Grein

Einar K. Guðfinnsson alþingismaður.
Einar K. Guðfinnsson alþingismaður.

Einar K. Guðfinnsson | 02.09.2003 | 10:03Til þjónustu reiðubúin fyrir landið allt

Fjölmenningarsetrið á Ísafirði sem hefur starfað um nokkur ár hefur sýnt og sannað tilverurétt sinn. Stofnun þess var rétt og tímabær ákvörðun og við þurfum að styrkja starf þess í framtíðinni. Það á að vera öflugt setur sem sinnir landinu öllu og vera miðstöð ríkisvaldsins á þessu sviði. Þannig var þetta hugsað í upphafi og engin ástæða til þess að breyta því.
Með stofnun þess vildum við fyrst og fremst bæta þjónustu við nýbúa, fólk sem flust hafði hingað til lands, oft úr fjarlægum heimkynnum. Við vildum koma í veg fyrir fordóma og stuðla að góðri sambúð fólks. En síðan vildum við sem stóðum að málinu líka sýna og sanna að hægt væri að sinna þessum verkum af landsbyggðinni, ekki bara úr Reykjavík. Nú hefur það tekist.

Reynt að koma í veg fyrir Fjölmenningarsetrið

Ég man vel hvað mjög var reynt að leggja stein í götu málsins á bernskudögum þess. Ótrúlegt var að fylgjast með hvernig málsmetandi fólk reyndi ítrekað að koma í veg fyrir þessa þjónustuuppbyggingu á Ísafirði og vildi setja hana niður í Reykjavík. Það tókst að koma í veg fyrir slíkt. Ekki síst vegna staðfestu Páls Péturssonar, þáverandi félagsmálaráðherra.

Þó var mér kunnugt um að hörð hríð var gerð að honum vegna þess arna af hálfu þeirra sem gátu ekki hugsað sér að þessi starfsemi yrði úti á landi. Undir forystu Arnbjargar Sveinsdóttur þáverandi formanns félagsmálanefndar Alþingis var málinu siglt í höfn á þinglegum vettvangi og afstaða Alþingis því innsigluð

Góð reynsla

Nú er verkefnið að tryggja þjónustu þessa til frambúðar. Reynslan sýnir að þjónustunnar er þörf. Reynslan sýnir líka að vel fer á því að starfsemin sé á Ísafirði. Þar hefur byggst upp gríðarleg reynsla og þekking. Starfsemin nýtur velvilja fólks, stuðnings sveitarstjórnarmanna og frjálsra félagasamtaka. Í haust þurfum við öll að vinna að því að festa þessa starfsemi betur í sessi. Það fólk sem nýtir sér þessa aðstöðu á það skilið.

– Grein þessi birtist á heimasíðu Einars K. Guðfinnssonar alþingismanns.

Einar K. Guðfinnsson


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi