Grein

Jón Fanndal Þórðarson.
Jón Fanndal Þórðarson.

Jón Fanndal Þórðarson | 21.10.2003 | 22:50Hringleikahús

Skjólgott útivistarsvæði

Í umsögn umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 22. mars 1999 segir: „mjög skjólgott“ útivistarsvæði myndast vestan (innan garðsins). Þetta er gleðiefni, því við hér virðumst vera á algeru bersvæði og þurfum því á svona skjóli að halda fyrir byggðina og íbúana. Álitið er að þarna verði alger hitapottur og sólbaðsaðstaða hin besta. Hvort hitinn sem þarna verður kemur að ofan eða neðan mun tíminn leiða í ljós. Ekki vissi ég fyrr að skortur væri á útivistarsvæði fyrir íbúa Ísafjarðarbæjar. Úr þessu verður nú bætt með tilkomu garsins og er það vel.

1999 og 2002

Á árinu 2002 var okkur kynnt hættumat fyrir Ísafjörð og Hnífsdal. Bæjarstjórn hafði 6 mánuði til að ákveða hvað gera skyldi gegn þeirri vá sem sérfræðingarnir að sunnan tilkynntu okkur að við, ómeðvitað, byggjum við. Byggð hefur verið hér í fleiri hundruð ár án þess að íbúarnir gerðu sér grein fyrir því í hvaða hættu þeir væru. Þetta minnir mig á áttræða bóndans hans Péturs Tryggva, sem hleypur eins og tófa upp um fjöll og fyrnindi vegna þess að manneldis sérfræðingarnir hafa ekki náð honum til að kynna honum rétt fæðuval. Þessi áttræði bóndi, sem að vísu er kona, hefur nefnilega alla tíð étið allt sem að kjafti kemur og aldrei orðið misdægurt og þekkir ekki spítala nema af afspurn.

Okkur var gefinn kostur á að gera athugasemdir við hættumatið, sem undirritaður og gerði í 12 liðum. Að sjálfssögðu var ekki hlustað á þær athugasemdir, enda fyrirfram vitað, að það yrði ekki gert. En ég vissi ekki þá, að allt var löngu frágengið og ákveðið og hönnun garðsins lokið þremur árum áður, þ.e. í mars árið 1999, en okkur var gefinn kostur á að gera athugasemdir við framkvæmdina síðla árs 2002. Við vorum sem sagt höfð að fíflum.

Við ráðum engu hér um

Einn bæjarstjórnarmaður sagði við mig, þá er þetta mál bar á góma: „Við ráðum engu hér um.“ Bæjarstjórinn sagði nýverið í viðtali: „Við setjum fram okkar tillögur svo er það sérfræðinganna að taka ákvörðun.“ Þetta er allt satt og rétt og er ég ekki að gagnrýna þessi ummæli, hvorki bæjarstjórans né bæjarfulltrúans. Það er búið að taka alla ákvörðanatöku frá byggðarlögunum og færa hana í hendur sérfræðingana að sunnan og ráðuneytanna. Þetta er miðstýringin í öllu sínu veldi, sem var talinn einn versti löstur sovétkerfisinns í Rússlandi á Stalín-tímanum. Miðstýring var eitthvað vont, ættað frá Rússum og oft vitnað til í ræðum og ritum. Nú höfum við, þessi fámenna þjóð, tekið miðstýringuna upp og jafnvel gengið lengra en höfundar hennar sjálfir. Það næsta er að leggja niður sveitarfélögin og gera allt landið að einu kjördæmi. Guð almáttugur hjálpi okkur þá. Af hverju látum við þetta yfir okkur ganga? Erum við svona máttvana?

Hringleikahúsið

Nú hef ég horft á framkvæmdirnar í Seljalandsmúla um nokkurt skeið og jafnað mig eftir áfallið, sem ég varð fyrir við upphafi verksins. Nú vil ég af minni alkunnu bjartsýni láta nýta þá möguleika sem skapast hafa vegna þessara framkvæmda. Það sem er farið er farið.

Fyrir allmörgum árum átti ég þess kost að sigla um Miðjarðarhafið og kom þá m.a. til Rómar og Tyrklands. Á dögum Rómverja, fyrir og eftir upphaf vors tímatals, voru hringleikahús vinsælustu skemmtistaðirnir í Rómaveldi. Þau tóku fleiri þúsund manns í sæti. Frægast þessara hringleikahúsa er að sjálfsögðu Colosseum í Róm. Annað slíkt er í Tyrklandi, sem þá var eitt af skattlöndum Rómverja. Tyrkland hét ekki Tyrkland í þá daga, sú nafngift kom síðar. Þetta hringleikahús var í borginni Efeus. Þessi borg er löngu orðin rústir einar og marmaralagðar göturnar mannlausar en segja sína sögu. Á þessum tímum var ekki búið að finna upp malbikið né steypuna. Eina efnið til að setja varanlegt slitlag á götur var marmari en af honum áttu Rómverjar nóg.

Á báðum þessum stöðum sá ég rústir af hringleikahúsum frá því á dögum Rómverja og marmaralagðar götur. Þessi hringleikahús voru hoggin inn í klettaveggi og mynduðu sætaraðirnar hálfhring eða heilhring utan um leiksviðið sem var í botni gryfjunnar. Þessi hringleikahús voru undir berum himni enda loftslag hlýtt á þessum slóðum eins og væntanlega verður í botni gryfjunnar í Múlanum. Það skaut upp í huga minn, þá er ég leit upp í Múlann nýverið, (sem ég sjaldan geri af tilitssemi við sjálfan mig), hvort ekki væri hægt að gera þarna hringleikahús með svo sem 1000 sætum, sem hoggin væru inn í bergið. Ef þetta yrði gert, yrði þetta eina hringleikahúsið á norðurhveli jarðar og þó lengra væri leitað.

Það þyrfti að fara allar götur suður til Rómar til að sjá rústir af einu slíku. Rómverjar höfðu ekki önnur tæki til framkvæmdanna en þræla en af þeim áttu þeir nóg enda þrælar fleiri en frjálsir menn á þeim tímum. Þrælarnir voru jarðýtur, gröfur og skóflur þess tíma. Svona fleygir tækninni fram. Með nútímatækni og snilli hönnuða og sérfræðinga vorra, ætti þetta að vera auðvelt verk og þyrfti ekki að vera dýrara en hvað annað í framkvæmdinni í Múlanum. Sumum finnst þetta ef til vill vitlaust, en eins og kerlingin sagði, þá er ekki öll vitleysan eins.

Hvers vegna hringleikahús?

Vestfirskum sjómönnum, ásamt mörgum öðrum sjómönnum, er meinað að veiða fisk, nema nokkra daga á ári, með þeim neikvæðu afleiðingum sem slíkt hefur fyrir byggðarlögin í landinu. Fyrst við megum ekki veiða fisk, eins og við höfum gert í gegnum aldirnar, þá verðum við að gera eitthvað annað. Ferðamannaiðnaður er það sem mestar vonir eru bundnar við og er vinsælt umræðuefni á fundum með ráðamönnum. Sá iðnaður á allan vanda að leysa.

Einu sinni var í tísku að tala um loðdýrarækt og laxeldi, sem átti að bjarga byggðunum, einnig var talað um kanínurækt, álarækt, eða jafnvel kræklingarækt og krossfiskaeldi. Ekkert af þessu hefur gengið upp landsbyggðinni til bjargar, en ennþá er von og nú er vonin í ferðamanninum. En til þess að ná peningunum af ferðamanninum verðum við að kosta einhverju til. „Til hvers eru menn að ferðast?“ var heiti á viðræðuþætti í útvarpi fyrir nokkrum árum og svarið hjá ferðamálafrömuðinum var stutt og einfalt: „Til að skoða eitthvað.“ Þetta fannst mér mjög gott og tæmandi svar.

Ég legg því til, að samfara byggingu snjóvarnargarðsins, verði byggt hringleikahús að hætti Rómverja þarna í Múlanum, því aðstæður eru þar ákjósanlegar. Það ætti ekki að valda miklum aukakostnaði úr því sem komið er og ef þessi snjóvarnargarður á að kosta 400 milljónir, munar litlu þó svona 200 milljónum yrði bætt við, það yrði þó allavega atvinnuskapandi. Að sjálfsögðu yrðu þarna leiksýningar á sviði í botni gryfjunnar. Einnig mætti hafa þar ljónagryfju, einnig að hætti Rómverja. Ekki myndi það valda miklum aukakostnaði, þar sem fóðra mætti ljónin á verðlausu rollukjöti. Ef þetta yrði að veruleika myndi ferðamaðurinn örugglega hafa eitthvað að skoða og það myndi margfalda ferðamannastrauminn til okkar og skila það miklum hagnaði að hægt yrði að malbika götur bæjarins með marmara alveg eins og Rómverjar gerðu fyrir 2000 árum.

Með bjartsýnis kveðjum,
Jón Fanndal Þórðarson.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi