Grein

Ingibjörg Snorradóttir.
Ingibjörg Snorradóttir.

| 23.02.2000 | 10:41Íslenskur gagnagrunnur – já takk!

Ég get ekki orða bundist lengur. Nú er verið að gera enn eina atlöguna að Íslenskri erfðagreiningu með bréfasendingum til landsmanna, þar sem þeir eiga að segja sig úr gagnagrunninum.
Ég er nú bara almennur óbreyttur Íslendingur, en ég er búin að fá nóg. Hvað heldur þetta fólk að við séum? Mikið vona ég heitt og innilega að enginn tengdur þessum aðilum lendi í því að greinast með illvígan sjúkdóm, sem ekki er enn fundin lækning á.

Hvernig á að rannsaka sjúkdóma ef enginn vill veita upplýsingar? Halda menn að gagnagrunnurinn verði gefinn út í formi símaskrár?? Halda þeir að það verði það næsta sem við fáum inn um bréfalúgurnar?? Spyr sá sem ekki veit.

Ég veit þó, að ég og meirihluti allra Íslendinga erum tilbúin að hjálpa til við rannsóknir sjúkdóma og alls þess sem Íslensk erfðagreining hefur áhuga á að komast til botns í. Ég veit líka jafn vel og allir hinir, að fátt í heiminum er betur varið en hinn íslenski gagnagrunnur.

Ég vil hvetja alla Íslendinga, sem fá og hafa fengið þennan póst inn um lúgurnar, að opna umslagið, lesa innihaldið, rífa það í tætlur og loks endursenda þeim sem sendu. Látum ekki öfund, misskilning og afskiptasemi nokkurra landa okkar stjórna því hvað við gerum og hvað við gerum ekki.

Sýnum að við getum tekið sjálfstæðar ákvarðanir og veitum þannig leyfi okkar til að upplýsingar fari í gagnagrunninn. Hættum að láta mata okkur endalaust. Tökum frekar þátt í að auka framtíðarvonir svo margra Íslendinga sem lifa í von um bætta tíma, von um aukna þekkingu í lækningu sjúkdóma, og stuðlum þannig að bjartari framtíð fyrir börnin okkar og allar komandi kynslóðir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi