Grein

Ólafur Helgi Kjartansson.
Ólafur Helgi Kjartansson.

| 15.03.2001 | 16:20Ófærð og lokaðir þjóðvegir

Að gefnu tilefni eru orð þessi rituð. Grímur Lúðvíksson sendi pistil sem birtist í netútgáfu BB og bar sig illa undan pistli Magnúsar Ólafs Hanssonar sem birst hafði á sama vettvangi. Þetta virðist hafa verið óþarfi hjá Grími. Vart þarf að minnast á þann hörmulega atburð er kona varð úti í Gilsfirði. Þar komu saman allar verstu aðstæður. Veður var vont, fólk á skemmtun í Króksfjarðanesi mun hafa verið hvatt til þess að yfirgefa ekki félagsheimilið Vogaland. Skammt þar frá kom í ljós að sú viðvörun átti rétt á sér. Og enn erum við minnt á þá staðreynd að lendi í fólk í hrakningum á ökutækjum skal alls ekki yfirgefa þau. Ekkert getur breytt því sem orðið er. Aðstandendum er vottuð innileg samúð. Enginn veit nákvæmlega hvernig atburðarás var.
Lesandi góður. Því miður er það svo að margar ákvarðanir okkar mannanna reynast ekki sem skyldi. Breytir þar engu um þótt gefnar séu viðvaranir og leiðbeiningar. Svo virðist sem þær dugi ekki. Ef til vill erum við þar með minnt á hve litlu maðurinn ræður á lífsgöngunni.

Hvað varðar einstaka menn og för þeirra um Óshlíð er undirrituðum ókunnugt, en pistilhöfundur mun ekki hafa þurft að leita skjóls í vegskála í Óshlið, því flestir ef ekki allir munu hafa virt lokun utan við Hnífsdal.

Svo kann að vera að Magnús Ólafs Hansson hafi ekki brúkað orðalag við allra hæfi í pistli sínum. En meiningin var góð og átti fullan rétt á sér. Maður lagði á fjallveg, nánar tiltekið Eyrarfjall milli Ísafjarðar og Mjóafjarðar, sem Vegagerðin hafði sannanlega lokað og merkt sem slíkan. Engu að síður samræmist það ekki eðli Íslendinga, sem kannski telja sig enn vera víkinga og óháða öðru en meintum forlögum að lúta boði yfirvalda. Magnús hefur rétt fyrir sér í því að enginn á að koma sé vitandi vits í þá aðstöðu að valda sjálfum sér hættu, nánustu aðstandendum, eiginkonu og börnum, áhyggjum og óþörfu álagi. Björgunarsveitarmenn eru sjálfboðaliðar, sem leggja á sig ómælda vinnu og fyrirhöfn, án nokkurrar umbunar annarrar en þeirrar að vita að þeir sinna þörfum fólks í neyð.

Hvatning til fólks að virða réttmæta lokun og sýna fyrirhyggju virðist ekki duga. Þá er ekki annað úrræði en að fá sett í lög ákvæði sem banna og leggja á refsingar í senn. Þannig virðist að þungar sektir dugi einar til þess að menn virði lokanir. Því vart verður því trúað að þeir sem staðizt hafa ökupróf séu ekki læsir. Talsmaður Vegagerðarinnar staðfesti við undirritaðan að vegurinn um Eyrarfjall var lokaður í umrætt sinn. Það er kjarni málsins, sem greinarhöfundur er kvartar kemst ekki undan. Auk þess verður að ætlast til þess að menn kynni sér aðstæður.

Björgunarsveitarmenn frá Hólmavík voru nærri tólf klukkustundir að sinna þessu útkalli, því þeir komu ekki til baka fyrr en undir hádegi daginn eftir. Þeir eiga líka fjölskyldur og eru frá atvinnu sinni þegar þessum störfum er sinnt.

Vegum er ekki lokað nema Vegagerðin eða lögreglan telja brýna nauðsyn koma til. Þá verður að ætlast til þess að vegfarendur hlýði fyrirmælum. Næsta sunnudag eftir ferð pistihöfundar eignaðist hann félaga er bíll og bílstjóri voru sóttir á Eyrarfjall, þrátt fyrir lokun og merkingu þar um.

Að lokum þetta: Enn er brýnt fyrir fólki að leggja ekki í tvísýnu. Reynslan sýnir því miður að fyrirhyggja er aldrei nóg og varnaðarorð reyndra björgunarsveitarmanna eiga fullan rétt á sér.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi