Grein

Snorri Sturluson, trillukarl á Suðureyri.
Snorri Sturluson, trillukarl á Suðureyri.

Snorri Sturluson | 30.09.2003 | 10:18Línudans

Þegar maður eins og Konráð Eggertsson hrefnuskytta steig á stokk og söng einsöng með LÍÚ-kórnum, þá fannst mér nú meir en nóg komið. Maðurinn hlýtur að hafa drukkið yfir sig af hvalablóðinu og því runnið á hann þessi berserksgangur. Þarna kom hann flengríðandi á öldum ljósvakans og hellti úr sér óhroðanum yfir þrumu lostinn lýðinn. Og aðra eins vitleysu í umræðu um fiskveiðistjórnun hef ég ekki heyrt lengi og er þó af mörgu skrautlegu að taka.

Þessi margumrædda línuívilnun er ekkert annað en bónus fyrir þá sem vilja vera í flokki þeirra sem nytja Íslandsmið með vistvænum veiðarfærum. Með betri umgengni um miðin gefa þau okkur meiri uppskeru og þá aukningu á að færa þeim sem til hennar hafa unnið með vistvænleika veiðarfæra sinna. Sem sagt, það á ekki að taka neitt af öðrum.

Aukningin verður að sjálfsögðu tekin upp úr sjónum. Betri umgengni, meiri uppskera. Þannig virkar þetta og svo er vonandi að æ fleiri snúi sér að veiðum með vistvænum veiðarfærum. Krafa markaðanna í framtíðinni verður án efa einhvers konar umhverfisstimplun og ekki verra að huga að slíku strax.

Og svo er það LÍÚ-grátkórinn. Nú grenja þeir sem aldrei fyrr. Haldandi að nú eigi að skerða þá eitthvað, kroppa örlítið í ofgnóttina sem þeir hafa safnað til sín með góðu eða illu. Og fyrirtæki sem vita ekki aura sinna tal, enda komin í kvótaeign upp í þakið á kvótakerfinu, með bullandi rekstur erlendis og mikla uppbyggingu í fiskeldi, svo eitthvað sé nefnt, senda grátandi forsvarsmenn sína í fjölmiðla til þess að veitast að tilraunum hinna smáu til þess að rétta sinn hlut.

Kristján Þór Júlíusson grét mikið í ljósvakafjölmiðlum um daginn og sagðist vera búinn að tapa 2.000 tonna kvóta af Eyjafjarðarsvæðinu ef tillögur „smábátamanna á Vestfjörðum“ næðu fram að ganga. Auðvitað veit maðurinn ekkert hvað hann er að segja.

Í fyrsta lagi er hér ekki um að ræða tillögur „smábátamanna að vestan“, hér er verið að fjalla um Landsfundasamþykktir stjórnarflokkana og kjarnaatriði í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Í öðru lagi veit enginn í dag hversu mikil ívilnunin verður eða hvaðan hún verður tekin. Og það hafa ekki verið nefnd nein stærðarmörk báta í þessu sambandi.

Þá nefnir Kristján einnig, að ef svo færi sem horfði frá hans sjónarmiði séð, þá gætu 50 manns misst vinnu á hans svæði. En það er ekki langt síðan þeir Samherjamenn lugu Gugguna frá Ísafirði. Þá var ekki verið að spá í það hvort einhverjir Ísfirðingar misstu vinnuna. En kannske er atvinnuleysi í Eyjafirði alvarlegra mál en atvinnuleysi hér fyrir vestan. Hver veit.

Og Einar Valur Kristjánson geystist fram á ritvöllinn með grátstafinn í kverkunum. Hann heldur líka að það eigi að fara að taka eitthvað af sér. Og sú hugsun blindar forstjórann svo, að hann fær ekki með nokkru móti séð hina gífurlegu uppbyggingarmöguleika sem í línuívilnuninni felast fyrir svæðið í heild og hann þar með talinn. Hann talar um byggðirnar við Djúpið eins og ekkert annað skipti máli hér fyrir vestan. Ég veit að þar eru enn nokkrir togarar. En hversu lengi verða þeir þar? Það veit enginn, ekki einu sinni Einar Valur.

Línuívilnun á dagróðrabáta, stóra sem smáa, er almenn aðgerð sem til lengri tíma litið er ætlað að rétta hlut hinna dreifðu byggða í síharðnandi samkeppni og á því markmiði mega menn ekki missa sjónar. Og þegar sama aðgerð er bæði vistvæn og byggðavæn, þá er hún komin með forgang í mínum huga.

Og Einar Valur talar um það öryggi sem stærri bátar skapa við hráefnisöflun. Þetta er rétt hjá honum og ég tel að í línuívilnuninni felist einmitt tækifæri fyrir litlu þorpin til þess að eignast á ný öfluga línubáta til öruggrar hráefnisöflunar.

Já, hvað er stormur í vatnsglasi ef ekki þetta? Og allt vegna þess að þeir sem í upphafi fengu á silfurfatinu stóra réttinn til veiðanna halda að nú eigi að fara að skerða þann rétt örlítið. En það er ekki einu sinni verið að tala um það. Neinei. Málið er það, að menn sáu fyrir sér leið sem gæti lífgað upp á dapurt ástandið í smáu byggðunum sem margar urðu mjög illa úti við afnám þorskaflahámarksins fyrir tveimur árum án þess að þurfa að ganga á rétt annarra útgerða eða að auka álagið á lífríkið.

Og ef einhver er búinn að gleyma því, þá má árétta það hér að afnám þorskaflahámarksins í hitteðfyrra var eitt það hrikalegasta kjaftshögg sem strandbyggðunum hefur verið veitt.

Já, LÍÚ-drengir, takið ykkur nú saman í andlitinu, þurrkið tárin úr augunum og hættið þessu andskotans voli. Stöndum nú sameinaðir, Íslendingar, um eflingu landsbyggðarinnar með því að knýja á um það að koma strax í framkvæmd hinum góðu áformum ríkisstjórnarinnar til veiðarfærastýringar og mæta þannig kröfum umheimsins til framtíðar um sjálfbæra nýtingu á auðlindum jarðar. Aukinn vistvænleiki veiða, aukinn heildarafli, Íslendingum öllum til góða!

Það er kominn tími til þess að skríða upp úr sandkassanum og fara að ræða af viti um útfærslu og framkvæmd þessa þjóðþrifamáls.

– Snorri Sturluson, trillukarl á Suðureyri.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi