Grein

Ingi Þór Ágústsson.
Ingi Þór Ágústsson.

Ingi Þór Ágústsson | 08.08.2003 | 17:06Ný sundlaug

Til hamingju, kæru íbúar Ísafjarðarbæjar, með þá aðstöðu sem nú er komin á Torfnessvæðinu. Svæðið allt er hið glæsilegasta og ber sérstaklega að þakka öllum þeim, sem komu að því, að vinna svæðið upp í þeirri mynd sem það er í dag. Nú þegar Torfnessvæðið hefur verið endurbætt og aðstaða fyrir knattspyrnuna hefur verið bætt til muna spyrja margir í bæjarfélaginu mig um sundlaug. Í mínum huga á það að vera ljóst, að þegar fjölnotaíþróttahúsið á Suðureyri hefur verið reist, þá beri að hefja byggingu nýrrar sundlaugar í Ísafjarðarbæ.
Ég er mikill áhugamaður um byggingu nýrrar sundlaugar í Ísafjarðarbæ. Þessi áhugi minn kom þegar ég æfði sund í sundlauginni á Ísafirði í mörg ár. Á þeim tíma var Sunddeild Vestra á sínum gullaldarárum sem senn eru að koma aftur. Það er löngum ljóst að sundlaugin hér á Ísafirði er allt of lítil fyrir þá aðila sem nýta sér hana í dag. Sundlaugin er opin að jafnaði þrjá til fjóra tíma á dag fyrir almenning en þess á milli eru Grunnskólinn á Ísafirði, Menntaskólinn á Ísafirði og Sundfélagið með tíma í henni. Jafnframt eru það grunnskólanemar frá Súðavík sem nýta sér aðstöðuna.

Sundfélagið hefur mátt þola það undanfarin ár að hafa nokkuð stóran biðlista af krökkum sem vilja æfa sund. Því miður er ekki hægt að koma þeim í sundlaugina sökum skorts á tímum. Slíkt ástand er ekki hægt að sætta sig við. Almenningur í bæjarfélaginu er farinn að krefjast þess að ný sundlaug verði byggð við fyrsta tækifæri.

Þegar slík krafa er lögð fram vakna upp umræður um hvort sundlaugin eigi að vera innilaug eða útilaug. Ég sem sundþjálfari segi að það eigi að byggja hér innilaug, 25 m langa og 12,5 m breiða. Fyrir utan sundlaugina sjálfa eigi síðan að koma aðstaða fyrir vaðlaug, rennibraut, potta og sólbaðsaðstöðu. Þessi aðstaða á öll að vera úti.

Veðrið hefur verið frábært í sumar og margir ræða um útisundlaug. Mér finnst fólk hugsa skammt þegar krafa um útisundlaug rís upp í umræðum. Eins og staðan er í dag myndi það vera mjög dýrt fyrir bæjarfélagið okkar að standa undir kyndingu á útisundlaug. Jafnframt má benda á að sundlaugarkerið sjálft er notað lengstum af árinu í kennslu og þjálfun barna og ungmenna á aldrinum frá fjögurra ára til tvítugs. Miklu þægilegra yrði að kenna og þjálfa í innilaug og jafnframt yrði kennsla og þjálfun ekki háð veðri og vindum.

Fyrir nokkru var byggð glæsileg sundlaug á Akureyri. Sú sundlaug er úti en nú er komin upp hávær krafa frá kennurum, nemendum og þjálfurum að byggja yfir sundlaugina. Einnig er komin upp sú krafa almennings í Kópavogi að byggja yfir sundlaugina sem er verið að gera í Salahverfinu þar. Þetta er allt byggt á því að kennsla og þjálfun þeirra aðila sem nýta sér sundlaugarnar hvað mest er hagstæðust þegar sundlaugin hefur þak yfir sér. Það er nauðsynlegt að þegar slík mannvirki eru reist að sjónarmið allra fái að koma fram. Það er sjónarmið mitt að sundlaugin sjálf eigi að vera undir þaki en aðstaða verður að vera úti við með vaðlaug, pottum og rennibraut.

Svo ræða menn um staðsetningu á sundlauginni. Þar eru tveir möguleikar, að mínu mati.

Fyrri kosturinn er að hún verði í blómagarðinum á Austurvelli. Hún myndi þá standa út frá núverandi sundlaug og út í blómagarðinn. Þessari hugmynd hefur Sundfélagið verið hlynnt og hefur lagt fram teikningar af henni. Einnig hefur byggingarnefnd um framtíðarhúsnæði Grunnskólans á Ísafirði lýst yfir eindregnum vilja til að hafa laugina sem næst skólahúsnæðinu. Það er samkvæmt þeim hugmyndum sem byggingafyrirtækið Ágúst og Flosi ehf. lagði fram tilboð til bæjarins um byggingu sundlaugar skömmu fyrir bæjarstjórnarkosningar vorið 2002.

Seinni kosturinn er að sundlaugin verði sunnan megin við íþróttahúsið á Torfnesi, næst grasvellinum. Þessar hugmyndir hafa báðar sína kosti og sína galla.

Staðsetning sundlaugarinnar í framtíðinni er ekki aðalmálið í mínum huga. Það sem er aðalmálið er að laugin sé 25 m löng og 12,5 m breið og sé inni.

Með bestu kveðjum.

– Ingi Þór Ágústsson, sundþjálfari ofl.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi