Grein

Haukur Björnsson.
Haukur Björnsson.

Haukur Björnsson | 30.07.2003 | 16:15Misskilningur leiðréttur

Á mánudaginn kom fram á bb.is að aðstandendur Vínbúðarinnar á Ísafirði verði með viðbúnað um verslunarmannahelgina út af Unglingalandsmóti UMFÍ. Fullyrt er að 100% aukning hafi orðið á sölu áfengis þessa helgi í Stykkishólmi í fyrra, en þá var Unglingalandsmót UMFÍ haldið þar. Af gefnu tilefni er nauðsynlegt að leiðrétta þennan óheppilega misskilning.
Ekki var um aukningu á sölu áfengis að ræða í Stykkishólmi miðað við fyrri verslunarmannahelgar. Aftur á móti jókst salan frá því í vikunni áður líkt og almennt gerist um þessa helgi. Mótshaldarar gátu að sjálfsögðu ekki borið ábyrgð á öðrum en sínum eigin gestum. Enda kom það í ljós að þeir örfáu sem urðu uppvísir að áfengisneyslu á mótssvæði Unglingalandsmótsins í fyrra voru með einni undantekningu mótinu óviðkomandi. Í því tilviki var mótsgestunum vísað af svæðinu umsvifalaust. Þeir fóru í góðu enda höfðu þeir áttað sig á því að ekki var um mót að þeirra skapi að ræða. Unglingalandsmót er, og verður, íþróttamót þar sem heilbrigð æska og fjölskyldur skemmta sér saman við skemmtilega og uppbyggjandi iðju.

Að lokum vill undirritaður óska öllum Vestfirðingum ánægjulegrar og gæfuríkrar verslunarmannahelgar.

Haukur Björnsson, framkvæmdastjóri ULM 2002 í Stykkishólmi.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi