Grein

Soffía Vagnsdóttir.
Soffía Vagnsdóttir.

Soffía Vagnsdóttir | 23.10.2003 | 15:04Opið bréf: Jæja Halldór – nú lætur þú til skarar skríða!

Allt frá því að ég flutti vestur fyrir fimm árum hafa umræður um hugsanlegan háskóla á Vestfjörðum verið svífandi yfir vötnum. Mismunandi mikið þó, í mismunandi áköfum og öflugum skömmtum, þar sem ólíkir einstaklingar hafa verið í forgrunni hverju sinni – en alltaf eitthvað. Maður og annar hafa bryddað upp á ýmsum hugmyndum um hvað ætti að kenna í þessum skóla, hver ætti að fylgja honum úr hlaði, hvað hann ætti að heita; ætti þetta að vera einhvers konar framhald af eða viðbót við Fræðslumiðstöð Vestfjarða, ætti þetta að vera útibú frá Háskólanum á Akureyri, Háskólanum í Reykjavík eða Háskóla Íslands, eða jafnvel frá einhverjum öðrum háskólum? Og alltaf er talað um háskólasetur. Hæverskan, segi ég!!

En ég spyr: Hver á þetta barn? Hver á hugmyndina að Háskóla Vestfjarða? Eða öllu heldur: Á einhver hugmyndina að Háskóla Vestfjarða? Eftir að hafa lent í umræðum um þetta mál á ótrúlegustu stöðum og innan ótrúlega ólíkra hópa, menntaðra sem ómenntaðra, stúdenta sem kennara, foreldra sem áhugamanna, sveitarstjórnarmanna sem landspólitíkusa, þá virðist umræðan ætíð enda á því að „...ég skil ekki hvers vegna er ekki bara látið til skarar skríða“.

Aðgengi að háskóla með aðsetur á Ísafirði er orðið jafnnauðsynlegt mál og að skrúfa frá krananum á morgnana til að getað burstað tennurnar. Það er orðið algerlega óviðunandi að enn skuli ekkert bóla á þessari stofnun.

Miklar umræður hafa verið um að mjög mikilvægt sé að hér verði búinn til sérstakur rannsóknagrunnur – vettvangur sérfróðra, háskólamenntaðra manna – áður en háskóli á svæðinu verði stofnaður svo að hann megi byggja á einhverjum grunni.

Í slíkri umræðu finnst mér eins og menn vilji að barnið fæðist um fermingu. Hversu öflugur var slíkur grunnur þegar Háskólinn á Akureyri fór af stað? Hann verður til þegar starfsemin hefst.

Enn bólar ekkert á raunverulegum hugmyndum um það hvers konar nám á að bjóða í þessum skóla. Þess vegna er tæplega hægt að búa til einhvern rannsóknavettvang tengdan skólanum á meðan ekki hefur verið skilgreint hvers konar skóli þetta á að vera. Það er nefnilega vandamálið, Halldór, – við erum ekki enn viss um hvað við viljum!

Það er fyrir löngu kominn tími til að færa vinnsluna um stofnun Háskóla Vestfjarða af umræðustiginu og yfir á framkvæmdastigið. Fjöldi manns hefur haft ýmislegt um málið að segja en nú er komið að því að framkvæma.

Nú vil ég leggja það til við þig, Halldór, sem einn af öflugustu talsmönnum Háskóla Vestfjarða – þú tekur eftir að ég segi ekki háskólasetur og tala ekki um útibú frá einhverri annarri stofnun – að þú stofnir Háskóla Vestfjarða! Þú skalt velja þér góða dagsetningu, t.d. 13. janúar nk. sem er fæðingardagur Hannibals Valdimarssonar, fyrrverandi skólastjóra á Ísafirði og föður fyrsta skólameistara Menntaskólans á Ísafirði, en þá verða 101 ár liðin frá fæðingu hans.

Þú skalt bjóða æðstu mönnum á sviði háskólamenntunar hingað vestur til þín, svo sem rektorum allra háskóla landsins og menntamálaráðherra og líka sjálfum forseta Íslands, og svo skaltu fá til liðs við þig besta listafólkið hér á svæðinu, panta íþróttahúsið á Ísafirði í tæka tíð og boða til stofnunarhátíðar Háskóla Vestfjarða á Ísafirði. Þú skalt bjóða öllum Vestfirðingum á hátíðina.

Þú skalt svo leggja til að háskólinn verði umhverfisháskóli (sem ekki er til hér á landi) og í honum verði kenndar greinar tengdar því sviði. Síðan skaltu leggja til að búin verði til önnur braut – kennaradeild fyrir tónlistarkennara sem sérhæfa sig í því að kenna á landsbyggðinni (er heldur hvergi til). Kennaramenntun tónlistarkennara er í ólestri og þar getur Háskóli Vestfjarða komið til bjargar.

Þú skalt svo sjá til þess að ráðinn verði skólameistari og skipaðir verði tveir ráðgjafahópar, sinn fyrir hvora deild skólans, til að hanna inntak námsins. Þá er ekkert eftir annað en að semja örlítið við ríkisvaldið og hefja síðan kennslu við háskólann að ári liðnu.

Þegar þessar tvær deildir hafa slitið barnsskónum skaltu koma með tillögu um fjölmenningardeild innan háskólans, sem verður þá eðlilegt framhald af þeirri braut sem byrjað verður að kenna í Menntaskólanum eftir áramót (er heldur hvergi til).

Nú skaltu láta hendur standa fram úr ermum, Halldór, koma Háskóla Vestfjarða á pappírinn með kennitölu og slíku með bravúr – og auglýsa svo eftir rektor og fólki sem nennir að vinna við hönnun á inntaki námsins og söfnun fjár – en ekki bara að tala.

Stundum er nauðsynlegt að fara óhefðbundnar leiðir til árangurs!

Ég lýsi mig hér með reiðubúna að vera með í vinnunni.

Það er kominn tími til að Vestfirðingar rétti almennilega úr bakinu og segi hvað þeir vilja. Þú ert góður málsvari, Halldór, og því finnst mér að þú eigir að gera þetta.

Annað var það nú ekki í bili!

Kveðja.
Soffía Vagnsdóttir,
Bolungarvík.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi