Grein

Guðni A. Einarsson og Óðinn Gestsson.
Guðni A. Einarsson og Óðinn Gestsson.

| 22.10.2003 | 16:04Vont er þeirra réttlæti: Opið bréf til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar

Samkvæmt fréttum fjölmiðla um úthlutun byggðakvóta hefur bæjarráð Ísafjarðarbæjar ákveðið að leggja það til við bæjarstjórn að hafast ekki að í því máli. Með því að skipta sér ekki af úthlutun byggðakvóta er bæjarstjórn í raun að taka ákvörðun um að mismuna þegnum bæjarins. Það er afar erfitt fyrir íbúa að trúa því, að þeir sem bænum okkar stjórna skuli taka þátt í að mismuna þeim eftir því hvar þeir hafa ákveðið búsetu sína innan sveitarfélagsins.
Verði niðurstaðan sú, að byggðakvóta sveitarfélagsins verði úthlutað eftir reglum sjávarútvegsráðuneytisins en ekki heimamanna, er það á ábyrgð þeirra bæjarfulltrúa er þá ákvörðun taka. Um leið er það áfellisdómur yfir þeim bæjarfulltrúum, sem réttilega voru kosnir til setu í bæjarstjórn og eiga, að flestra áliti, að gæta jafnræðis milli þegna sinna.

Hér að neðan eru gögn sem sýna hvar byggðakvótar undangenginna ára hafa lent ásamt skýringum þar að lútandi. Þetta eru tölur frá því um áramótin 2002/2003. Ekki eru inni í þeim tölum 160 tonna byggðakvóti sem kom til úthlutunar til íbúa á Suðureyri frá sama tíma.

Nú stendur til að úthluta aftur úr þessum sama byggðakvóta og það var von okkar sem á Suðureyri búum að úthlutunin kæmi aftur í þetta samfélag til eflingar á atvinnustarfsemi hér. Verði tillaga bæjarráðs samþykkt, þá verður svo ekki. Það er okkar álit, að hafi bæjarfulltrúar tækifæri til þess að koma í veg fyrir að íbúum og fyrirtækjum sé mismunað, þá eigi þeir að nýta það tækifæri. Reglur um úthlutun byggðakvóta fela í sér ranglæti sem er ekki byggðakvótaumræðunni til framdráttar. Það ranglæti geta bæjarfulltrúar leiðrétt, hafi þeir til þess vilja og kjark.

Því eru bæjarfulltrúar hvattir til þess að undirbúa vel sína endanlegu ákvörðun á bæjarstjórnarfundinum á fimmtudaginn.

Svona leit þetta út áður en til úthlutunar til Suðureyrar kom:

2002/2003

Staður – Magn

Þingeyri – 378 tonn*
Flateyri – 399 tonn
Suðureyri – 12 tonn**
Ísafjörður – 102 tonn***
Bolungarvík – 400 tonn****
Súðavík – 90 tonn*****

*Þar af vegna samdráttar á Suðureyri 115 tonn.
** Þessu til viðbótar komu síðan 160 tonn sem sækja þurfti sérstaklega um en eru ekki í áskrift eins og aðrir byggðakvótar.
***Þessu til viðbótar hafa komið til bætur vegna rækju og skelfisks.
****Þessu til viðbótar hafa komið bætur vegna rækju.
*****Um er að ræða áframeldiskvóta sem alinn er á vegum HG í Álftafirði og þessu til viðbótar hafa komið bætur vegna rækju.

Svona gæti þetta litið út ef tillaga bæjarráðs nær fram að ganga:

2003/2004

Staður – Magn

Þingeyri – 398 tonn*
Flateyri – 416 tonn
Suðureyri – 25 tonn
Ísafjörður – 158 tonn**
Bolungarvík – 466 tonn***
Súðavík – 120 tonn****

*Þar af vegna samdráttar á Suðureyri 115 tonn.
**Þessu til viðbótar hafa komið til bætur vegna rækju og skelfisks.
***Þessu til viðbótar hafa komið bætur vegna rækju.
****Um er að ræða áframeldiskvóta sem alinn er á vegum HG í Álftafirði og þessu til viðbótar hafa komið bætur vegna rækju.

Allra virðingarfyllst.
Suðureyri, 22.10.2003

– Óðinn Gestsson.
– Guðni A. Einarsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi