Grein

Guðjón Arnar Kristjánsson.
Guðjón Arnar Kristjánsson.

| 01.03.2001 | 10:27Vestfirðingar – seljum við allt sem við eigum?

Við höfum horft upp á það að atvinnuréttur fólks er seldur burt. Fiskveiðar og fiskvinnsla og þjónusta sem staðið hafa traustum fótum í mörgum byggðum eru nú aðeins svipur hjá sjón borið saman við það sem var fyrir aðeins einum áratug. Þessi lýsing á við víða um land og hefur af þeim sem þessar línur skrifar verið gefið nafnið „eyðibyggðastefnan“.
Ég er á þeirri skoðun að þessar afleiðingar hafi fylgt því að árið 1990 var með nýjum lögum nr. 38 um stjórn fiskveiða gefið alfrjálst að ráðstafa aflakvótum. Kvótabraskið var sem sagt gefið alfrjálst og þeim sem veiðiréttinn hafði, útgerðinni, gefið sjálfdæmi um hvenær, hvert og hvort þeir vildu selja óveiddan fiskinn í sjónum sem synti úti fyrir ströndum sjávarbyggðanna. Við getum bent á hver fékk úthlutað veiðiréttinum og hver seldi réttinn burt, en það breytir ekki þeirri vondu stöðu sem upp er komin í mörgum kvótalitlum sjávarbyggðum.

Löggjöf eyðibyggðastefnunnar

Orsök þess að þetta gerðist, sem vissulega mátti sjá fyrir og sá sem hér heldur á penna varaði mjög við áður en lögin voru sett snemma árs 1990, er sú, að réttarstaða fólks í byggðunum var sett algjörlega til hliðar og með lögum frá Alþingi var kvótaréttarhafanum gefið frelsi til þess kvótabrasks sem honum hentaði á hverjum tíma. Alþingi tók þá ákvörðun að gefa atvinnuréttinn. Það voru síðan gjafþegarnir sem tóku þá ákvörðun að selja veiði- og vinnuréttindi burt og njóta ávaxtanna.

Mistökin voru og eru Alþingis og þingmönnum mátti vel vera ljóst, að þegar mönnum er gefið kvótabraskfrelsi og afnumin með öllu höft sem gátu viðhaldið atvinnuréttinum hjá byggðunum og því fólki sem þar býr, þá fóru kvótarétthafarnir að selja og síðan er kvótabraskkerfið réttnefnd eyðibyggðastefna. Við getum sent þeim tóninn sem seldu gjafirnar (kvótann) sem Alþingi gaf, en það eru aðeins alþingismenn sem geta bætt fólkinu þetta misrétti með breyttum og betri lögum sem virða atvinnu- og byggðarétt fólks. Þau lög verða að ganga á einkahagsmuni kvótaerfingjanna og það ber að gera.

Seljum ekki Orkubúið

Á Vestfjörðum stendur hins vegar til að selja burt annan rétt íbúanna og það eru enn sem komið er ekki alþingismenn sem standa fyrir þeim áformum. Það eru sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum sem virðast stefna til þess að selja burt næstu réttindi íbúanna, Orkubú Vestfjarða, sem sér íbúum fyrir orku og á að ég best veit svo til allan vatnsfallsrétt á Vestfjörðum og einnig hitaréttindi í jörðu, sem og fjarvarmaveitur og dísilrafstöðvar.

Erfiðasta spurning sem ég hef fengið á ferðum mínum um landið að undanförnu er eitthvað á þessa leið: Hvernig stendur á því að svo virðist sem sveitarstjórnarmenn og jafnvel talsverður hluti íbúanna til viðbótar er nú að lýsa vilja til þess að selja frá sér orkuréttinn? Er ekki nóg að ykkur vegið þó að þið reynið sjálf að verja það sem þið eigið? Hver á að hlusta á rök ykkar í atvinnu- og byggðamálum þegar þið sjálf viljið selja ykkar framtíð? Önnur landsvæði eru frekar að reyna að eignast orkufyrirtæki og nýta þau til atvinnuuppbyggingar. Eru Vestfirðingar svo illa farnir að eignasala orkuveitunnar sé það eina sem bjargi málum um stundarsakir? Já, hverju svarar þingmaður fólki í öðrum landshlutum svona spurningum?

Aldagamall hefðarréttur

Ég hef vissulega reynt að skýra það út að við eigum allt okkar undir því að fá áfram að stunda botnfiskveiðar í friði. Það er mörg hundruð ára hefðarréttur vestfirskra byggða að lífsbjörgin sé fiskveiðar. Það liggur líka á borðinu að þorskveiði var uppistaðan í tekjuöflun Vestfirðinga áratugum saman og í 15 ár, fram að kvótabraskfrelsinu 1990, var þorskaflinn á Vestfjörðum um 55 þúsund tonn á hverju ári. Auðvitað snarminnka tekjur og umsvif í sjávarbyggðum vestra við brotthvarf botnfiskkvótans og engan eiga Vestfirðir loðnu- eða síldarkvóta til bjargar.

En nú snýr orkubússalan, ef af verður, að okkur sjálfum, fólkinu og sveitarstjórnarmönnum. Er ekki rétt að berjast fyrir því að halda því sem við höfum og krefjast þess réttar okkar að fá að veiða fiskinn á miðunum? Sala Orkubúsins vermir um sinn í tómum sveitarsjóðum. Við björgum engu til framtíðar með þeirri sölu. Notum Orkubúið til að hefja framkvæmdir við nýjar virkjanir og skapa betra mannlíf og framtíð fyrir Vestfirði.

Guðjón Arnar Krist-jánsson, alþingismaður.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi