Grein

Óðinn Gestsson framkvæmdastjóri.
Óðinn Gestsson framkvæmdastjóri.

Óðinn Gestsson, Suðureyri | 13.10.2003 | 16:26Af hverju þetta fjaðrafok út af línuívilnun?

Þessa dagana, skömmu fyrir aðalfund LÍÚ, keppast útvegsbændafélög hringinn í kringum landið við að mótmæla línuívilnun. Ég freistast til að velta því fyrir mér hvort um samantekin ráð sé að ræða, því að mig grunar, að þvert ofan í þessar ályktanir séu aðilar innan þessara samtaka sem sjái að línuívilnun sé aðferð til þess að skapa meiri sátt um kvótakerfið í dag.
Hvaða réttlæti er það gagnvart áhöfnum á togurum, sem gerðir eru út frá Íslandi, að skelfiskbátar úr Breiðafirði fái úthlutun í bolfisk vegna þess að skelfiskstofninn er ofveiddur? Mér finnst það vera óréttlæti. Hins vegar getur það verið réttlætanlegt gagnvart þeim sem eru á skelfisbátunum, þannig að það verður að líta á þetta eftir því hvoru megin borðsins maður er. Ekki voru það áhafnir togaranna sem urðu til þess að skelfiskurinn kláraðist.

Hvað réttlæti er það gagnvart fyrirtækjum í sambærilegum rekstri að einhverjir fái úthlutað kvóta til fiskeldis? Hvað með þau fyrirtæki sem tekið hafa ákvörðun um að vera ekki í fiskeldisslagnum? Gæti það verið að við værum að skjóta sjálfa okkur í lappirnar með þessu brölti? Ég minni á þróun í laxeldi og hvað komið hefur fyrir fyrirtæki sem eru í þeim geiranum. Sem betur fer ekki íslensk fyrirtæki, ennþá.

Hvaða réttlæti fólst í því að úthluta veiðiheimildum í þorski til loðnubáta á sínum tíma þegar veiðar á loðnu drógust saman? Þessi kvóti var ekki tekinn til baka heldur seldu menn hann eftir að loðnan braggaðist aftur. Gagnvart hverjum var þetta réttlæti?

Hvaða réttlæti felst í því að úthluta til rækjubáta á ákveðnum svæðum bolfiskkvóta ef brestur er í veiðum á viðkomandi svæði? Sjálfsagt er það réttlæti gagnvart þeim sem hafa ekki verkefni en ekki gagnvart hinum sem þurfa örugglega meiri verkefni.

Hvaða réttlæti felst í úthlutun byggðakvóta til Tálknafjarðar, Bolungarvíkur, Flateyrar eða Ólafsvíkur gagnvart íbúum Grindavíkur og Suðureyrar, svo dæmi sé tekið? Ég sé ekki þetta réttlæti og sjálfsagt finn ég það aldrei í þessu kvótakerfi.

Ég tel að línuívilnun sé góð aðferð til þess að skapa sátt, ef menn á annað borð vilja sátt. Ég held að það sé fullt af aðilum í kvótakerfinu í dag sem vilja hafa innbyggða óánægju í kerfið og með því telji þeir hag sínum best borgið. Þeir telja að á meðan aðilar berast á banaspjót verði kerfinu ekki breytt það mikið að til skaða verði fyrir þá, t.d. varðandi framsalið. Meðan menn eru að slást um ívilnun, þá breyta menn ekki framsalinu svo nokkru nemi.

En hverjir eru helstu kostir línuívilnunar miðað við þær reglur sem talað hefur verið um að yrðu notaðar? Þá á ég við samþykkt ríkisstjórnarflokkanna. Kostirnir eru þessir:

1. Þeir sem veiða eru þeir sem njóta.
2. Hvati til þess að landa afla daglega.

Þetta er í raun alveg nægjanlegt fyrir mig sem rök í málinu. Mér er alveg sama hvort báturinn er stór eða smár. Það skiptir mig ekki máli en er betra eftir því sem báturinn er stærri.

Ég held að aðilar ættu að setjast niður sameinaðir. Þá á ég við aðila sem hagsmuna eiga að gæta. Ég lít á aðila innan LÍÚ og smábátamenn sem samherja í þessu máli. Ég lít svo á að það sé verkefni þessara aðila að koma málum þannig fyrir að íslenska þjóðin fái sem mest út úr þessari auðlind. Það er skylda þessara aðila að sjá um það. Það er alveg ljóst í mínum huga, að fái maður einhver réttindi umfram aðra, þá fylgja því jafnframt skyldur.

Í þessu tilfelli trúi ég að það sé gott fyrir íslensku þjóðina að útvegsmenn á Íslandi sameinist um þetta mál og ljúki því þannig að sómi sé að.

– Óðinn Gestsson, Suðureyri.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi