Grein

Jón Bjarnason alþingismaður.
Jón Bjarnason alþingismaður.

Jón Bjarnason alþm. | 25.10.2003 | 11:14Að svara kalli

Bíldudalur var vagga þilskipaútgerðar og frumherjarnir ruddu braut nútíma fiskveiðum í landinu. Reist hefur verið minnismerki um Pétur, konu hans Ásthildi og son þeirra Guðmund Thorsteinsson, Mugg, sem fæddur var á Bíldudal.

Alveg fram á síðustu ár hefur Bíldudalur skipað mikilvægan sess í útgerð og fiskvinnslu hér á landi. Gjöful fiskimið, atorkusamir sjómenn og vinnufúsar hendur í landi áttu drjúgan hlut að því að gera okkur að einni ríkustu þjóð heims. Ef rétt væri á málum haldið og forgangsréttur byggðanna að auðlindum sínum tryggður, sæjum við hlut Bíldælinga áfram stóran í öflun þjóðartekna.

Varnarbarátta

Síðustu 10 ár hafa Bílddælingar háð stöðuga varnarbaráttu og mátt láta undan síga eins og reyndar flestar minni sjávarbyggðir. Að hagræða og leita fyllstu hagkvæmni í atvinnurekstri er sjálfsagt. En sú stefna sem krefst þess að heilu samfélögin séu „hagrædd í hel“ er miskunnarlaus gagnvart fólkinu og stórskaðleg þjóðinni er til lengri tíma er litið.

Íbúar Bíldudals unna sinni heimabyggð. Samfélög fólksins meðfram ströndum landsins og inn til dala mynda ákveðna grunngerð byggðarinnar og eru hin dýra auðlind, sem gerir okkur að þjóð. Búsetan er samofin sjálfbærri nýtingu náttúruauðlindanna til lands og sjávar. Vissulega verður ekki búið á öllum þeim stöðum sem voru í byggð um aldir. En hér er um allt annað að tefla.

Til sóknar

Nú verða allir að leggjast á eitt. Hjól atvinnulífsins á Bíldudal geta snúist af krafti á ný. En til þess þurfa að koma fiskveiðiheimildir sem verða bundnar byggðarlaginu til frambúðar. Liggi sú vissa fyrir, þá munu aðilar vera reiðubúnir til að reka þar arðbæra útgerð og fiskvinnslu. Bundnar eru vonir við kræklingarækt sem þar er hafin. Þar vantar stuðning sem samfélagið í heild hefur vel efni á að veita. Auðlindir í sjó, auðlindir á landi, náttúrufegurð, saga og menning, vinnufúsar hendur – allt er þetta til staðar.

Horft til þjóðkirkjunnar

Hinir miklu flutningar fólks milli landshluta og ör fjölgun á höfuðborgarsvæðinu leiðir til breyttrar skipan prestakalla. Samt er mikilvægt að kirkjan sýni visst þolgæði í þessum efnum. Sóknarprestur í þjónustu úti landi gegnir víðtæku hlutverki í menningarlífi og almennri samfélagsþjónustu byggðarlagsins. Fólkið ætlast til þess og býst við því. Í smábæjum og dreifðum byggðum er minna um sérhæfða félagsþjónustu, en nágrannasamfélagið skiptir þeim mun meira máli.

Á höfuðborgarsvæðinu eru nánast allir þættir samfélagsþjónustunnar með höfuðstöðvar sínar og víðtæka nærþjónustu. Hér er því nokkur munur á og réttlætir þá kröfu að haldið sé í sem flest prestaköll í dreifbýlinu þó fámenn séu. Prestar og störf þeirra eru veigamikill þáttur í menningar- og búsetumynstri landsins. Störf presta og skipan prestakalla eru því órjúfanlegur þáttur í velferð byggðanna á hverjum tíma.

Ákall Bílddælinga

Það er því í hæsta máta eðlilegt að íbúar Bíldudals leiti til biskups síns og kirkjustjórnar Íslands eins og til Alþingis og ríkisstjórnar um stuðning í erfiðri stöðu. Þeir biðja Alþingi og ríkisstjórn um stuðning til að mega sækja fiskinn á miðin sem þeir hafa sótt öldum saman og að vinnufúsar hendur í landi fái að breyta honum í eftirsótta vöru á erlendum mörkuðum.

Og þeir senda biskupi sínum og kirkjustjórninni bænarskjal undirritað af flestum íbúum kauptúnsins:

„Viljum við með þessu bréfi vekja athygli ykkar á að nú sem aldrei fyrr er einlæg ósk okkar að hingað komi prestur sem fyrst. Það er dapurlegt að núna þegar útlit er með svartasta móti í atvinnumálum okkar hér, þá sé rætt um að leggja Bíldudalsprestakall niður eða sameina það öðru. Hafi einhvern tíma verið þörf á presti, þá er það nú. Það er einlæg von okkar að við þessari beiðni verði brugðist hið fyrsta.“

Sóknarbörnin á Bíldudal bíða enn svars frá biskupi sínum og kirkjustjórninni.

Svörum kallinu

Það ætti öllum að vera dagljóst, að bæði þjóðkirkjan og ríkisvaldið, félagasamtök og einstaklingar, verða að taka höndum saman ef takast á að verja það byggðamunstur og það þjóðfélag sem menningarsamfélag okkar hefur byggst á um aldir. Það bera allir ábyrgð. Sóknarfærin eru fyrir hendi. Bíldudalur kallar á aðstoð og við eigum að svara kallinu.

– Jón Bjarnason,
þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðvesturkjördæmi.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi