Grein

Þorgils Gunnlaugsson.
Þorgils Gunnlaugsson.

Þorgils Gunnlaugsson | 15.08.2003 | 15:38Opið bréf til Vestfirðinga: Hreindýrahald vænlegur kostur?

Svar við þessari spurningu kemur næstum samtímis upp í hugann og er á þessa leið: Fyrir mörgum árum töluðu tveir bændur af Barðaströnd við mig með það í huga að rækta hreindýr, þ.e. að gerast hjarðbændur með hreindýr. Nákvæmlega á þeim árum (1978-80) kom sauðfjárriða upp á svæði sem austfirsk hreindýr ganga á og ekki vitað hvort hreindýr gætu borið með sér riðuveiki. Þar með var lokað fyrir allar hugmyndir um flutning á hreindýrum til annarra svæða.

Fyrir fáum árum var sótt um leyfi til flutnings á hreindýrum til Vestfjarða, en því hafnað, trúlega af sömu ástæðu og fyrr greinir. Engar alvöru rannsóknir hafa verið gerðar á íslenska hreindýrastofninum til að ganga úr skugga um að þau séu ónæm fyrir riðuveiki, en ekki er vitað þess að riðuveik dýr hafi sést.

Nú finnst mér kominn tími á að fá svar við því hvort hreindýr séu ónæm fyrir riðusýki eða geti hýst riðusýkill án þess að veikjast. Svarið beinist ekki eingöngu að flutningi hreindýra í nýja haga, heldur vegna þeirra aðgerða sem nú eru í framkvæmd til útrýmingar á sauðfjársjúkdómum.

Hráar afurðir af hreindýrum eru fluttar út um allt land án athugasemda og í góðri trú um að hreindýr séu án sjúkdóma sem gætu valdið hættu fyrir íslenskt búfé. Ef hægt væri á næstu árum að taka 100-200 heilasýni ásamt iðrasýnum á veiðitímabili hreindýra og fá niðurstöðu úr þeim, sem sýndi að ekki þyrfti að óttast neina þá sjúkdóma sem gætu valdið skaða í íslenskum búfjárstofnum, þá mætti í alvöru hugsa til flutnings úr íslenska hreindýrastofninum til annarra staða, til dæmis til Vestfjarða.

Fleira gæti verið erfitt í framkvæmd við það að koma hreindýrum til Vestfjarða, t.d. að komast að samkomulagi um landsvæði sem tilraun með hreindýrarækt færi fram á, hvort sem um væri að ræða hjarðbúskap eða hjörð villtra dýra.

Fram hefur farið rannsókn á gróðurtegundum sem hreindýr leggja sér til munns að jafnaði. Prófessor dr. Anna Guðrún Þórhallsdóttir vann þá rannsókn fyrir allmörgum árum og var niðurstaðan sú í stórum dráttum, að hreindýr eti 70% sömu grös og sauðkindin.

Miðað við lifandi þunga mætti ætla að hreindýrskýr á beit yfir sumarmánuði þyrfti álíka mikið fóður og ein sauðkind. Hreintarfur þyrfti þá ca. fóður á við 1,5–2 sauðkindur (lömb og kálfar ekki reiknað með).

Seld veiðileyfi árið 2002:
Tarfar eldri en eins árs kr. 90 þúsund
Kýr kr. 45 þúsund
Kálfar kr. 15 þúsund

Þetta verð var á bestu veiðisvæðum, en breytilegt verð fer að nokkru leyti eftir því hve greiðfært er um veiðisvæðin og fjölda dýra á svæði. Veiðisvæðin níu ná yfir landsvæði frá Jökulsá á fjöllum og austur til Hornafjarðar.

Fjöldi hreindýra í íslenska stofninum er ca. 2.500 til 3.000 dýr.

Verð á hreindýrakjöti er í kringum 2.000 kr. á kg í heilum skrokkum (óskemmdum eftir veiði).

Væntanlega er íslenskt hreindýrakjöt náttúruvænsta og heilbrigðasta kjöt veraldar og eftirspurn þó nokkur.

Það er umtalsverð þjóðfélagsumræða hvað snertir náttúruverndarmál, og eins og oft vill verða þegar margir tjá sig um sama málefnið verða sjónarmiðin mörg og erfitt að gera öllum til hæfis. Sem betur fer er smám saman að koma í ljós hvernig hagkvæmast og best sé að ganga um landið.

Hreindýr á Austurlandi hafa ekki valdið skaða á beitilandi nema í undantekningartilfellum að vetrarlagi, þegar mikil jarðbönn eru vegna snjóa, og hafa þau þá komist í trjágróður án þess að valda stórskemmdum með hornunum. Fáein hreindýr á Vestfjörðum í tilraunaskyni gætu tæpast valdið þar skaða á gróðurfari.

Margt fleira mætti tína til er varðar hreindýrarækt, en á þessu stigi málsins getur það beðið síns tíma þar til séð verður hvort forsendur eru fyrir því að fjölga hreindýrum á Íslandi og þá hvar. Sjálfum finnst mér Vestfirðir koma best til greina, án sérstaks rökstuðnings, enda ekki sérfræðingur í þeim efnum, heldur hef ég til að bera reynslu eftir 40 ára hreindýraveiðar og skoðunarferðir um Vestfirði. Ef Vestfirðingar koma sér saman um að gera tilraun til hreindýrahalds í einhverri mynd er það mín trú, að slíkt gæti tekist eftir fá ár og bætt búsetuskilyrði, þó í smáum stíl væri, og án þess að skerða hlut þeirra sem nú njóta góðs af íslenska hreindýrastofninum.

Með bestu kveðju til Vestfirðinga.

– Þorgils Gunnlaugsson,
Sökku II, Svarfaðardal,
621 Dalvík.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi