Grein

Ingólfur Kjartansson skólastjóri.
Ingólfur Kjartansson skólastjóri.

Ingólfur Kjartansson | 06.10.2003 | 09:30Íbúar Vestur-Barðastrandarsýslu, sameinumst!

Við erum stolt af því að búa í þessum harðbýla landshluta. Við erum stolt af því að vera þátttakendur og um margt leiðandi afl í þeim markmiðum sem þjóðin hefur sett sér, til dæmis í nýtingu eigin auðlinda. Við erum ekki síður stolt af því að til okkar er tekið sem áhrifavalda þegar kemur að umfjöllun um mótun sögu íslenskrar þjóðar í rúm ellefu hundruð ár.

Við erum Barðstrendingar. Við erum afkomendur þeirra sem hér fyrstir höfðu búsetu í okkar harðbýla landi, frumkvöðlar úr austurvegi. Það fólk átti því láni að fagna að dvelja á Barðaströnd og njóta þeirra landgæða og þeirrar náttúru sem þar er.

Þetta verðum við sem hér búum nú að hafa í huga þegar við eigum stöðugt meir og meir undir högg að sækja. Íbúum hér fækkar stöðugt. Um leið fækkar atvinnutækifærum sjálfkrafa. Sóknarfærum sömuleiðis. Allt tal um nýsköpun er framreitt fyrir stöðugt vondaufari eyrum. Þetta er auðvelda og örugga leiðin til auðnar.

Hvert er þá mótvægið? Hvar eru sóknarfærin? Hvernig á að virkja mannauðinn? Hvar á að hefjast handa við eflingu bjartsýni og vonar?

Hvar annars staðar en í okkur sjálfum? Hér er nefnilega margt að gerast sem er þess eðlis að efla bjartsýni, von og trú á kraftmeira mannlíf hlaðið tækifærum og tiltrú. Við eigum ekki stöðugt að kveina í þingmönnum og ráðherrum: „Hvar eru efndirnar“.

Slíkt tal er til þess fallið að beina ábyrgðinni frá þeim sem hana eiga að axla. Okkur sjálfum. Við eigum okkur hins vegar að sjálfsögðu hauka í horni þar sem eru kappsamir og ötulir stjórnmálamenn. En við vitum það vel, Barðstrendingar og Vestfirðingar allir, að hjá okkur liggur frumkrafturinn. Það höfum við sýnt svo oft. Þar ætlum við skólafólk að vera í fararbroddi og munum láta einskis ófreistað við að efla byggð og auka möguleika fólks á að búa hér, lifa, starfa og mennta sig. Á hvaða aldri sem einstaklingurinn er og hve mikla menntun sem hann hefur, í sinni heimabyggð á hann að hafa möguleika á að auka þekkingu sína á því sviði sem hann vill.

Sífellt fjölgar þeim einstaklingum í héraðinu sem stunda fjarnám á framhalds- eða háskólastigi. Þessa dagana er verið að setja upp tækjabúnað á fjórum stöðum í sýslunni sem á eftir að gjörbylta öllum möguleikum íbúa hennar til fjarnáms, á hvaða skólastigi sem þeir vilja stunda nám.

Verkefnið sem stendur að uppsetningu tækjabúnaðarins hefur sem slíkt hlotið nafnið „Dreifmennt í Vestur-Barðastrandarsýslu“. Um er að ræða metnaðarfulla framkvæmd, styrkta af menntamálráðuneyti og iðnaðarráðuneyti, sem ásamt því að byggja á frumkvöðlastarfi hér á landi sem og erlendis, mun nýta sér nýjustu tækni við frumraun í að innleiða nýja kennsluhætti í skólum. Til að byrja með munum við einbeita okkur að grunnskólastiginu. Þar eru sóknarfærin flest fyrir hinar dreifðu byggðir.

Sem markmið með þessu metnaðarfulla samvinnuverkefni skólanna í Tálknafirði og Vesturbyggð má nefna:

– Að leggja grunn að skólasamfélagi sem svari við breyttum aðstæðum.
– Að breyta ríkjandi hugmyndum um tilhögun náms og fræðslu.
– Að þróa samkennslu og efla samstarf milli skóla á svæðinu.
– Að auka og bæta gæði og fjölbreytni námsins.
– Að þjálfa kennara í nýjum og viðeigandi vinnubrögðum.

Ýmis fleiri markmið mætti nefna en þessi verða látin nægja að sinni.

Bætt aðstaða til menntunar í heimabyggð er miklvægur þáttur í þróun byggðar í Barðastrandarsýslu á komandi árum. Ef vel tekst til með þetta verkefni og ef okkur tekst um leið að virkja það til hagsbóta fyrir þá aðila sem vilja sækja sér framhaldsmenntun, þá er takmarkinu náð og þá eigum við bjartari tíma í vændum.

Við Tálknfirðingar höfum síðustu mánuði fylgst með örvæntingarfullri baráttu íbúa á Bíldudal fyrir þeim rétti sínum að fá að stunda atvinnu og búa þar sem þeim líður best og þar sem þeir vilja vera. Ástandið er í raun skelfilegt og hryggðarlegt til þess að vita, að eins búsældarlegt svæði og Bíldudalur og jafnvel Arnarfjörðurinn í heild sinni er skuli smám saman vera að leggjast í auðn sem búsvæði manna.

Ef fer sem horfir verður Arnarfjörður innan fárra ára minnismerki um ófullkomleika mannanna. Við viljum ekki láta það gerast. Hvert einasta starf á Bíldudal hefur margfeldisáhrif ekki einungis þar, heldur einnig hér á Tálknafirði sem og á Patreksfirði. Sýslan er í raun, með gjörbyltingu í samgöngum síðust ár, orðin eitt atvinnusvæði. Við erum öll mikilvæg, hvert og eitt okkar. Höldum því þannig og munum að ef við stöndum saman þá föllum við ekki.

Sameinumst því, íbúar Vestur-Barðastrandarsýslu, um að finna lausn á þeim vanda sem nú steðjar að. Framámenn í íslensku þjóðlífi, jafnt stjórnmálamenn sem og aðrir, hafa óhræddir haldið því fram að mikilvægt sé að styðja við bakið á okkur. Þessi orð eru okkur mikilvæg – en einungis ef orðum fylgja verk.

Tækifærin eru fyrir hendi. Ferðamannaþjónusta verður í framtíðinni mikilvægari grein í íslensku þjóðfélagi en annar iðnaður. Þar eigum við gríðarlega möguleika ef við vinnum saman. Nýtum tækifærin.

– Ingólfur Kjartansson,
Tálknafirði.

– Höfundur er skólastjóri Grunnskóla Tálknafjarðar.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi