Grein

Halldór Jónsson.
Halldór Jónsson.

Halldór Jónsson | 12.08.2003 | 14:54Til hamingju kjósendur – 2. þáttur

Eitt helsta tromp stjórnarflokkanna á Vestfjörðum í vor var loforðið um línuívilnun. Þetta tromp hafði sjálfstæðisflokksforinginn Guðmundur Halldórsson fundið uppá á landsfundi þeirra síðla vetrar. Hafði það verið samþykkt þar í einhverjum svefnhöfga fundarmanna sem gleymdu að fara eftir handriti fundarins. Ekki gátu framsóknarmenn verið minni hér um slóðir og lofuðu því sama.
Flestum eldri en tvævetur í pólitík mátti vera ljóst að seint yrði þetta loforð uppfyllt þó ekki væri nema af því að ráðandi öfl í Sjálfstæðisflokknum voru einfaldlega á móti því. Á fundinum sem Davíð ætlaði ekki að halda á Ísafirði sagði hann sem svo að ekki ætti að vera mikið vandamál að koma þessari ívilnun á.

Hófst í kjölfarið ein skrítnasta kosningabarátta sem um getur hér vestra. Ótrúlegasta fólk gekk fram og vitnaði grátklökkt um að ekkert líf þrifist hér ef menn myndu ekki kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Helsta málgagn þeirra sjálfstæðismanna BB var dagana fyrir kosningar fullt af heitstrengingum þar að lútandi. Þar voru gamlir kratar og kommar dregnir fram sem skoruðu á kjósendur að kjósa nú Sjálfstæðisflokkinn.

Það er athyglisvert að ríkisstjórnin skuli einbeita sér eingöngu að svikum á loforðum er tengjast þeim byggðum sem höllustum fæti standa. Fyrst byggðunum við utanverðan Eyjafjörð við svik Héðinsfjarðarganga og nú byggðunum sem ekki hafa að neinu að hverfa er sjávarútvegurinn dregst saman. Það segir meira en mörg orð.

Það er ömurlegt að horfa á þá lítilsvirðingu sem ríkisstjórnin sýnir þingmönnum sínum á landsbyggðinni. Þeir eru einfaldlega ekki með. Það segir meira en mörg orð þegar Kristinn H Gunnarsson er orðinn tákn um orðheldni og heiðarleik í pólitík. Hann tjáir sig þó ennþá.

Kjósendurnir bíða spenntir eftir útskýringum allra grátklökku sölumannanna frá í vor. Þeir skulda fólki skýringar. Eru þeir kannski komnir inn í skápinn aftur. Við bíðum spennt.

Halldór Jónsson. Höfundur er kjósandi í Norðvesturkjördæmi.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi