Grein

Jón Fanndal Þórðarson.
Jón Fanndal Þórðarson.

| 15.03.2001 | 16:28Björgum Orkubúinu

Það hafa ekki farið framhjá neinum þær fyrirætlanir sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum, að láta ríkið kaupa Orkubú Vestfjarða og nota söluandvirðið til að grynnka á skuldum sumra sveitarsjóðanna við Íbúðalánasjóð. Ef þeir komast upp með þessar fyrirætlanir sínar yrði það slys, sem seint yrði bætt. Nóg er nú komið af hremmingum okkar Vestfirðinga varðandi framsal kvóta, lokun frystihúsa o.fl. í þeim dúr, þó ekki bætist við að skammsýnir sveitarstjórnarmenn, á lokaári síns kjörtímabils, leggist á sveif með niðurrifsöflum og selji undan okkur Orkubúið, stærsta og best rekna fyrirtækið á Vestfjörðum sem spannar um allan fjórðunginn. Slæmt er að þeir sem harðast ganga fram í sölumennskunni eru menn sem ætla sér ekki að búa hér til langframa og geta látið sig hverfa hvenær sem er. Hafa sem sagt enga fasta rót hér. Sölumennirnir réttlæta gerðir sínar með því að við ráðum engu í þessum málum eftir árið 2002 vegna reglna ESB og nýrra orkulaga. Nú hefur komið í ljós, að það sem þeir héldu fram í þessu efni er annað hvort vísvitandi ósannindi eða þeir hafa ekki kynnt sér málið. Ég tel að hvort tveggja sé.
Reglur ESB í orkumálum eru ekki fastmótaðar. Þó er það staðreynd, að þeir eru að losa sig við ríkisafskipti í raforkumálum en færa þau yfir til sveitarfélaga og einstaklinga, sem ásamt dreifikerfinu geta og mega reka smærri og meðalstórar virkjanir. Hvað er okkur að vanbúnaði til að hefjast handa?

Orkulögin eru í mótun en eru langt frá því að vera fullsköpuð, m.a. af þeim sökum, að reglur ESB eru ekki fullmótaðar svo að sú hætta er fyrir hendi að takmarkanir íslenskra orkulaga gætu farið fram úr reglum ESB. Öll sveitarfélög á Vestfjörðum hafa nú samþykkt að breyta Orkbúinu í hlutafélag. Þetta var m.a gert vegna þess að fulltrúar sölumanna fullyrtu í áróðri sínum, að það væri skylda eftir 2002 að breyta öllum orkufyrirtækjum í hlutafélög. Nú hefur komið í ljós að önnur eignarform en hlutafélag verða leyfileg. Ég ætla samt ekki að afskrifa hlutafélagsformið ef rétt er á málum haldið. Það er því staðreynd að sölumennirnir fóru með ósannindi í öllum þeim málum sem mestu máli skipta, en þeim lá svo mikið á að þeir gátu hvorki beðið eftir reglum ESB né eftir nýjum orkulögum. Óskandi væri að meirihluti bæjarstjórnar tæki svona hressilega við sér í fleiri málum, þ.e. að vera á undan sinni samtíð! Guð láti gott á vita.

Ég hefi áður bent á hvaða afleiðingar það myndi hafa fyrir íbúa Vestfjarða ef af sölu yrði og vil ég endurtaka það hér.

1. Raforkuverð myndi hækka um a.m.k. 20% á sama tíma og orkuverð er að lækka um 10% í Reykjavík og 20% í Hafnarfirði. Hvar er nú jöfnun orkuverðs sem svo mikið er talað um fyrir kosningar?
2. Störfum mun fækka.
3. Fólk mun flytjast burt.
4. Yfirráð orkumála munu flytjast burt úr fjórðungnum.
5. Þjónustan mun skerðast.
6. Hugmyndir um frekari virkjanir á Vestfjörðum heyra sögunni til.
7. Tekjur sveitarfélaganna minnka.
8. Vöruverð mun hækka vegna hækkunar raforkuverðs.
9. Rekstrarafkomu fyrirtækjanna á Vestfjörðum, sem eru burðarás atvinnulífsins, verður gert erfiðara fyrir. Það er löðurmannlegt.
10. Sala myndi ekki leysa fjárhagsvanda sveitarfélaganna til frambúðar.

Það hefur enginn mótmælt þessum rökum mínum um afleiðingar sölu, enda varla hægt, svo augljósar sem þær eru. Það hljóta allir að sjá, ef þetta yrðu afleiðingarnar, hvílíkt slys er hér á ferðinni gagnvart því fólki sem ætlar sér að búa hér til frambúðar. Hinum kann að vera sama sem geta pakkað niður á morgun og farið.

Á Vestfjörðum gæti þróast fagurt mannlíf. Við höfum alla burði til að snúa vörn í sókn ef meirihluti sveitarstjórnar er ekki að þvælast fyrir. Við misstum Gugguna til Akureyrar en viljum ekki missa Orkubúið þangað líka en það er einmitt það sem myndi ske ef Orkubúið yrði innlimað í RARIK. Þá héti það ekki lengur Orkubú Vestfjarða heldur Norðurorka hf.

Á meðan önnur sveitarfélög eru að efla sína raforkuframleiðslu erum við að láta okkar góða fyrirtæki upp í skuld. Þetta er glæpur gagnvart fólkinu sem býr á Vestfjörðum og ætlar að búa áfram á Vestfjörðum og ann sinni byggð. Við hér í Ísafjarðarbæ eigum margt sem við getum verið stolt af. Við erum með mjög góða skóla, íþróttaaðstaða er ágæt, sjúkrahús og heilsugæsla meðal þess besta sem gerist, vöruverð eitt það lægsta á landinu, glæsilegt hótel og ferðamannaiðnaður í sókn. Ekki má gleyma tónlistarlífinu sem er blómlegt enda er Ísafjörður kallaður tónlistarbærinn. Eflaust mætti margt fleira upp telja. Mín draumsýn er sú að byggja hér fyrirmyndar samfélag, burtséð frá öllum skuldum sveitarsjóðs. Það er mál sem hægt er að leysa á annan hátt en að fórna því besta sem við eigum. Það vantar aðeins framsýni og metnað.

Nú skora ég á alla Vestfirðinga að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma vitinu fyrir þessa sveitarstjórnarmenn sem eru í startholunum að selja möguleikana til bjartari framtíðar.

Jón F. Þórðarson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi