Grein

Halldór Jónsson.
Halldór Jónsson.

Halldór Jónsson | 02.07.2003 | 16:49Til hamingju kjósendur

Eins og íbúar við Djúp muna riðu margir stjórnarþingmenn um sveitir síðla vetrar og lofuðu gulli og grænum skógum eftir kosningar. Dustað var rykið af gömlum kosingaloforðum og þau endurnýjuð þ.e. reynt var að selja að minnsta kosti tvisvar sama hlutinn. Flestum mátti vera ljóst að þarna væri um svikna vöru að ræða. Því miður er það nú svo að þegar sverfur að er oft auðvelt að lokka fólk með fagurgala. Tóku enda heilu sveitarstjórnirnar þátt í skrautsýningunni með bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar í fararbroddi.
Eftir kosningar fór eins og vænta mátti að losna um þessa loforðagrímu stjórnarflokkanna. Hún féll síðan alveg í dag þegar ákveðið var að fresta(hætta við) byggingu Héðinsfjarðargangna milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Það verður þó að segja samgönguráðherra það til hróss að hann hefur gálgahúmor. Ástæða frestunarinnar er þensla. Jú þið lásuð rétt, þensla var það. Ekki er að efa að landsbyggðarfólk mun hafa ríkan skilning á þessari ákvörðun. Við erum jú á kafi í þenslu og uppsveiflu á landsbyggðinni.

Í tilefni dagsins skal 9.589 kjósendum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Norðvesturkjördæmi óskað til hamingju með árangurinn. Þeir bera jú höfuðábyrgð á þeim ráðamönnum sem nú hafa fellt grímuna.

Hvað skyldi verða hægt að selja Héðinsfjarðargöng oft?

–Halldór Jónsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi