Grein

Magnús Þór Hafsteinsson.
Magnús Þór Hafsteinsson.

Magnús Þór Hafsteinsson | 20.08.2003 | 14:06Trúverðugleiki vísindahvalveiða

Þessar veiðar eru þarft framtak að mínu mati. Okkur skortir ýmsar vísindalegar upplýsingar um hrefnuna við Ísland og vonandi afla veiðarnar nú upplýsinga sem auka skilning okkar á vistkerfi hafsins umhverfis Ísland. Ekki er vanþörf á, því staðreyndin er sú að við vitum skammarlega lítið um það, enda hafa alvöru hafrannsóknir ávallt verið vanræktar af stjórnvöldum þessa lands.

Ég verð þó að viðurkenna að ég hef áhyggjur af því að vísindaveiðarnar nú séu ekki framkvæmdar með nógu trúverðugum hætti. Hvernig stendur á því að Íslendingar boða hvalarannsóknaáætlun sem aðeins gengur út á að stunda vísindaveiðar á þeim þremum hvalategundum sem áður voru veiddar í atvinnuskyni hér við land, það er hrefnu, langreyði og steypireyði?

Upphaflega var boðað að veiddar skyldu 200 hrefnur, 200 langreyðar og 100 steypireyðar á tveggja ára tímabili. Helminginn hvort ár. Nú þegar yfirvöld taka loks af skarið, þá er ljóst að ekkert verður veitt af stórhvelunum, það er langreyði og steypireyði. Aðeins er farið af stað og bara veiddar 38 hrefnur allt umhverfis landið sem er mjög lág tala. Bæði miðað við þann aragrúa af hrefnum sem Hafrannsóknastofnun segir að svamli umhverfis Ísland, en stofnmatið hljóðar upp á 43 þúsund dýr, og einnig miðað við þetta stóra hafsvæði.

Mér finnst þetta öðru fremur bera keim af því að veiðarnar nú séu ekki bara vísindaveiðar heldur fyrst og fremst mjög varfærnisleg tilraun til að kanna jarðveginn fyrir hvalveiðar í atvinnuskyni í framtíðinni. Að stjórnvöld hugsi sem svo, að nú í lok ferðamannatíma þessa árs sé rétt að láta á reyna að skjóta nokkur dýr í til að gá hver viðbrögðin verði.

Það er nú satt best að segja ekki mikill karlmennsku- né reisnarbragur yfir þessu. Maður fær strax á tilfinninguna að hér sé eitthvert hálfkák á ferðinni sem ráðamenn skammist sín fyrir en ætli þó að framkvæma smávegis, svona rétt til að friða þjóðarsálina og kannski standa við eitthvað af stóru orðunum úr kosningabaráttunni í vor...

Mér finnst líka skrítið, fyrst ákveðið var að hefja vísindaveiðar á hvölum hér við land til þess að kanna betur hlutverk þeirra í vistkerfinu, að þá skuli ekki stundaðar vísindaveiðar á fleiri hvölum. Til dæmis öllum þeim aragrúa smáhvela sem finnast hér við land, svo sem hnísum og höfrungum, sem eru tannhvalir sem éta fisk. Og hvers vegna eru þessar rannsóknir aðeins bundnar við takmarkaðar líffræðirannsóknir á fáeinum hvölum sem allir eru teknir af lífi í leiðinni? Af hverju er ekki sett af stað alvöru vísindaáætlun þar sem hvalir og gjarnan selir eru líka teknir fyrir á breiðum grundvelli? Til dæmis væri hægt að kanna göngur hrefnu með gervihnattamerkingum.

Það er nefnilega staðreynd, að þó Hafrannsóknastofnun telji sig vita hve margar hrefnur eru hér við land og hve mikið þær éta af fiski, þá hafa menn til að mynda ekki hugmynd um hvar hrefnan heldur sig yfir vetrartímann. Vísindaáætlun um vistfræði sjávarspendýra við Ísland mætti standa í nokkur ár og gjarnan ná til fleiri þátta en líffræði. Það er til dæmis brýnt að óháð rannsóknastofnun geri úttekt á því hve mikil verðmæti hvalaskoðunin skilur eftir sig í landinu. Þessu vísindaverkefni mætti svo ljúka með alþjóðlegri ráðstefnu hér á landi. Síðan gætu menn farið að græja sig til veiða í atvinnuskyni ef það finnast þá einhverjir kaupendur erlendis. Eins og kunnugt er, þá hefur frændum okkar Norðmönnum gengið afar erfiðlega að finna kaupendur að sínum afurðum.

Ég held allavega að þetta hálfkák, sem ég vill kalla, sé ekki til þess fallið að auka trúverðugleika okkar út á við. Það er nefnilega bráðnauðsynlegt að koma fram með trúverðugum hætti í þessu máli ef vinna skal sigur í áróðursstríðinu sem er framundan. Hætt er við að andstæðingar hvalveiða, sem mikið er gert úr hér á landi, túlki þetta sem svo, að við rétt svo þorum þessu og séum lafhrædd við afleiðingarnar.

Málið batnar svo ekki þegar hugsað er til farsans sem kom upp um leið og hrefnubátarnir okkar héldu til veiða með fjölmiðlana á eftir sér í öðrum bátum. Að sjálfsögðu átti að leyfa nokkrum blaða- og myndatökumönnum að fljóta með. Þannig hefði okkur gefist tækifæri til að sýna þeim fram á að það er ekkert að því að veiða hvali, að okkar veiðimenn eru hæfir til starfans, að það er mikið af hvölum á miðunum og að þessar veiðar eru nákvæmlega eins og aðrar veiðar sem maðurinn stundar sér til matar.

Þetta fáránlega bann, sem ekki batnar við það að fylgdarbátunum er bannað að koma nær hrefnubátunum sem nemur einni sjómílu, rýrir enn og aftur trúverðugleika okkar í þessu máli.

Því að ein sjómíla, gott fólk, er engin smá vegalengd. Hún er tæpir tveir kílómetrar; nákvæmlega eitt þúsund átta hundruð fimmtíu og tveir metrar.

Er það nokkuð skrítið þó fjölmiðlar séu forvitnir og almenningur spyrji: Hvað eru menn að fela?

– Magnús Þór Hafsteinsson,
fiskifræðingur, alþingismaður og varaformaður Frjálslynda flokksins.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi