Grein

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

Halldór Halldórsson bæjarstjóri | 26.10.2003 | 21:57Hugleiðingar um fjárhag og framkvæmdir – einkum Torfnesið

Á undanförnum árum hefur vinna og samþykkt fjárhagsáætlunar færst til, þannig að fjárhagsáætlun hefur verið lokið áður en viðkomandi fjárhagsár byrjar. Fyrir nokkrum árum voru jafnvel tveir til þrír mánuðir liðnir af fjárhagsárinu þegar áætlun var tilbúin.

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2003 var tilbúin og samþykkt eftir tvær umræður í bæjarstjórn í desember 2002. Á þeim tíma lá ekki fyrir hvaða leiðir yrðu farnar í húsnæðismálum Grunnskólans á Ísafirði, endanleg ákvörðun um fótboltavöll á Torfnesi lá ekki fyrir og ekki var búið að ákveða hvar Unglingalandsmót UMFÍ yrði haldið. Í ljósi þessarar óvissu var strax í desember ákveðið að fjárhagsáætlunin yrði endurskoðuð þegar mál skýrðust betur í tengslum við stærstu framkvæmdirnar, einkum grunnskólann á Ísafirði.

Þessi þrjú verkefni vega einna þyngst við endurskoðun fjárhagsáætlunar 2003 en því til viðbótar verður að nefna að útlit í atvinnumálum sl. vetur hafði þau áhrif að bæjarstjórn ákvað að flýta nokkrum verkum. Það er í samræmi við stefnu bæjarstjórnar, sem kynnt var í greinargerð með fjárhagsáætlun, um að leitað yrði allra leiða til mótvægis við stórframkvæmdir annars staðar á landinu.

Framkvæmdir

Á þessu ári hafa framkvæmdir á vegum Ísafjarðarbæjar verið töluvert miklar og mun meiri en hafa tíðkast þau fimm ár sem greinarhöfundur hefur starfað sem bæjarstjóri. Ástæður þessa eru auknir möguleikar bæjarins til framkvæmda eftir sölu á eignarhluta sínum í Orkubúi Vestfjarða, mikil uppsöfnuð framkvæmdaþörf, ákvörðun um Unglingalandsmót UMFÍ, ákvörðun um að gera lóðir byggingarhæfar á Tunguskeiði og lok framkvæmda við Safnahúsið Eyrartúni.

Þessi dæmi eru tekin af nokkuð stórum framkvæmdum en fleiri dæmi eru um stórar framkvæmdir í ár. Þar má nefna gerð snjóflóðavarnargarðs í Seljalandshlíð sem er fjármagnaður 90% af Ofanflóðasjóði og 10% af Ísafjarðarbæ skv. lögum um varnir gegn skriðuföllum og snjóflóðum. Hlut bæjarins í fyrrgreindum 10% lánar Ofanflóðasjóður á hagstæðum kjörum. Eins og flestum er kunnugt er sveitarfélögum skylt skv. sömu lögum og reglugerð að ljúka vörnum fyrir lok ársins 2010.

Ástæða þess að bæjarstjórn ákveður að hefja gatnaframkvæmdir á Tunguskeiði er sú, að bæjarfulltrúar líta á það sem skyldu bæjarfélagsins að hafa byggingarhæfar lóðir tilbúnar og stuðla þannig að framkvæmdum sem eykur bjartsýni og þor bæjarbúa. Nú eru að hefjast framkvæmdir við þrjú einbýlishús í hverfinu og munu áreiðanlega fleiri bætast við á næstunni.

Einnig vil ég nefna framkvæmdir í hafnamálum. Nú stendur yfir viðgerð á Ásgeirsbakka en kanturinn þar er orðinn mjög gamall og illa farinn. Stálþilið var orðið þunnt og sums staðar komin göt á það sem reynt hefur verið að sjóða í til bráðabirgða. Sé þilið án viðhalds í nokkur ár í viðbót er hætt við að það gefi sig alveg. Ný hafnalög tóku gildi 1. júlí sl. þannig að sveitarfélög þurfa að hraða nauðsynlegum framkvæmdum og viðhaldi, því eftir árið 2006 mun ríkið ekki styðja sveitarfélag eins og Ísafjarðarbæ við framkvæmdir og viðhald. Í dag leggur ríkið 60% af kostnaðinum fram en eftir 2006 mun ekki koma neitt frá ríkinu til sveitarfélaga af sömu stærð og Ísafjarðarbær. Þess vegna er nauðsynlegt með hagsmuni okkar í huga að ljúka nauðsynlegum framkvæmdum meðan þessir fjármunir eru fáanlegir.

Torfnes

Þegar þetta er ritað er reiknað með því að kostnaður við uppbyggingu á Torfnesi í sumar kosti um 90 milljónir kr. en endanlegt uppgjör verður í ársreikningi. Þar eru allar framkvæmdir innifaldar varðandi íþróttasvæðin og umhverfið. Einungis voru 19 milljónir til íþróttamála á fjárhagsáætlun enda lá ekki fyrir við gerð hennar hvar Unglingalandsmót UMFÍ yrði haldið eins og fram hefur komið hér að framan.

Þegar bæjarstjórn gekk frá fjárhagsáætlun ársins 2003 var talað um undirbúning grasvallar á Torfnesi og undirbúning íþróttahúss á Suðureyri. Niðurstaðan varðandi grasvöll á Torfnesi varð sú, að í stað þess að endurbyggja núverandi grasvöll fyrir 40 milljónir, en það hljóðaði kostnaðaráætlun upp á, var ákveðið að fara að tillögu BÍ um að byggja gervigrasvöll. Kostnaður við þann völl reyndist vera um 50 milljónir. Annar kostnaður við Torfnesið er því um 40 milljónir, þ.e. hlaupabraut og kastsvæði með tartanlögn, áhorfendasvæði, bílastæði og umhverfi svæðisins allt.

Þegar ákvörðun hafði verið tekin um byggingu gervigrasvallar og þegar UMFÍ hafði ákveðið að halda Unglingalandsmót sitt á Ísafirði ákvað bæjarstjórn að byggja góða frjálsíþróttaaðstöðu til framtíðar í stað þess að slá upp tímabundinni aðstöðu. Einnig var ákveðið að ganga endanlega frá öllu umhverfi vallarins, svo sem áhorfendasvæðum og bílastæðum, svo sómi yrði að. Heildarkostnaður, eins og áður segir, er áætlaður 90 milljónir og sótt hefur verið um 45 milljónir af því til fjárlaganefndar Alþingis.

Hvort sem myndarlegt framlag kemur frá fjárlaganefnd eða ekki hefur tekist vel til við Torfnessvæðið. Framkvæmdin er til fyrirmyndar, ásýnd bæjarins er enn glæsilegri og kostnaður er vel ásættanlegur miðað við reynslu annarra sveitarfélaga af sambærilegri uppbyggingu. Mikil ánægja var með landsmótið í sumar, hvort sem um var að ræða gesti eða heimamenn. Aðstaðan á Torfnesi býður upp á möguleika á að halda fleiri mót sem laða gesti til bæjarins.

Skipta má framkvæmdaþáttum svona upp:

Gervigrasvöllur – efni á hann boðið út, sem og útlögn. Sport Tæki fékk verkið.

Jarðvinna undir gervigrasvöll – boðin út, sem og uppsetning lýsingar, lagna og girðingar. Ásel fékk verkið.

Undirbúningur frjálsíþróttasvæðis, hlaupabraut, kast- og stökksvæði, lagnir, fylling og girðing – boðið út. Úlfar ehf. fékk verkið.

Hlaupabrautir og stökksvæði – samið við Sport Tæki um tartan og lögn þess.

Bílastæði – boðið út. Úlfar ehf. fékk verkið.

Áhorfendasvæði var ekki boðið út þar sem of mikil óvissa þótti um verkþætti og ýmsar mælingar þar. Auk þess var tími af skornum skammti. Þessi verkþáttur er í raun sá eini af stórum verkþáttum sem ekki var boðinn út.

Hjólabrettapallur var smíðaður og settur upp á Torfnessvæði. Það annaðist íþróttafulltrúi og starfsmenn hans.

Af þessari upptalningu má sjá, að verkþættir eru margir og í raun snerist verkið ekki einungis um íþróttaaðstöðu heldur almenna „andlitslyftingu“ svæðisins sem er eftir þessar framkvæmdir til mikils sóma.

Af og til koma upp spurningar varðandi gervigrasvöllinn og þá sérstaklega hvers vegna hann sé ekki upphitaður, hvort hann eyðileggist ekki án upphitunar og hvort byggt verði yfir hann. Því er til að svara, að kostnaður við upphitun vallarins var reiknaður út og var talið að miðað við fjögurra mánaða notkun á ári væri kostnaður rúmar 8 milljónir hvert ár. Það er einfaldlega of mikið og þess vegna var ákveðið að hafa hann ekki upphitaðan. Völlurinn nýtist engu að síður mun lengur en venjulegur grasvöllur því lengur er hægt að nota hann á haustin og hægt að byrja strax á vorin sé ekki snjór yfir honum. Venjulegur grasvöllur þolir ekki jafnmikla notkun og gervigrasvöllur og þess vegna verður nýting hans miklu meiri en þekkst hefur til þessa, fótboltaiðkendum til frekari gagns. Völlurinn eyðileggst ekki án upphitunar, víða eru svona vellir án hitakerfis og er góð reynsla af þeim. Ekki eru til neinar áætlanir um byggingu yfir völlinn enda er það mun stærra verkefni en Ísafjarðarbær hefur talið til þessa vera mögulegt fyrir fjárhag bæjarins.

Fjármagn, framkvæmdir, ráðstöfun

Stærstu framkvæmdirnar hafa verið tíndar til í þessari grein. Endurskoðun fjárhagsáætlunar er fólgin í því að taka þær formlega inn í fjárhagsáætlun ársins í ár. Endurskoðun á þessum tímapunkti þýðir samt ekki að þessar fjárhæðir eða framkvæmdir hafi ekki verið samþykktar. Allar þessar framkvæmdir hafa hlotið samþykki bæjarráðs og bæjarstjórnar en eru nú teknar saman vegna endurskoðunar fjárhagsáætlunar. Bæjarstjórn hefur verið meðvituð um þessar framkvæmdir og þörf fyrir þær.

Framundan er árið 2004 með töluverðum framkvæmdum, t.d. vegna húsnæðismála Grunnskólans á Ísafirði, íþróttahúss á Suðureyri, gatnaframkvæmda, snjóflóðavarna og þannig má lengi telja. Framkvæmdaþörfin er mikil en forgangsröðun er framkvæmd af bæjarstjórn og er sú vinna hafin um þessar mundir.

Niðurstaða rekstrar ársins verður sú, eins og reiknað var með í fjárhagsáætlun, að framkvæmt er fyrir hærri fjárhæð en reksturinn skilar einn og sér. Rekstur undanfarinna ára hefur einkennst af mikilli varfærni í framkvæmdum en það hafði auðvitað í för með sér meiri uppsafnaða framkvæmdaþörf.

Meðan á stórum framkvæmdum stendur, eins og reiknað er með á næsta ári, er ekki nægilegt fjármagn frá rekstrinum til framkvæmda. Þá kemur sér vel að hafa greitt skuldir niður og eiga fjármagn á sjóði til að standa undir slíku átaki í framkvæmdum.

Yfirsýn bæjarráðs og bæjarstjórnar yfir fjármál bæjarins eru góð enda skýrslu um reksturinn skilað mánaðarlega. Fjárhagsáætlanir hafa staðist á undanförnum árum. Nokkur mismunur varð á árinu 2002 en til hins betra því rekstrarniðurstaða varð verulega betri en reiknað hafði verið með.

Í lok ársins 2003 hafa 700 milljónir af sölu á eignarhlut bæjarins í Orkubúi Vestfjarða verið nýttar til að greiða niður skuldir Ísafjarðarbæjar.

Tekist hefur að fá fjármagn frá ríkinu á móti ýmsum framkvæmdum á vegum bæjarins. Má þar nefna fjármagn til menningarhúsa, vegagerðar í Tungudal og gatnagerðar og umhverfisverkefna á Flateyri auk fleiri verkefna. Þá liggur fyrir beiðni bæjarráðs til fjárlaganefndar um 45 millj. kr. framlag til uppbyggingar Torfnessvæðisins.

Bæjarstjórn tók þá ákvörðun á síðasta kjörtímabili að fara ekki í framkvæmdir vegna Landsmóts UMFÍ 2004. Þar var kostnaður áætlaður 282 milljónir. Það var hlutur bæjarins að fengnum 70 milljónum frá ríkinu eins og reiknað var með. Heildarkostnaður hefði því orðið um 350 milljónir. Þetta þótti bæjarstjórn of stór biti á of stuttum tíma. Framkvæmdin á Torfnesi er smærri í sniðum en skilaði okkur svipuðum fjölda á Unglingalandsmót eins og t.d. á síðasta Landsmót UMFÍ sem haldið var á Egilsstöðum.

Það var stór stund fyrir íbúa Ísafjarðarbæjar þegar Unglingalandsmót UMFÍ var sett við hátíðlega athöfn. Bærinn fylltist af gestum, margir þeirra höfðu aldrei komið hingað áður. Allar aðstæður voru hér eins og best verður á kosið, veðrið, íþróttaaðstaðan, tjaldsvæðin og þjónustan. Margir þessara gesta munu koma aftur í heimsókn til okkar eftir að hafa kynnst bænum og því hversu einfalt og auðvelt er að koma vestur. Þannig eru framkvæmdir sem bæjarstjórn ákvað við Torfnesið að skila sér á jákvæðan hátt fyrir bæjarfélagið okkar.

– Halldór Halldórsson,
bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi