Grein

Sr. Karl Valgarður Matthíasson.
Sr. Karl Valgarður Matthíasson.

Karl V. Matthíasson | 14.08.2003 | 08:49Neyðarkall frá Vestfjörðum

Klúbbur forystusveitar smábátamanna og sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum sendi út neyðarkall fyrir nokkrum dögum til ríkisstjórnarþingmanna sinna í Norðvesturkjördæmi vegna meintra svika sjávarútvegsráðherra. Það er nefnilega útlit fyrir að hann og ríkisstjórnin ætli ekki að standa við gefin fyrirheit um línuívilnun. Það er í rauninni átakanlegt að fylgjast með þessu frumkvæði þeirra sjálfstæðismanna sem fara fyrir smábátamönnunum fyrir vestan og þátttöku sveitarstjórnarmannanna þar líka.
Hvað eiga stjórnarþingmennirnir að gera? Eiga þeir að ráðast á Davíð Oddsson og Árna Matt fyrir að svíkja gefin loforð? Eiga þeir að fara niður í Stjórnarráð og skella þar hurðum og hóta öllu illu? Eiga þeir Magnús Stefánsson og Sturla Böðvarsson að fara og vera óþægir, eða þá hinir þingmennirnir sem eru í stuðningsliðinu við ríkisstjórnina?

Ég held að nær hefði verið að kalla á þingmenn stjórnarandstöðunnar og fá hana til liðs við sig (sveitarstjórnarmennirnir hefðu í sjálfsagðri kurteisi átt að koma með þá hugmynd að allir þingmenn kjördæmisins væru boðaðir á slikan fund). En þessir sveitarstjórnarsjálfstæðismenn eru því miður ekki fyrir stjórnarandstöðu enda búnir að gleyma tillögum stjórnarandstöðuþingmannanna frá síðustu þingum um að afnema ekki „ýsu-, steinbíts-, löngu- og keilufrelsið“. Þeir eru líka búnir að gleyma því frumkvæði sem stjórnarandstaðan hafði í því að koma á klukkustundakerfinu hjá dagabátunum.

Stuðningur þessa fólks við uppbyggjandi tillögur stjórnarandstöðunnar um styrkingu smábátanna, þorskeldis, kræklingrækt, ferðamál og fleira hefur verið sorglega lítill. Það er út af því að hlýðnin við flokkinn er númer eitt svo kemur hitt á eftir. Regla númer eitt er sem sagt: „Ekki hleypa stjórnarandstöðunni í þessi mál. Við verðum að halda þeim fyrir utan þetta, annað getur sært viðkvæm hjörtu ríkisstjórnarinnar. Byggðamál fyrir vestan eru einkamál ríkisstjórnarflokksins.“

Þessi hegðun minnir mig á hinn mikla fund sem haldinn var á Ísafirði um atvinnu- og byggðamál á Vestfjörðum fyrir rúmum tveimur árum. Sjálfsagt stærsti fundur á Vestfjörðum fyrr og síðar. Þar voru saman komnir um 800 Vestfirðingar hvaðanæva úr fjórðungnum. Ég var á þessum fundi og ég fann þann mikla kraft og anda sem ríkti í hópnum öllum. En viti menn: Ekki mátti leggja fram neina tillögu á fundinum. Ekki mátti fundurinn segja neitt orð sem styggt gæti ráðherra eða ríkisstjórnina.

Þeim sem stóðu að fundinum um daginn hefði verið nær að leita til þingmanna stjórnarandstöðunnar. Þá hefði gripið um sig ótti hjá ríkisstjórnarþingmönnunum. Hugsum okkur ef fréttin hefði verið: „Formaður Eldingar og sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum hafa boðað þingmenn stjórnarandstöðunnar á sinn fund vegna svika ríkisstjórnarinnar um línuívilnun.“

Hætt er við að farið hefði um sálir Einars Kristins, Kristins H. Gunnarssonar og Einars Odds og hinna kannski líka. Eldingarstjórnin og sveitarstjórnarmennirnir hefðu líka mátt hvetja ríkisstjórnarþingmenn sína til að slíta stjórnarsamstarfinu, því nú ætti að vera komið nægt lið í þann gerning ef við teljum með þá ríkisstjórnarþingmenn sem eru úr Norðausturkjördæmi og drúpa höfði í undrun vegna svikinna loforða um framkvæmdir í jarðgangagerð frá Ólafsfirði til Siglufjarðar.

– Karl V. Matthíasson, fyrrv. þingmaður Vestfirðinga.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi