Grein

Ásthildur Cesil Þórðardóttir.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir | 25.06.2003 | 09:28Eru skrúðgarðar líka merkilegar minjar?

Við Ísfirðingar erum stoltir af arfleyfð okkar. Til dæmis þeim merkilegu og fallegu byggingum sem við eigum. Margir muna eftir því þegar húsin í Neðstakaupstað voru friðuð. Nýlega var opnað safnahúsið á Eyrartúni, eftir gagngerar endurbætur á þessu fallega húsi. Nú er verið að tala um að varðveita malarvegi sem er út af fyrir sig umhugsunarvert. En við eigum fleira, sem við getum verið stolt af og ég er ekki viss um að margir geri sér grein fyrir en það eru skrúðgarðarnir okkar.
Við eigum einstaka sögu í garðmenningu, sem er hvergi til annars staðar á Íslandi. En það eru skrúðgarðarnir fjórir. Skrúður, Simsongarður, Jónsgarður og Austurvöllur. Þessir fjórir garðar munu í framtíðinni vekja meiri athygli en þeir kannski gera nú, þegar fólk fer að átta sig á mikilvægi garðmenningar Íslendinga. Skrúður var byggður upp af einstakri framtíðarsýn manns, og vegna nafns garðsins, bera slíkir garðar nú heitið skrúðgarðar. Simson var líka mjög sérstakur maður og saga garðsins landsfræg. Og svo er líka um Jónsgarð og Austurvöll. Austurvöllur er hannaður af einum virtasta og þekktasta landslagsarkitekt Íslands, Jóni H. Björnssyni og garðurinn er skipulagður í sama stíl og Hallargarðurinn í Reykjavík. Mér er sagt af manni sem þekkir vel til, að þess verði ekki langt að bíða að garðáhugamenn fari að koma hér sérstaklega til að skoða þessa fjóra garða í sögulegu samhengi. Hann segir að sem heild séu þessi garðar alveg einstakir. Það megi ekki missa neinn þeirra.

Ég vil því biðja menn að hugsa sig vel um áður en tekin er ákvörðun um að eyðileggja Austurvöllinn. Jón H. Björnsson sagði mér að hann hefði komið í fyrra og skoðað garðinn og væri mjög ánægður með hann. Annar landslagsarkitekt sem fylgst hefur með görðunum sagði mér að Austurvöllur væri mjög nálægt upphaflegri mynd og hafði hann vissar áhyggjur af framtíð hans.

Ég vona sannarlega að við berum gæfu til að halda í það sem styrkir okkur sem þann menningarbæ sem Ísafjörður er. Við höfum sýnt það gegnum tíðina að það gerum við m.a. með einstakri byggð svokölluðu Kínahverfi. Og varðveizlu gamalla húsa samanber Neðstakaupstað og Edinborgarhús, safnahúsið á Eyrartúni. Við skulum líka varðveita þessa fjóra skrúðgarða og sýna þannig einu sinni enn að þó við séum framsækin og dugleg að bjarga okkur, þá berum við líka djúpa virðingu fyrir gömlum menningarverðmætum, og geymum þær perlur sem við eigum. Verum undan okkar samtíð í þessu eins og svo mörgu öðru.

Með kveðju Ássthildur Cesil Þórðardóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi