Grein

Pétur Tryggvi Hjálmarsson.
Pétur Tryggvi Hjálmarsson.

Pétur Tryggvi | 16.09.2003 | 11:51Um ómetanlegar hættur, öryggi og ráðgjöf

Höfum það í huga að ráðgjafar eru þannig skrúfaðir saman að fyrsta boðorð þeirra er að gera sig ómissandi. Einföldustu hlutir eru matreiddir fyrir okkur á mjög flókinn hátt, með það að markmiði að við skiljum þá ekki, en trúum því að orðagjálfrið og útreikningarnir hljóti að vera ofar okkar vitsmunum og að sjálfsögðu réttir. Þeir spjalla greindarlega í sjónvarpinu, háfleygt og frómt, en þar er ekki talað um skóflu sem skóflu, heldur verður skóflan að „úrlausnartæki sérstakra jarðvegsframkvæmda“ og útreikningarnir stóðust ekki vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna. Fjarlægð okkar frá raunveruleikanum á að veita okkur öryggi.
Við höfum sljóvgast gagnvart upplýsingakerfi náttúrunnar en trúum í staðinn á vel upplýsta ráðgjafa okkar. Við hræðumst þann fræðilega möguleika að náttúran ógni okkur einhvern tíma og trúum því að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að eyðileggja hana. Eftir því breytum við. Við byggjum okkur varnargarða út frá hættumati verk- og veðurfræðinga og drekkjum náttúrunni með virkjanaframkvæmdum til að þjónusta erlenda auð- eða vítahringa. Engar náttúruhamfarir hafa hingað til staðist manninum snúning í skemmdarverkum.

Sú hætta sem manninum stafar af honum sjálfum er ómetanleg. Þegar þessi orð eru rituð er utanríkisráðherra Svíþjóðar nýmyrtur. Blóðbað er hluti af lífinu fyrir botni Miðjarðarhafs, þúsundir manna hafa verið drepnar í Írak, einu sinni enn, og í þessum heimi okkar deyja tugþúsundir barna úr hungri á hverjum sólarhring. Börn í Bandaríkjunum verða væntanlega að mæta í skólann í skotheldum vestum, með hjálm á höfði og gasgrímu í töskunni, áður en langt um líður. Allar þessar hættur er ekki hægt að meta eða sjá fyrir vegna þess að þær eiga sér uppruna í heilabúi hins siðmenntaða manns.

Siðmenntaði maðurinn hefur til dæmis ráðlagt okkur hvað við eigum að borða til að líta rétt út en það hefur leitt til þess að offita og lystarstol (anorexia) er orðið stórvandamál í ráðgjafalöndunum. Á sama tíma hleypur áttræður bóndi eins og tófa upp um fjöll og firnindi eftir verðlausum kindum sínum, en hann hafa leiðbeinendurnir ekki náð í til að kynna fyrir honum hollt matarræði og líkamsrækt. Hann reykir pípu.

Enn er nóg til af fólki sem trúir á lífið, tilveruna og náttúruna. Á meðan því fólki fer fækkandi fjölgar ráðgjöfum, stjórnendum, nefnda- og ráðstefnuflökkurum, vegna þess að það getur ekki verið meiningin að þeir sem hafa öðlast stúdentshúfu fái aldrei tækifæri til að sanna gildi hennar.

Í áttæringi voru áður fyrr átta ræðarar og einn stýrimaður. Nýlega skipuð nefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að stjórnandinn viti best. Þess vegna ætti báturinn að verða hagkvæmari ef um borð væru átta stýrimenn og einn ræðari. Eiganda bátsins fannst þetta góð hugmynd enda greiða þegnarnir fyrir rekstur hans.

– Pétur Tryggvi.

Höfundur er silfursmiður á Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi