Atvinnumálanefnd Vesturbyggðar leggur til við bæjarstjórn að hún leiti sem fyrst samstarfs við ríkisstjórnina um aðkomu hennar að nauðsynlegum mótvægisaðgerðum í V-Barðastrandarsýslu til að tryggja atvinnu og hamla fólksfækkun í ljósi þeirra gífurlegu framkvæmda og uppbyggingar sem hafin er á Austurlandi. Í því sambandi bendir nefndin á mikilvægi línuívilnunar fyrir svæðið og leggur áherslu á að hún hefjist strax á næsta fiskveiðiári. Einnig þurfi að tímasetja gerð jarðganga milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar auk ganga undir Dynjandisheiði til að tengjast fyrirhuguðu kjarnasvæði á Ísafirði með láglendisvegi sem fyrst.“

Í grein á Þingeyrarvefnum – thingeyri.com – í apríl sl. segir Sturla Böðvarsson samgönguráðherra m.a.: „Samkvæmt Jarðgangaáætlun sem ég lagði fyrir þingið og varð síðan hluti samgönguáætlunar var gert ráð fyrir að næstu jarðgöng [á eftir Reyðarfjarðar-Fáskrúðsfjarðar og Siglufjarðar-Ólafsfjarðargöngum] yrðu göngin milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Næstu stórframkvæmdir við jarðgangagerð verða því Arnarfjarðar-Dýrafjarðargöngin ef ég fæ ráðið“. Leturbr. E.S.

Vonandi sýnir ráðherrann sem fyrst hverju hann fær ráðið, núverandi einangrun er fyrir löngu orðin óþolandi. Ég skora á þingmenn NV-kjördæmis að koma þessu máli í höfn á yfirstandandi þingi. Þessi vegtenging er a.m.k jafnmikilvæg fjórðungnum og margumrædd línuívilnun.

– Eggert Stefánsson, Ísafirði.

Höfundur er starfsmaður Landssímans og áhugamaður um bættar samgöngur á Vestfjörðum.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi