Grein

Halldór Jónsson.
Halldór Jónsson.

Halldór Jónsson | 01.08.2003 | 14:40Opið bréf til dómsmálaráðherra

Hæstvirti ráðherra. Eins og yður mun kunnugt um hefur tíðkast undanfarna áratugi að ungdómur landsins hefur komið saman á helgi þeirri er kennd er við verslunarstéttina. Eins og allir vita hafa samkomur þessarar helgar verið mjög þroskandi fyrir ungdóm landsins. Á einni helgi hefur verið hægt að kynnast öllu því fegursta í mannlegu eðli. Hæst náðu þessi þroskamót þegar hópast var til Akureyrar og ungdómurinn hafði það sér helst til dundurs að æfa þá erfiðu íþrótt að pissa inn um póstlúgur íbúa þar í bæ. Eðli málsins samkvæmt er þó talið að bestum árangri hafi þó drengir náð í þeirri íþrótt.
Á undanförnum árum hefur nokkurn skugga borið á hátíðarhöld þessarar helgar. Náð hefur nokkurri fótfestu félagsskapur er heitir Ungmennasamband Íslands. Hefur félagsskapur þessi skipulagt hátíðir sem hafa sífellt dregið að sér fleirra fólk. Helst virðist fólk gera þar sér til skemmtunar að keppa í hefðbundnum íþróttum svo sem fótbolta, körfubolta og frjálsum íþróttum. Það sem verra er að þetta unga fólk er í fylgd með foreldrum sínum sem oftar en ekki taka þátt í ófögnuðinum. Og það sem verst er að þarna virðast fjölskyldurnar ná vel saman. Svo vel að fá dæmi eru til þess að lögregla hafi þurft að hafa afskipti af samkomum þessum. Hvílík öfugþróun.

Því hefur barátta undirmanns yðar, sýslumannsins á Ísafirði, vakið aðdáun mína. Hefur sá ágæti embættismaður framfylgt reglum yðar og krafið þessi hættulegu samtök um hundruðir þúsunda króna. Vonir standa til þess að þessi skattlagning geti komið í veg fyrir að mót þessi verði haldin í framtíðinni. Því skora ég á yður hér með að kvika ekki frá þessari skattlagningu.

Þar eð ég undirritaður bý í miðju fyrirhugaðs átakasvæðis við íþróttasvæðið á Ísafirði vil ég jafnframt óska þess að lögregluvörður verði settur um húseign mína svo ég geti varist þeim óaldarflokkum sem hingað hefur verið stefnt.

Hæstvirti dómsmálaráðherra. Ef áðurnefnd skattheimta nær fram að ganga líður væntanlega undir lok tilraun þessara samtaka til þess að smala saman ungdómi þessa lands í fylgd foreldra sinna. Í framhaldi af því getum við aftur hafið til vegs á ný þær skemmtanir sem stundaðar hafa verið áratugum saman og þroskað hafa ungt fólk. Hvað er heilbrigðara en að labba um guðsgræna náttúruna eftirlitslaus, horfa á öldautt fólk, ælandi fólk og fá að kynnast fórnarlömbum eiturlyfja og nauðgana.

Með bestu kveðjum,
Halldór Jónsson, bréfritari býr við íþróttasvæðið á Torfnesi.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi