Grein

Hjalti Einarsson | 18.09.2003 | 15:04Upp upp Ísafjörður

En ég gerði mér semsagt ferð til höfuðborgar Vestfjarða núna í sumar, eftir meira en áratugar fjarveru, og varð í alla staði mjög hrifinn. Bærinn virðist vera rísa upp og reka af sér slyðruorðið, – og menn hættir að væla einsog kettir um hvað allt væri nú betra ef þeir ættu aðeins meiri mjólk í skál. Kannski voru það bara brottfluttir Vestfirðingar sem það gerðu í fjölmiðlum á sínum tíma, – en allt um það, þá fannst mér fólk núna vera býsna bratt og skemmtilegt.

Hjónarúmið einsog tvær skúffur

Ég kom keyrandi inn í bæinn á föstudegi, skilaði af mér norðlenskri spúsu minni (sem hafði verk að vinna) og ók beint upp á Hótel Ísafjörð og skráði okkur þar inn. Í afgreiðslunni tók á móti mér einstaklega kurteis kona sem fann nafnið mitt og mátaði það við smettið á mér. Í fyrstu atrennu fékk ég þó ansi furðulegt herbergi sem mér leist engan veginn á, – hjónarúmið einsog tvær skúffur sem lágu langsum hlið við hlið – og hélt því aftur niður í afgreiðsluna. Ég stóð þar með lykilinn, eilítið hnýflóttur í framan – en áður en ég hafði minnst á það var ég búinn að fá nýtt herbergi uppi á efstu hæð þar sem fundarsalurinn var til forna. Ég varð himinlifandi og flutti pjönkur okkar þangað upp, skaut mér svo undir driflaugina, greiddi mér, klæddi og hnerraði, og var svo kominn út til að taka út bæinn.

Ég beið fyrst eftir þeirri norðlensku. Fékk mér sæti fyrir aftan hótelið og horfði á hinn fallega Kubba, þetta magnaða Fútsjífjall Skutulsfjarðar. Þegar hattaði fyrir henni stóð ég upp og við röltum okkur vestur eftir Hafnarstræti (sem núna er einstefnugata), og ég benti til hægri og vinstri og hafði tönn og tungu á öllu, – alla leið niður að kirkjunni. Þar stakk ég við fótum í hjartsvellandi angist.

Þetta hlandgula beltisdýr...

Amen í herrans nafni, hrópaði ég, – og fjörutíu. Hvað er þetta? Ég reyndi að sjá kirkjuna frá öllum hliðum, pírði augum og reyndi að sjá eitthvað fallegt við hana, – en vit mitt brást mér. Ég hafði að vísu séð hana þegar ég kom keyrandi inn í bæinn, en hélt þá að mér hefði missýnt, hélt að þetta hefði verið hilling undan krafti Jóns þumlungs. En nei, þetta hlandgula beltisdýr – sem kirkjan minnir helst á – er sannarlega ljótasta helvíti sem Drottinn hefur neyðst til að búa í af ánægju. Guð minn góður, og svo rúmast sjálfsagt allur fjandinn þarna fyrir innan, safnaðarstarf og annað slíkt.

Og nú byrjaði ég að blóta og ragna framan í einhvern óvaldan sem átti þar leið hjá: Hefði ekki verið hægt að fá eina litla kirkju frá Þjóðminjasafninu til að setja upp á grunni þeirrar gömlu, svona einsog Rauðsendingar fengu á sínum tíma þegar þeirra fauk út í veður og vind? (Eða lagfæra bara þá gömlu?)

Nei, hér þurfti greinilega að reisa enn eina kirkjuna sem ætti að breyttu breytanda að vera hægt að nota sem steypustöð í sömu mund. Maður gæti þá alltaf látið hella steypu yfir sig um leið og maður giftir sig og fest þannig hjónabandið með varanlegri efnum en loforðum.

Maðurinn sem ég talaði við vildi ekkert tjá sig um þetta, og hefur sjálfsagt álitið mig vera bölvaðan fant og beinmarka að sunnan. Og hafði hann þó nokkuð til síns máls. Ég hristi hausinn og við spúsa mín gengum okkur aðeins lengra til vesturs og ég horfði framan í gamla sjúkrahúsið sem hefur fengið dágóða upplyftingu.

Að sameina líf og dauða

Skrambi er þetta fallegt hús, sagði ég ánægður. En mætti ekki breyta Eyrartúninu hérna í skrúðgarð í stíl við þá tvo sem fyrir eru? Þetta er forljótt tún. Ég var að tala við spúsu mína einsog hún hefði vald yfir því hvernig hlutum væri hagað hér, en hún var ekki að hlusta á mig. Ha? Er það ekki?

Ég er alveg viss um að þetta opna svæði fer í taugarnar á fuglum sem fjúka hérna til og frá einsog spónadreif og vilja ekkert frekar en stór tré og fallega runna til að nudda sig upp við í kuldaköstum. Garðinn mætti svo tengja við kirkjugarðinn og sameina þannig líf og dauða á eðlilegri máta en raunin er í okkar teprulega nútíma. Slíkt nokkuð þarf að gera í meira mæli, þ.e. að minna á dauðann með mexíkóskri hreinskilni og læra þannig að sættast við beinserkjakarlinn Morte.

Nýja sjúkrahúsið, Hjálpræðisherinn, Sjallinn og skólinn

Sú norðlenska var ekki að hlusta, – var farin að tala um hungur sitt og ég var sjálfur orðinn svangur, svo við snerumst á hæli og gengum til baka. Ég benti henni á nýja sjúkrahúsið um leið og við ventum við því bakinu og ég var aftur farinn að halda ræður:

Þegar fram líða stundir, skal ég segja þér, verður þessu húsi breytt í harðkjarna fangelsi til að hýsa djöfullegustu fanga af sala illmúraðra fanta. Þarna verða þeir hýstir og munu horfa út á Pollinn í morgunsólinni og fá innblástur til að semja æði frumleg bílanúmer einsog t.d. Éc1bát, – enda nú þegar ekki mikið eftir af skipastól Ísfirðinga.

Spúsan geispaði. Við gengum okkur í átt að Sjallanum en þar höfðum við séð matsölustað. Í bakaleiðinni varð ég vitni að því að Gosi (söluturninn í skúrnum) var kominn undir sælan væng Maríu sinnar, Frábær og Mánakaffi ekki lengur til (hvað þá spilasalurinn með pac-man og space-invaders) – og fallegasta hús bæjarins, Hjálpræðisherinn, komið í götótta niðurníðslu. Húsið er samt glæsilegt í blómstrandi hrörnun sinni, en gæti vel staðið – væri hlaupið í stórar framkvæmdir – sem prýði bæjarins og stolt. Sérstaklega væri því komið í upprunalegt gistiform, eða í íbúðir sem væri hægt að leigja í nokkra mánuði í senn. Fyrir lista- og fræðimenn, brottflutta Ísfirðinga, sjómenn og bændur, eða réttara sagt alla þá sem áhuga hefðu á slíku.

Þetta er sögufrægt hús og þarna gistu vissulega frægir menn, t.d. þeir W.H. Auden (frægasta skáld Breta) og skáldbróðir hans MacNeice á sínum tíma; þarna fyrir innan sátu þeir og drukku spánskt brandí úr tannburstaglösum og spiluðu rommí að mig minnir. Þetta var árið 1936.

Ég útlistaði þetta fyrir konunni en hún var að deyja úr hungri. Og þar sem ég vildi ekki missa hana strax héldum við áfram og alla leið upp að Pizza 67. Uppsalir, – ó, ég minnist þín í draumum mínum.

Og svo kom ég þar inn. Annað áfall og amen! Sjallinn var orðinn að þriðja flokks búllu þar sem seldir eru óætir hamborgarar og aðeins skárri flatbökur undir nafni Pizza 67. Þar er bjórúrvalið slæmt (segi ég sem drekk bara Thule í flöskum) og á veggjum hanga sandgular myndir af mélkisulegum leikurum frá Ameríkunni. Allt mjög ófrumlegt og einstaklega smáborgaralegt. Starfsfólkið var aftur á móti alveg ágætt og vildi allt fyrir mann gera. Í raun á það við um allt starfsfólk sem ég komst í kynni við fyrir vestan og sannar að Ísfirðingar eru askotanum skárri og skemmtilegri í viðræðu enda oftast lausir við allt hispur og prjál í málfari. Ólíkt sjálfum mér.

En við borðuðum þarna af ágætri lyst og ég var sáttur við allt og alla. Eða það sagði ég alltént við konuna þegar við komum út. Henni fannst ég vera neikvæður en þá fór ég enn að halda ræður. Hún þurfti þá að fara sinna starfi sínu aftur og ég kvaddi hana í bili og hélt áfram að horna bæinn.

Og ákvað að byrja á því að líta á gamla skólann minn, gekk upp Austurveg, en kom samt ekki auga á hann í fyrstunni fyrir fjandans skólanum hænugula. En svo birtist hann loks. Nei, guð minn góður, hrópaði ég. Hvílíkt steypuslys og bíbölvað okaker! Barnsskólinn stóð þá þarna og hafði verið teygður og togaður út í gráa gagnfræðaskólann minn og hið fagurviðaða hús sem áður hýsti menntaskólann (les: gaml barnaskólinn).

Barnaskólinn nýi og sameinaði minnti mig á viðundur og helst á abstrakt fuglahræðu að veifa tveimur hröfnum, öðrum svörtum og hinum hvítum. Ég varð að faðma sundkonuna hans Simsonar til að halda jafnvægi og strauk brjóst hennar til að róa mig. Ég hugsaði með mér: Sá sem ber ábyrgð á þessum sambreysking ætti skilið að reist yrði flaggstöng á skólalóðinni. Há og mikil. Og hann fengi að hanga þar á hvolfi í tvo heila daga til að horfa á þessa vitleysu og öðlast visku.

Þessi húskubbur er herverk andskotans

Ég gekk burt niðurbrotinn maður en var skíthræddur um að hitta einhvern sem gæti sannfært mig um að þetta hefði verið nauðsyn. Ég gekk mig sömu leið til baka og tók að sproksetja þetta nýja verslunarhúsnæði Ísfirðinga, Neistann, og það með fúllyndu auga. En ég reyndi að halda ró minni. Fór þar inn og keypti mér upptakara úr pjátri. En ég gat ekki haldið aftur af mér, neikvæðnin królaði upp í mér. Ég reyndi að berjast gegn henni, en þá fór hún að tala í gegnum minn innri mann (þennan djöful sem aldrei borgar leigu).

Fjandinn sjálfur! Þessi húskubbur er herverk andskotans, hugsaði ég; kubbasniðs skítaklessa, reist í bílskúrsstíl húsanna í Skeifunni í Reykjavík og hefur ekkert sér til málsbóta nema að hægt er að fara inn í þetta smitsæfða helvíti og kaupa sér í matinn. Óskiljanlegt er að menn skuli ekki hafa reynt að reisa þarna verslunarmiðstöð í stíl við húsin sem hér stóðu fyrir, fært bæjarrönd þeirra kannski aðeins fjær, stækkað og ýkt og sameinað þannig nýja tímann og þann gamla. Bæjarrönd verslunarkjarnans hefði þá vakið athygli fyrir annað en að vera bara eitthvert þak yfir menn að lesa frosnar flatbökur og mjólk í körfur.

Ég greiddi fyrir minn upptakara og fór aftur upp á herbergi, opnaði Thule og horfði út um gluggann. Og allt í einu róaðist ég. Ah, Gamla bakaríið er þó ennþá til og Bókhlaðan. Guð blessi þessar stofnanir. Svo fékk ég mér annan sopa og leit aftur niður á torgið, og ég varð ennþá glaðari. Ég tók ofan ímyndaðan hattinn fyrir því sem ég sá því ég sá ekki betur en að Bókhlaðan hafði stækkað, breitt úr sér inn í Sportval – og slíkar tilfæringar eru einstakar, þ.e.a.s. að íþróttasóttin skuli hopa fyrir ritmenntaplágunni. Guð sé lof, hrópaði ég – enda lítill vinur íþróttanna og hef borið gæfu til að koma ekki nálægt sporti.

Tveimur klukkustundum síðar kom konan og við fórum að sofa. Sofnuðum snemma enda var ég þreyttur eftir að hafa bitið beinin úr hverju glugghrossi sem orðið hafði á vegi mínum.

Sindraberg og sússíið, Hamraborg og Alþýðuhúsið

Daginn eftir flutti ég rússin og hafurtaskið okkar upp í Sumarhótelið enda allt fullt á Hótel Ísafirði aðfaranótt sunnudags. Ég brunaði þangað uppeftir og fékk einstaklega góða þjónustu þegar í stað. Stúlkan í afgreiðslunni var sérstaklega þjónustulipur, tók upp símann og ætlaði að hringja hingað og þangað fyrir mig. Ég spurði sjálfsagt of mikið. Vildi hringja fyrir mig í Sindraberg t.d. og athuga með sússíið. Guð, já, þessi sússíframleiðsla er sjálfsagt ein magnaðasta nýjungin í heimi nýbreytni á Ísafirði; mér finnast sölbundin grjón með fiski (þ.e.a.s. sússí) með því besta sem ég fæ. Og þar hefur Sindraberg vinninginn alla daga yfir þetta Nings-drasl sem er selt hér fyrir sunnan. Ég ákvað að reyna að komast þar inn (en auðvitað var lokað þar þegar ég kom að enda komin rauðasta helgi).

En ég fékk gott herbergi á sumarhótelinu og var svo rokinn aftur út að skoða bæinn. Konan hafði farið í morgunsárið að sinna starfi sínu. Ég ók niður í bæ og lagði hjá Neistanum. Og ég var ekki fyrr stiginn út úr bílnum fyrr en ég fór ég að glöggrýna fram af nefi mér og starði á Hamraborg einsog persóna úr bókum Dickens. Jæjajá! Hamraborg hafði greinilega stækkað og tekið vexti. Ójá, verulega. Hún var þá orðin feit og pattaraleg, ekki sýndist mér annað, og ekkert við því að segja nema gott og vel. Og amen. Ég fann samt engan til að nefna þetta við svo ég tautaði þetta bara fyrir munni mér. En svona ef einhver les þetta, þá langar mig svona upp á grín og kannski til að fetta fingur út í þessa dauðans einsmennsku sem ríkir í sjoppum landsins, – því þar er allt eins og í næsta söluturni.

Hamraborg ætti vel, sýndist mér, að geta risið upp og skorið sig úr, staðið þarna í horni sínu og bragað af frumleika. Sumir myndu nú samt segja að sjoppa er bara sjoppa og ætti ekki að reyna að vera neitt annað. En ég spyr þá á móti: Afhverju er þá ekki aðeins reist ein tegund af veitingahúsum og arkitektar settir út á guð og gaddinn? Ég keypti Moggann og gekk svo upp Austurveg og fór að skoða hvað væri á hvítatjaldinu hér fyrir vestan. Ég hef alltaf verið hrifinn af Alþýðuhúsinu á Ísafirði og á góðar minningar þaðan. Og þarna var þetta dásamlega hús.

Ég gekk ánægður upp að því, upp tröppurnar. En hvað? Nei, fjandinn sjálfur! Er ekki búið að klæða Alþýðuhúsið í eitthvert nágrátt stenín! Ég gekk til hliðar við húsið og horfði upp á það. Þetta virðulega þriðjaríkishús stóð þá þarna fyrir framan mig einsog prestur sem hefur slysast til að fara í gráleitum golfleppum upp í stólinn. Úff, hugsaði ég og sperrti upp augabrýnnar í viðbjóði, – þarna hefðu menn nú átt að sjá sóma sinn í því að fá alvöru múrara og gera húsið upp af einhverri reisn. Ég leit í kringum mig en enginn virtist koma auga á þetta nema ég. Ég fór að efast um geðheilsu mína, eða smekk fólks almennt, eða bylta því fyrir mér hvort nútímanum væri um að kenna, virðingarleysinu.

Faktorshúsið í Hæstakaupstað í smjörgulum ljóma

Kannski tímaleysinu. Ég gekk Norðurveginn upp að Fjarðarstræti og rölti þar í austurátt. Allt í einu fylltist ég furðulegri tilfinningu, kennd sem ég kannaðist engan veginn við, – þessari skynjun sem fróðir menn kalla jákvæðni. Hvílíkt og annað eins, þetta var annarlegur fiðringur og óvenjulegur. Ég hafði þá fundið eitthvað sem mér líkaði, – en það hlaut að vera mínum hástæða smekk að þakka, hugsaði ég. Ég var að horfa á Faktorshúsið í Hæstakaupstað (gamla AA-húsið) sem stendur þar í smjörgulum ljóma. Ég gekk þar inn og þar var varla hræða fyrir innan.

Furðulegt helvíti! hugsaði ég. Fallegasta hús Ísafjarðar og hér var enginn. Ég gekk þar inn og settist. Og í þennan punkt lagði ég tvisvar sinnum leið mína það sem eftir var helgarinnar og fannst alltaf jafn skrítið hvað fáir Ísfirðingar stungu þar við stafni því að húsið er ótrúlega magnað. Þarna hefði ég viljað sjá heimspekilega stemmingu, sjá karla og konur sitja og fá sér bjór saman og tala út í alla heima og geima. Þeir sem reykja mega hér taka í nefið (því reykingar eru bannaðar innandyra) eða geta tekið sig til og skroppið út og hnerrað af sér sól og nikótín, – eða (á vetrum) sperrt augnaráðið út í storminn með sígarettuna klemmda milli sýldra tanna.

Já, hér var ég hæstánægður. Þau hjón sem reistu þetta hús upp úr öskustónni eiga heiður skilið, hvað sem líður öllum deilum um heiti þess og ruglinginn við hitt Faktorshúsið í Neðstakaupstað. Ah, þarna var gott að vera.

Húsin biblíusvört af tjöru og jastra af fornri sögu og frægð

Ég kvaddi eftir einn bjór (eða drakk ég fjóra?) og skrapp í Neistann og keypti mér virðulegan og svartan pakka af Sindrabergs sússí, fór með hann upp á sumarhótelið og beið þar þar til bitarnir þiðnuðu og át þá loks og drakk Thule úr flösku með. Betri skyndimáltíð er varla hægt að hugsa sér, sérstaklega miðað við það að þetta er aðeins svonefnt pakka-sússí. Áfram Sindraberg hugsaði ég og hugurinn fagnaði: Þetta er fullkomið! Gæti ekki verið betra. Hm, ja, það eina sem kannski vantar er sölulúga á verksmiðjuna sem væri opin allan sólarhringinn! Tilætlunarsemi? Neinei.

Jæja, að loknum málsverði gekk ég alla leið niður að sjóminjasafninu niðri í Neðstakaupstað. Húsin þar eru biblíusvört af tjöru og jastra af fornri sögu og frægð. Þar er gott safn í turnhúsinu og eitthvert fornt drasl sem dautt fólk á, – en bær sem lifir aðeins á sögu sinni og fyrri frægð er allt að því dauður og fífill hans ekki fegurri en ryðgaðasta amboðið. En Ísafjörður er ekki á þeim buxunum.

Og misskiljið mig ekki, – fortíðinni verður að hampa og hampa vel því hún er undirstaða framtíðarinnar, – og þann sem ekki þekkir handbragð langafa síns ætti að kjöldraga, tjarga og fiðra. Nema að sjálfsögðu sjálfan mig því ég er á undanþágu, – og ætla að kynna mér þetta allt eftir nokkra daga. En þarna var mjög ágætt safn og ég hitti þarna fornan félaga, loðnasta og skemmtilegasta mann vestan heiða, sem þarna er safnvörður, og leiddi hann mig í sannleika um allt sem þarna var inni. Samt saknaði ég litlu miðanna sem segja manni hvað amboðin heita því að ég skrifa nöfn þeirra alltaf hjá mér í litla minniskompu til að geta verið afar skemmtilegur í Bykó. Þar á bæ hata þeir mig einsog pestina.

Dansað í Krúsinni

Jæja, nú leið að kvöldi og ég saknaði þess að vera ekki orðinn fullur einsog í gamla daga. Ég fór og hitti spúsu mína (og ráðagóðan samstarfsmann hennar) í Faktorshúsinu í Hæstakaupstað og drakk nokkra bjóra. Svo var haldið á Hótel Ísafjörð og borðað. Maturinn var þokkalegur en hefði mátt vera betri. Að lokinni máltíð var haldið í Krúsina.

Aldrei hef ég komið inn á stað sem mér hefur líkað jafn vel við og þessa Krús; mér leið einsog ég hefði gengið inn í mína eigin sál og væri þar með að skoða sjálfan mig innan frá. Þarna var allt mjög fornlegt og frumlegt; Rúnar Þór að spila og kynnti marga þá sem inn komu með nafni í miðju lagi og sagði t.d. um einn, þegar hann var kominn út á gólfið, að hann dansaði eins og pabbi sinn. Þetta fannst mér einstaklega hnyttið og frumlegt og hef sjaldan skemmt mér jafn vel án þess að drekka miklu meira.

Og áður en ég vissi af var klukkan orðin þrjú. Þá varð ég að sjálfsögðu að ganga á dyraverði og segja þeim að klukkan væri ekki nema þrjú og hér ætti að vera opið til sex. Þeir sögðu mér að ég væri ekki staddur fyrir sunnan. Ég vissi það, – en úr þessu varð hin fjörugasta umræða þó aðallega hafi ég skemmt mér en þeim leiðst allt þetta endalausa kjaftæði sem kom upp úr einum manni. Fyrir utan var að sjálfsögðu mannstormur mikill, mikið ruglað og skrafað, – spurt um veislur og loks lá svo leið okkar í eina þá skemmtilegustu veislu sem ég hef farið í og það þó um margar veislur væri leitað.

Hvílíkt og annað eins. Ísfirðingar kunna ennþá að skemmta sér, það eitt er víst, – og þurfa ekki að láta skemmta sér. Hvílíkur söngur og hvílíkar birgðir af áfengi. Guð haldi verndarhendi sinni yfir svona löngum veislum. Og öllu þessu áfengi.

Skemmtilegasti bær landsins kvaddur

Daginn eftir var kjaftur minn að sjálfsögðu einsog lundahola og höfuðið ískraði einsog biluð viftureim. Spúsa mín var eitthvað brattari. Og svo, eftir að hafa legið í grasinu fyrir framan menntaskólann í tvo tíma (vembilfláka einsog kýr með doða), var lagt í hann og skemmtilegasti bær landsins kvaddur, – og ég var strax farinn að leggja drög að því að koma aftur svo ég gæti gengið um bæinn og notið þess að vera neikvæður út í dauðar byggingar. Einsog gamla kerlingin í Önnu í Grænuhlíð; þessi sem naut þess að rífa mikinn hrís og fetta fingur út í það sem auðvitað átti það skilið.

Á leiðinni út úr bænum sá ég það einnig í hendi mér að eyrina sem bærinn stendur á þarf að hugsa sem listaverk. Hún getur ekki bara farið sínu fram. Það verður að hugsa hana ofanfrá. Myndrænt. Ég leit á bæinn í baksýnisspeglinum og fagnaði því að ég hefði alist hér upp en ekki á Akureyri, þeim ágæta bæ, þar sem ég hef þó búið þrisvar sinnum. Svo brunaði ég inn í göngin og var næstum því búinn að keyra á bíl sem kom á móti mér, – helvítis sunnanmann sem vissi ekki að hann átti að keyra hægar svo ég kæmist í biðskotin í þessum andskotans göngum. Amen í nafni hinna fjörtíu, – og meðan ég blótaði honum vonaði ég að Ísfirðingar svæfu nú ekki af sér sjö fiskana og fengju til sín nokkra ítalska meistara til að hjálpa sér í byggingarlist áður en ég kæmi aftur. Og myndu fara að reisa turna hér og þar í bænum, því það vantar turna á Ísafirði, einsog í San Gimignano. Upp, upp, hugsaði ég, upp, upp, Ísafjörður.

– Hjalti Einarsson.

Höfundur sem nú er búsettur í Reykjavík er sonur Einars Hjaltasonar sem á sínum tíma var læknir á Ísafirði. Stundaði nám við Menntaskólann á Ísafirði „einhvern tíma á síðustu öld“ eins og hann orðar þar, mætti mánuði of seint í skólann ásamt einum félaga sínum eftir þriðjabekkjarferð til Grikklands og var þá auðvitað löngu búinn að skrópa sig út og var utanskólanemandi í fjórða bekk. „Ég átti marga góða og minnistæða kennara við MÍ. Þú kenndir mér sögu og íslensku. Ég lærði að fara á hundavaði yfir tittlingaskít, stikla á stóru (eða vaða á jökum) yfir vitleysu sem best væri að lesa þegar maður hefði betri tíma og lærði að forðast að hafa allt í belg og byðu í stílum. Ég get satt að segja ekki haft jafnmikið eftir neinum öðrum kennara við MÍ“, segir Hjalti í tilskrifi til ritstjóra bb.is neðanmáls með þessum hressilegu og vægðarlausu hugleiðingum (eða sleggjudómum) um gamla bæinn sinn.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi