Grein

Fjölnir Ásbjörnsson.
Fjölnir Ásbjörnsson.

| 01.02.2001 | 09:54Um sjálfbæra þróun og Staðardagskrá 21

Á 20. öldinni urðu miklar framfarir í iðnaði og framleiðslu, að sama skapi jókst álag á umhverfi og náttúruauðlindir, mengun er víða orðin svo mikil að ástand mála er orðið óviðunandi með öllu. Bilið milli ríkra landa og fátækra breikkaði einnig mikið á 20. öldinni. Ríkustu löndin urðu stöðugt ríkari og hin fátæku urðu enn fátækari. Árstekjur í Mozambique drógust til dæmis saman um rúm 15% á síðari helming tuttugustu aldarinnar en árstekjur í Bandaríkjunum fóru upp um 150% á sama tíma. Reyndar má geta þess að lífskjör í Mózambique nú eru skárri en sumstaðar í Evrópu árið 1870.
Mikilvægasta spurningin varðandi efnahagsmál á 21. öldinni er sú hvort hinn sífelldi vöxtur síðustu 100 ára geti haldið áfram um ókomna tíð. Svarið er áreiðanlega NEI, vegna þess að hann byggir ekki á endurnýjanlegum orkulindum, vöxturinn er ekki sjálfbær. Áframhaldandi hagvöxtur í sama mæli og við höfum séð undanfarið byggir á því að við nýtum náttúrulegar auðlindir svo sem olíu og jarðgas í auknum mæli en þessar auðlindir eru endanlegar, þ.e.a.s. þær munu ganga til þurrðar fyrr eða síðar. Til þess að forðast algjört hrun efnahagskerfa framtíðarinnar er mikilvægt að snúa sér í auknum mæli að sjálfbærri þróun. Sjálfbær þróun felst einkum í því að heiminum er skilað áfram til komandi kynslóða í betra ástandi en við honum var tekið, meira er ekki tekið en þörf er á og ekki er unnið tjón á umhverfi og lífverum. Sjálfbær þróun felst í því að draga úr eyðslunni og taka upp einfaldari lifnaðarhætti.

Á síðustu áratugum hefur fólk í velferðarþjóðfélögum samtímans farið að velta því fyrir sér í auknum mæli, hvort hægt sé að skapa heilbrigt þjóðfélag með heilbrigðan efnahag þegar svo mikið er um eymd og eyðileggingu í heiminum. Efnahagslega framþróun er ekki hægt að stöðva og ekki getum við horfið aftur í tímann en hægt er að draga úr óæskilegum áhrifum á umhverfið. Víða um heim er vilji fyrir því að skapa sjálfbærar þróunarbrautir og lífsvenjur sem ekki valda álagi á náttúru eða eyðingu á náttúruauðlindum. Ljóst er að miklar breytingar eru á næstu grösum, vonandi til hins betra.

Til er áætlun sem miðar að því að heimafólk og sveitarfélög taki höndum saman um að skapa nýja lífshætti sem eru sjálfbærir svo að komandi kynslóðir muni ekki njóta lakari lífskjara en við í dag. Okkur ber skylda til að skila jörðinni áfram til erfingjanna, fæddra sem ófæddra, í sama ásigkomulagi og við tókum við henni eða betra. Ríóráðstefnan árið 1992 markar upphaf þessarar vinnu en sú ráðstefna var stærsta mót stjórnmálaleiðtoga sem nokkru sinni hefur verið haldið. Þar var samþykkt áætlun um hnattræna átaksvinnu til aukinna lífsgæða fyrir alla jarðarbúa. Þessi áætlun hlaut nafnið Agenda 21 og er það nafn notað á flestum stöðum í heiminum utan Íslands þar sem hún er kölluð Staðardagskrá 21.

Markmið Staðardagskrár 21 er að samþætta samfélagsmál, umhverfismál og hagkerfi til þess að gera alla þróun sjálfbæra en til þess þarf samvinnu allra hópa samfélagsins. Áhrifin munu verða mikil, á efnahag sveitarfélagsins, umhverfi þess og samfélagið sem heild en með því að taka upp sjálfbæra lifnaðarhætti er hægt að ná raunverulegum stöðugleika á öllum sviðum mannlífsins. Staðardagskráin fjallar fyrst og fremst um sönn lífsgæði, hún er andstæða lífsgæðakapphlaupsins sem er að ganga af okkur dauðum. Hún er hjálpartæki gegn neysluæðinu sem flestir vita í hjarta sínu að færir okkur ekki hamingju þrátt fyrir þrálátar fullyrðingar um hið gagnstæða.

Ekki er liðinn langur tími síðan Staðardagskráin var samþykkt og enn styttra síðan farið var að vinna að því að gera íslensk sveitarfélög sjálfbær. Satt að segja er vinnan víðast hvar enn í startholunum en við getum þrátt fyrir það ímyndað okkur það samfélag sem við viljum. Til þess að sjálfbært samfélag geti orðið að veruleika verðum við að geta séð það fyrir okkur, án draumsýnar getur ekkert orðið að veruleika.

Sjálfbært samfélag er það sem stefnt er að í framtíðinni og hvernig það mun líta út veit enginn, ekki heldur hvernig við komum því í kring. En við vitum að þetta verður að gerast ef komandi kynslóðir eiga að fá lifað mannsæmandi lífi.

Í sjálfbæru samfélagi verða náttúruauðlindir nýttar af skynsemi, úrgangur verður lítill og áhersla lögð á endurvinnslu. Mengun verður svo lítil að hún skaðar ekki umhverfið. Fjölbreytileiki náttúrunnar verður verndaður. Laun fyrir vinnu verða sanngjörn og dreifing þeirra réttlát. Ólaunuð vinna verður metin að verðleikum. Allir íbúar hafa tækifæri á að hafa áhrif á ákvarðanatöku sem þá varðar. Allir hafa tækifæri til að njóta menningar, skemmtana og afslöppunar. Byggingar og almenningar samein


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi