Grein

Pétur Tryggvi Hjálmarsson.
Pétur Tryggvi Hjálmarsson.

Pétur Tryggvi | 05.08.2003 | 09:29Um guðhræðslu

Sú var tíðin er maður nokkur sagði eitthvað á þessa leið: Hræðist ekki, komið til mín og ég mun passa ykkur. Allir hættu að vera hræddir en urðu hræddir um að verða það aftur ef þeir fylgdu honum ekki. Þetta var áhrifamikil aðferð til að ná fólkinu til sín því að hræðslutilfinning er það djöfullegasta sem til er. Fólkið leyfði börnunum sínum að koma til hans og bannaði þeim það ekki.
Þessa fallegu dæmisögu hafa stjórnmálamenn og aðrir sölumenn tekið til sín og vinna í anda hennar.

Þegar heimsókn sölumanns tryggingafélagsins lýkur er gestgjafinn orðinn svo hræddur að hann hefur keypt sér vernd gegn öllum þeim hörmungum sem komu fyrir í sögum sölumannsinns. Ennfremur fer gestgjafinn út í búð og kaupir sér öryggiskerfi til að passa upp á allt það sem hann hefur sankað að sér, vegna þess að samborgarar hans eru svo illa upp aldir. Sölumaðurinn sagði ekkert um það, að langflestir þeirra sem hafa keypt sér líftryggingu ná því að verða sjálfdauðir og fá því enga gleði af ævilöngu iðgjaldi sínu.

Umferðarráð, sem nú er að hluta til komið í stofu, birtir myndir af og útstillir limlestum einstaklingum með það að markmiði að ná tökum á athygli og hræðslu vegfarandans og segja honum að þetta gæti allt eins verið hann með sitt eigið tungumál. Og sú ágæta staðfesting ráðsins á að hraðinn drepi er ekki óþarfur boðskapur í þjóðfélagi þar sem ekkert getur gengið nógu hratt. Nærtækt dæmi er hvernig Vegagerðin flýtir sér að fræsa landið niður í beinar hraðbrautir svo að vegfarandinn komist hraðar yfir. Á hraðbrautunum eru síðan framkvæmdar hraðamælingar, sem þjónusta við hinn guðhrædda mann.

Tóbak er orðið það hættulegt að umbúðirnar mega ekki sjást. Verði einhver fyrir því óláni að sjá slíkt í verslun ber viðkomandi að leggja fram ákæru á hendur versluninni vegna þeirra hræðsluáhrifa sem hann hefur orðið fyrir. Tóbak drepur líka og litið er á reykingamenn sem hættulega umhverfi sínu og verða þeir sjálfsagt ákærðir fyrir manndráp af gáleysi ef fram heldur sem horfir. Aumingja nemandinn sem fer til framhaldsnáms erlendis og þarf að horfa á tóbaksumbúðir í stórum breiðum þar sem hann kaupir nestið sitt! Hann verður hræddur, hugsar heim til föðurlandsins en fær síðan áfallahjálp samhliða náminu.

Hræðslan við fólksfjölgun, í nafni hagræðingar, leiddi til þess að sambýlisfólk í Kína mátti aðeins eiga eitt barn. Yrðu þau svo óheppin að eignast stúlku, gáfu þau hana, en slíkar gjafir höfnuðu oft í höndum prúðmenna vestrænna viðskipta. Eftir að samtökin Falun Gong bentu á slíkt mansal, ásamt pyndingum og dauðarefsingum, voru þau bönnuð á Íslandi. Með því komu stjórnvöld í veg fyrir að vegfarandinn hræddist það að Falun Gong hefði eitthvað til síns máls.

Stjórnendur og aðrir þeir sem líta á mannveruna sem markað vita að hinn guðhræddi maður gegnir í blindni. Hann gæti að öðrum kosti dottið úr tísku, orðið fórnarlamb eineltis og jafnvel misst vinnuna sína.

Hræðsluáróður ætti að varða við lög. En það gerir hann ekki, vegna þess að hann er hvarvetna áhrifamikið verkfæri, sem með umhyggju er beitt af þeim sem leiðbeina og líta eftir hinum guðhrædda manni.

– Pétur Tryggvi.

Höfundur er silfursmiður búsettur á Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi