Grein

Benedikt Sigurðsson sundþjálfari.
Benedikt Sigurðsson sundþjálfari.

Benedikt Sigurðsson | 24.09.2003 | 09:00Íþróttabærinn Ísafjörður

Ágætu íbúar Ísafjarðarbæjar. Nú er nýafstaðið mjög svo vel heppnað Landsmót ungmennafélaganna, sem tókst vel í alla staði og geta þeir sem að því stóðu verið sáttir við sitt. Var íþróttaaðstaða bæjarins bætt til muna. Byggður var t.d. fótboltavöllur sem er eflaust mjög góður. En hversu lengi? Kom ekki til tals að hafa gervigrasið upphitað? Ég tel að með þessum hætti komi þessi völlur til með að verða ónothæfur eftir fáein ár, en það er aðeins mín skoðun. Ekki held ég að mottan þoli það að blotna og fá á sig frosthörkur í gríð og erg. Ég tel að verið sé að spara aurinn og henda krónunni í þessu tilviki. Kannski eru plön uppi um að slá utan um völlinn stálgrindarhúsi? Ég myndi fagna því.
Nú er komið að þeim tímapunkti að 25 metra sundlaug verði að byggja strax.

Ekki aðeins fyrir Sundfélagið Vestra, heldur fyrir almenning. Ég segi það blákalt, að börnum í Ísafjarðarbæ sé meinaður aðgangur að sundlauginni, nema í einstaka tilvikum. Laugin er opin á morgnana kl 7-8 þegar börnin eru að hafa sig til fyrir skóladaginn. Svo tekur við skólasund hjá Grunnskóla Ísafjarðar, því næst skólasund fyrir nágrannabyggðarlag, síðan tekur Sundfélagið við og loks almenningur. Þá er klukkan orðin 19.30. Ég spyr: Hvað mega blessuð börnin vera lengi úti? Ef bæjarráð svo ákveður að fara að leigja laugina öðrum nágrannabyggðum, þá er nokkuð ljóst að annað hvort Sundfélagið eða almenningur þarf að víkja.

Sundfélagið Vestri synti sig upp í 1. deild á síðasta ári. Til þess að halda stöðu sinni í 1. deild þarf félagið að hafa stálpaða sundmenn innan sinna raða. Sá hátturinn hefur verið á, að þegar krakkar komast á menntaskólaaldurinn fara þeir burtu í ríkum mæli í skóla og til æfinga með öðrum félögum sem hafa góða aðstöðu upp á að bjóða.

Ég tel að Sundfélagið muni á 2-3ja ára fresti vinna sig upp í fyrstu deild en nái ekki að halda stöðu sinni ef ekki verður brugðist skjótt við. Við verðum að geta setið við sama borð og fólk annars staðar á landinu hvað þetta varðar.

Ég hef fundið fyrir miklum þrýstingi frá almenningi um það að byggð verði ný sundlaug. Með 25 metra laug getum við farið að bjóða almenningi í sund samhliða sundæfingum. Ég vona að almenningur standi nú saman og þrýsti á um byggingu nýrrar sundlaugar nú strax á vordögum..

Virðingarfyllst.

– Benedikt Sigurðsson, Sundfélaginu Vestra.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi