Grein

| 02.03.2001 | 06:58Eru íþróttir aðeins stundaðar á Ísafirði?

Vegna skrifa Gunnars Þórðarsonar í Bæjarins Besta langar mig að fræða Ísfirðinga um íþróttastarf í Súgandafirði. Íþróttafélagið Stefnir var stofnað fyrir 95 árum og hefur haldið uppi íþróttastarfi í byggðarlaginu allar götur síðan. Félagsstarfið er með hefðbundnu sniði, aðalfundur einu sinni á ári og stjórnarfundir tvisvar í mánuði. Í ár eru félagar um 100 talsins, sem greiða félagsgjöld, og er áherslan aðalega lögð á frjálsar íþróttir og fótbolta.
Frjálsar íþróttir hafa verið stundaðar hér mjög lengi. Við höfum sent fulltrúa á Landsmót undanfarin ár sem hafa staðið sig með sóma. Á Unglingalandsmótið í Vesturbyggð og á Tálknafirði fóru frá Suðureyri 20 krakkar og unnu nokkur þeirra til verðlauna. Við erum með þjálfara allt árið og æfa 36 krakkar frjálsar íþróttir og fótbolta. Æfingar eru í Félagsheimili Súgfirðinga yfir vetrartímann og einu sinni í viku fáum við afnot af íþróttahúsinu á Torfnesi. Á sumrin erum við með æfingar á íþróttavellinum sem er ekki sá fullkomnasti en gerið sitt gagn.

Af þessu má sjá að það er hefð fyrir frjálsum íþróttum í Ísafjarðarbæ og að við treystum okkur til að senda keppendur á Landsmót á Egilsstöðum og taka þátt í hefðbundnum frjálsíþróttagreinum, þó að Gunnar Þórðarson treysti Ísfirðingum bara í pönnukökubakstur, dráttavélaakstur og að leggja á borð. Dýrfirðingar og Önfirðingar hafa sömu sögu að segja af þáttöku á Landsmótum og Súgfirðingar, efa ég ekki að við getum miðlað reynslu okkar til Ísfirðinga, svo við séum betur í stakk búinn til að halda Landsmót.

Gott og fjölskrúðugt íþróttastarf er undirstaða að góðu mannlífi og samstaða er nauðsynleg til að svo geti orðið. Er ekki kominn tími til að fólk átti sig á því að við búum í einu sveitafélagi í Ísafjarðarbæ látum ekki þetta tækifæri fara forgörðum og höldum veglegt Landsmót árið 2004 á Vestfjörðum í Ísafjarðarbæ, Bolungarvík og Súðavík.

Að lokum vil ég hvetja fólk til að koma og skoða sýningu um störf íþróttafélaganna sem haldin er í Grunnskólanum á Ísafirði dagana 1.-3. mars.

Jóna Kristín Kristinsdóttir,
stjórnarmaður í Íþróttafélaginu Stefni,
Suðureyri.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi