Grein

Sr. Valdimar Hreiðarsson.
Sr. Valdimar Hreiðarsson.

| 01.03.2001 | 10:31Athugasemd vegna níðgreinar

Sannleikselskandi lesara heilsan!
Í Bæjarins besta, héraðsfréttablaði á Ísafirði, birtist sl. miðvikudag níðgrein þar sem er veist að æru og starfsheiðri sr. Valdimars Hreiðarssonar, sóknarprests í Staðarprestakalli, með óvenju rætnum hætti. Ekki verður hjá því komast að greina frá eftirfarandi atriðum til að sannleikur málsins nái að komast fyrir augu sannleikselskandi lesenda:
Fólki hefur því miður fækkað mjög í byggðunum í Ísafjarðarsýslum undanfarna áratugi. Langt er síðan að byrjað var að leita leiða til að hagræða í skipulagi prestsþjónustu á svæðinu. Einn liður í þessu starfi var að sameina Vatnsfjarðarprestakall og Staðarprestakall og leggja Súðavíkursókn til hins nýja prestakalls. Eðlilegt þótti að sá prestur er þjónaði nýju prestakalli, hver sem hann eða hún væri á hverjum tíma, nyti hlunninda þeirra er fylgdu Vatnsfjarðarprestakalli og hefur öldum saman verið ætlað að standa undir hluta kostnaðar við prestsþjónustu í prestakallinu. Var einnig talið að hirðingu nytjanna fylgdi nokkur yndisarður er gerði prestsþjónustu í stóru og fámennu prestakalli meira aðlaðandi en ella.

Engar þessara hugmynda verða raktar til sr. Valdimars Hreiðarssonar, núverandi sóknarprests í Staðarprestakalli, þó svo að hann hafi, eftir að þær komu fram, unnið að framgangi þeirra á vettvangi kirkjunnar í samvinnu við aðra presta og kirkjufólk, fyrst og fremst með hagsmuni safnaðanna í huga. Þess skal getið, að þó svo að sóknarbörnum hafi fjölgað um meira en helming í nýju prestakalli og kirkjur orðið átta talsins í stað tveggja, þá breytast laun prests ekki.

Á annan dag páska á síðastliðnu ári var messað í Ögurkirkju. Sóknarnefnd Vatnsfjarðarsóknar auglýsti guðsþjónustuna í Vatnsfjarðarsókn, enda litið á hana sem sameiginlega guðsþjónustu safnaðanna í sóknunum tveimur. Enginn hreyfði andmælum við því fyrirkomulagi að sóknirnar tvær sameinuðust um guðsþjónustur og yrði skiptst á um að messa í kirkjunum í Ögri og Vatnsfirði. Fjölmenni var við guðsþjónustuna og var þetta eftirminnileg og góð stund. Að þessari guðsþjónustu lokinni var haldið sjóveg til Melgraseyrar og messað þar, einnig við húsfylli.

Sr. Baldur messaði í Melgraseyrarkirkju í lok ágúst. Til hafði staðið að sr. Valdimar og sr. Baldur þjónuðu þar báðir, skv. sérstakri beiðni sameiginlegs vinafólks beggja. Sr. Valdimar lagðist hins vegar inn á sjúkrahús á Ísafirði í vikunni fyrir guðsþjónustu vegna bakveiki og gat ekki tekið þátt í guðsþjónustunni. Þessi veikindi höfðu háð sr. Valdimar allt sumarið árið 2000, og urðu þar að auki til þess að skipuleg prestsþjónusta í Súðavík hófst ekki fyrr en í október sl.

Til stóð að messa í Vatnsfjarðarkirkju á annan dag jóla. Kom þá í ljós, að organistinn komst ekki til Vatnsfjarðar, en átti auðveldar með að komast til Ögurkirkju. Var þá haft samband við formann sóknarnefndar í Vatnsfjarðarsókn og leist honum vel á þá tilhögun mála að hafa sameiginlega guðsþjónustu í Ögurkirkju og gerði aldrei neinar athugasemdir við þá skipan mála. Tók formaður sóknarnefndar í Vatnsfjarðarsókn að sér að auglýsa guðsþjónustuna í Ögurkirkju.

Á Langadalsströnd er sú hefð löngu komin á, að messað er á víxl í kirkjunum á Melgraseyri og Nauteyri. Sl. jól var komið að messu á Nauteyri. Sr. Valdimar bauðst til að messa á jóladag í Nauteyrarkirkju, einnig á þriðja dag jóla og alla daga allt fram að gamlársdegi að honum undanteknum, auk þess sem hann bauðst til að messa á nýársdag. Enginn þessara dagsetninga hentaði því sóknarnefndarfólki í Melgraseyrar- og Nauteyrarsóknum, er sr. Valdimar ræddi við. Hefðin er sú á Langadalsströnd, að messað hefur verið þar á öðrum degi jóla, og reyndist ekki hægt að breyta því. Var einnig um það að ræða, að á svæðinu voru gestir, sem höfðu hugsað sér að halda á brott að kveldi annars dags jóla eða morgni þriðja dags jóla. Leitaði sóknarnefndarfólkið því til sr. Baldurs, sem lét tilleiðast að messa í Nauteyrarkirkju á öðrum degi jóla.

Í DV fyrir skömmu birtist viðtal við sr. Valdimar Hreiðarsson í kjölfar fréttar sem byggðist á viðtali við sr. Baldur Vilhelmsson. Er viðtalið við sr. Valdimar ónákvæmt í veigamiklum atriðum og ekki síst þeim er helst er byggt á í fyrrnefndri níðgrein. Þar stendur því lygin á grunni ósannsöglinnar. Ekki verða eltar ólar við það frekar á þessum vettvangi.

Ekki rekur neinn minni til þess að til hafi staðið að reka sr. Baldur af heimili hans í Vatnsfirði gegn vilja hans.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi