Grein

Guðbjörg Rós Sigurðardóttir.
Guðbjörg Rós Sigurðardóttir.

| 08.02.2001 | 09:46Heilsa og heilbrigði 2001 á Ísafirði

„Heilsa og heilbrigði 2001“ er átaksverkefni sem Grunnskólinn á Ísafirði stendur fyrir ásamt íþróttafélögum á Ísafirði og fleiri samstarfsaðilum. Markmiðið er að efla vitund allra um mikilvægi heilbrigðs lífsstíls barna og unglinga og fá þau til að hugsa um heilsu sína. Átaksverkefnið mun standa til febrúarloka en einnig munu kennarar tengja verkefnið inn í kennsluna á vorönninni.
Þáttur foreldra er ekki síður mikilvægur en kennara og nemenda, því að þegar slíkt átak er í gangi í skólanum er mikilvægt að það haldi áfram þegar barnið eða unglingurinn kemur heim. Börn og unglingar þurfa að borða hollan mat, fá nægan svefn og hreyfa sig, þannig að þeim líði vel, og það er hlutverk foreldra að sjá til þess hjá sínu barni, hvort sem það er í skólanum eða heima.

Morgunverðurinn er mikilvægasta máltíð dagsins og því er nauðsynlegt að börn sem eru allan daginn í skólanum byrji daginn vel með staðgóðum morgunverði sem nýtist þeim allan daginn. Ef ekki gefst tími til að neyta morgunverðar, svo sem morgunkorns, brauðsneiðar eða hafragrauts, þá er gott að eiga ávexti eða djús í ísskápnum sem börnin geta gripið með sér á leiðinni í skólann. Það þarf ekki að vera mikið sem börnin borða en best er ef foreldrar og börn geta sest niður og borðað morgunverð í rólegheitunum áður en farið er af stað á morgnana.

Svefninn er ekki síður mikilvægur en börn á skólaaldri þurfa yfirleitt að sofa 10 klst. á sólarhring. Svefninn endurnýjar orku líkamans og ef börnin eru ekki vel hvíld, þá eiga þau erfiðara með að halda einbeitingu í skólanum, sem kemur m.a. niður á námsárangri barnsins.

Það er von mín að foreldrar taki þátt í átaksverkefninu með skólanum og stuðli að því að börnin þeirra sofi vel og komi södd og sæl í skólann, því það er lykillinn að vellíðan þeirra.

Guðbjörg Rós Sigurðardóttir, skólahjúkrunarfræðingur á Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi