Grein

Bergljót Halldórsdóttir, Jóna Benediktsdóttir og Andrea S. Harðardóttir.
Bergljót Halldórsdóttir, Jóna Benediktsdóttir og Andrea S. Harðardóttir.

| 21.02.2001 | 15:43Virkjum Vestfirði

Þeir voru kátir og bjartsýnir á svip, sveitarstjórnarmennirnir, þegar þeir undirrituðu samþykkt um að breyta Orkubúinu í hlutafélag. Einn bæjarfulltrúanna kom í útvarpið og sagði að Orkubúið yrði selt en yrði samt blómlegt áfram. Það hryggir okkur að menn skuli vera svo barnalegir að trúa því að þeir geti selt Orkubúið og haldið því óbreyttu. Við trúum því ekki að sveitarstjórnarmenn ætli að „kaupa“ fleiri loforð frá stjórnvöldum og það jafnvel loforð sem fyrirfram er ljóst að stjórnvöld munu ekki geta staðið við. Loforð um áframhaldandi rekstur á svæðinu. Ef hlutafé í OV verður selt á hlutabréfamarkaði er ekkert sem segir að ríksstjórn Íslands hafi einhver ítök í fyrirtækinu eða geti ráðið hvar og hvernig það muni starfa.
Okkur er ljóst að allar fjárfestingar verða að skila eigendum sínum arði. OV skilar eigendum sínum arði sem felst í lægra orkuverði. Það er góður arður fyrir okkur núverandi eigendur. Kaupendur hlutabréfa munu varla sætta sig við að arðurinn af þeirra fjárfestingu fari í lægra orkuverð vestur á fjörðum. Þeir munu eðlilega vilja fá arðinn til að stækka eigin sjóði.

Stríðir það ekki algjörlega gegn stefnu ríkisstjórnarinnar í einkavæðingarmálum að ætla að eiga Orkubúið? Ef eitthvað er að marka það sem hún hefur boðað til þessa hlýtur stjórnin að ætla að selja það aftur. Framkoma forystumanna stjórnarflokkanna hefur einnig verið þannig, að sýnt er að ekki er hægt að treysta þessum mönnum þegar hagsmunir þeim þóknanlegir eru í húfi. Okkur virðist stundum sem dyntóttar ákvarðanir forystumanna ákveðinna stjórnmálaflokka vegi þyngra en hagsmunir byggðarlagsins okkar. Hlýðni við flokksforystuna er meiri en eðlilegt getur talist.

Margt bendir einnig til að ráðamenn þjóðarinnar skýli sér á bak við alls konar meintar alþjóðasamþykktir til að komast hjá því að axla þá ábyrgð sem þeim ber og noti þær sem svipu á sveitarstjórnarmenn sem og aðra landsmenn. Menn ættu kannski að fara að draga fram orðabækurnar og lesa yfir hina evrópsku samninga. Það hefur nefnilega borið á því undanfarið að þeir gætu hafa verið mistúlkaðir af stjórnvöldum á Íslandi. Dæmi um það er þegar forráðamenn skipasmíðastöðvar í Hafnarfirði tóku sig til og skrifuðu sjálfir til Brüssel til að spyrjast fyrir um alþjóðleg útboð og fengu þau svör að alþjóðleg útboð væru ekki nauðsynleg.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að það kreppir að landsbyggðinni og sveitarstjórnir þessa lands eiga í vök að verjast, ekki hvað síst á Vestfjörðum. Alltaf er verið að gera úttekt á svæðinu og kemur mönnum alltaf jafnmikið á óvart hversu atvinnuástandið er bágt. En lítið hefur mönnum dottið í hug til að bæta ástandið, helst að þeir bæti hverri silkihúfunni ofan á aðra.

Vandi vegna félagslega húsnæðiskerfisins er að mestu vandi ríkisstjórnar, ekki sveitarfélaga. Þeir sem semja lögin hljóta að bera einhverja ábyrgð á þeim. Fráleitt er að ætla að nota andvirði sölunnar til að grynnka á skuldum vegna húsnæðiskerfisins.

Eina leiðin til að fjárhagur bæjarsjóðs Ísafjarðarbæjar batni til frambúðar er að auka atvinnuumsvif á svæðinu. Þá verður kannski hægt að kaupa nýja skó en ekki bara að láta gera við gömlu sólana. Okkur er ljóst að verkefnið er erfitt en það að bjóða sig fram til sveitarstjórnar felur í sér að menn eru tilbúnir til að takast á við erfiðleika sem þessa.

Umhverfismál eru mikið í umræðunni þessa dagana og ljóst að stórvirkjanir þykja ekki umhverfisvænar. Það veitir okkur Vestfirðingum tækifæri til virkjana á svæðinu, með sölu á orku í huga. Líklegt er að smávirkjanir verði ofan á í framtíðinni og þar liggja möguleikar okkar með styrk Orkubúsins og þeirri þekkingu sem starfsfólkið þar býr yfir. Sum sveitarfélög hafa farið út í það að kaupa starfandi fyrirtæki og flytja þau í heimabyggð til að auka atvinnumöguleika fólks á svæðinu.

Best fer á því að við sjáum um okkar málefni sjálf að eins miklu leyti og kostur er. Með það að leiðarljósi tók sveitarfélagið til dæmis yfir rekstur grunnskólans og hefur það sýnt og sannað að slíkt stórverkefni er því ekki ofviða.

Undirritaðar fóru af stað með undirskriftarsöfnun sl. haust. Um 1000 íbúar Ísafjarðarbæjar skrifuðu undir og mótmæltu sölu á Orkubúinu.

Þeir tveir fundir sem haldnir voru fyrir jól varðandi sölu á Orkubúinu breyttu ekki skoðunum okkar og við erum þess fullvissar að svo er um fleiri bæjarbúa.

Bæjarfulltrúar! Sókn er besta vörnin. Það er afar eymdarlegt að Vestfirðingar skuli ganga bónleiðir frá stjórnvöldum vegna bágs atvinnuástands en selja síðan stórt atvinnufyrirtæki sem gefur mikla möguleika á auknum umsvifum.

Andrea S. Harðardóttir, Bergljót Halldórsdóttir og Jóna Benediktsdóttir, Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi