Grein

Ásthildur Cesil Þórðardóttir.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir | 15.07.2003 | 10:52Fólk í fyrirrúmi – forgangsröðun framsóknarmanna

Mikil reisn er yfir framsóknarmönnum. Nú er að koma í ljós hvers vegna þeir þurftu að losa sig við Byrgismenn út úr Rockwille. Þeir ætla að opna þar her- og flugminjasafn. Þetta hefur örugglega legið á teikniborðinu hjá þeim strax frá upphafi. Þetta er flokkurinn sem hafði slagorðið „Fólk í fyrirrúmi.“ Reyndar slógu þeir líka fram „Milljarð í fíkniefnavarnir“ og gáfu þar með í skyn að þeir bæru svo mikla umhyggju fyrir þeim málaflokki. Það kom samt ekki í veg fyrir að ryðja líknarsamtökum burt úr Rockwille og hnoða þeim í húsnæði sem rúmaði aðeins helming þeirra vistmanna sem voru vistaðir í Rockwille.
Ég átti hér fyrir kosningar í ritdeilum við Kristinn H. Gunnarsson um milljarðinn og Rockville. Ég vona að hann sé stoltur yfir þessari gjörð. Fyrir mér hefur bæði hann og Framsókn misst allt traust ef það hefur þá nokkurn tíma verið til staðar. Á honum skildist manni að Framsóknarflokkurinn væri svo mikill velferðaflokkur og bæri heill þessarar stofnunar fyrir brjósti.

Í Víkurfréttum er rætt við Hjálmar Árnason um þessa „góðu“ hugmynd. Ég verð að segja að ég á ekki orð yfir þessu. Er ekki til glóra í haus á þessum bæ? Ég auglýsi hér með eftir mannúðarstefnu Framsóknarflokksins. Hún er einhvers staðar vandlega falin og kemur bara fram í dagsljósið rétt fyrir kosningar og þá helst í formi milljón króna auglýsinga. Fer ekki að verða komin tími til að leggja niður þetta fornaldarskrímsli, sem hefur enga stefnu í neinum málum, enginn prinsipp, og enga reisn, ekkert nema viljann til að halda völdum og sitja við kjötkatlana. Vonandi fá þeir bráðlega það sem þeir eiga skilið.

Ég legg til að Framsóknarflokkurinn verði lagður niður og hann eins og hann leggur sig verði settur í geymslu í Rockwille.

Með kveðju Ásthildur Cesil Þórðardóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi