Grein

Þorsteinn J. Tómasson.
Þorsteinn J. Tómasson.

| 29.01.2001 | 19:25Opið bréf til fjármálaráðherra og samgönguráðherra

Það er alltaf gaman að heyra fögur orð ráðamanna um það að efla beri atvinnu á landsbyggðinni og á sama tíma verður maður áþreifanlega var við hið gagnstæða. Frá því í haust hefur undirritaður háð harða baráttu við „kerfið“ vegna breytinga á fyrirkomulagi á tollafgreiðslu póstsendinga. Þannig er mál með vexti, að í dag tekur það allt að þremur vikum að fá póstsendingar í hendurnar eftir að þær koma til landsins. Áður var það Íslandspóstur sem sá um tollafgreiðslu á því pósthúsi sem næst var viðtakanda, þannig að hægt var að leggja inn aðflutningsskýrslu á pósthúsið hér á Ísafirði, og fékkst þá pakkinn afhentur samdægurs eða daginn eftir.
Nú er svo komið, að Íslandspóstur stoppar allar sendingar á Stórhöfðanum í Reykjavík og skráir þær þar inn í sitt kerfi, og gerist það stundum ekki fyrr en þremur til fjórum dögum eftir að sendingin kemur til landsins. Síðan sleikja þeir frímerki á tilkynninguna og senda í pósti til viðtakanda vörunnar úti á landsbyggðinni. Þegar tilkynningin hefur borist viðtakanda þarf hann að gera aðflutningsskýrsluna og skila henni inn á pósthúsið, sem síðan sleikir á hana frímerki og sendir „suður“ til Reykjavíkur þar sem hún er slegin inn í kerfið hjá tollstjóranum í Reykjavík (af öllum tollstjórum á landinu). Hann afgreiðir loks skýrsluna ef hún er 100% rétt útfyllt, eða gerir athugasemdir við hana ef svo er ekki.

En enginn er látinn vita ef eitthvað er athugavert, þannig að hún dagar þá uppi þar til viðtakanda vöru er farið að lengja eftir henni og hann fer að hringja og spyrja. Þegar þessu öllu er lokið og afhendingarheimild frá tolli berst Íslandspósti á Stórhöfðanum, þá er sendingunni loks komið af stað til viðtökupósthúss og þaðan til viðtakanda.

Íslandspóstur á Stórhöfða og tollstjórinn í Reykjavík anna einfaldlega ekki því hlutverki sem þeim er ætlað og hefur það margsannað sig gagnvart landsbyggðinni. Störf þeirra sem önnuðust tollafgreiðslu á pósthúsum vítt og breitt um landið voru öll flutt til Reykjavíkur.

Undirritaður hefur talað við og skrifast á við óteljandi aðila innan kerfisins, bæði hjá Íslandpósti, samgönguráðuneyti, fjármálaráðuneyti, ríkistollstjóra (áður en hann var lagður niður um áramótin) og tollstjóranum í Reykjavík. Hver kennir öðrum um og enga lausn er að hafa, jafnvel þó svo að þeim sé bent á einföldustu og bestu lausnina, sem þarf ekki að kosta kerfið eina einustu krónu.

Til hvers eru tollstjórar vítt og breitt um landið, ef þeir geta eða mega ekki tollafgreiða póstsendingar jafnt og skipasendingar og flugfrakt? Hvers vegna er ekki hægt að áframskrá (umskrá) tollsendingar á sýslumanninn á Ísafirði þegar þess er óskað? Hann er beintengdur inn í sama afgreiðslukerfi og tollstjórinn í Reykjavík notar. Tollstjóraembættin segja ekkert því til fyrirstöðu, en kenna Íslandspósti um þvermóðsluhátt og óliðlegheit.

Þær tafir sem verða á tollafgreiðslu póstsendinga hafa því miður orðið til þess að við höfum ekki fengið íhluti og annað það efni sem við þurfum í framleiðslu okkar á réttum tíma. Það hefur aftur orsakað það að við höfum ekki getað staðið við afhendingar á réttum tíma. Afleiðingin hefur orðið sú að viðskiptavinir okkar hafa því miður hætt við vörukaup sín og snúið sér til samkeppnisaðilans í REYKJAVÍK, sem hefur allt við höndina og þarf ekki að þola sömu meðferð og við aumingjns annars flokks íbúar þessa lands.

Nú er svo komið, að við sem búum utan „Stór-Reykjavíkursvæðisins“ krefjumst þess, að fjármálaráðherra og samgönguráðherra ljúki þessu máli með endanlegri úrlausn. Við krefjumst þess að þeir ljúki því þannig, að við þurfum ekki að líða lengur fyrir það að vilja eiga heima utan Reykjavíkur. Og það strax, þar sem að þetta þolir ekki lengri töf en orðin er.

Ég er búinn að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að fá þessi mál í lag – með góðu – en enginn segist vera ábyrgur. Það er einfaldlega krafa mín sem þegns þessa lands, að allar póstsendingar út á landsbyggðina sem þarf að tollafgreiða verði tafarlaust umskráðar á þá sýslumenn sem næstir eru viðtakanda sendingarinnar, þannig að hægt sé að tollafgreiða þær heima í héraði. Við líðum ekki lengur það ábyrgðarleysi og þá vanvirðingu sem yfirvöld hafa sýnt okkur frá því í haust.

Ef ekki verður fundin lausn á þessum málum þá er allur samkeppnisiðnaður á landsbyggðinni sjálfdauður. Og hver ber þá ábyrgðina ef ekki fyrrnefndir tveir ráðherrar?

Ég óska hér með eftir svari frá þeim ráðherrum sem málið varðar. Jafnframt vona ég að það taki ekki marga daga eða vikur að fá svarið með ásleiktu frímerki með Íslandspósti hf.

Kveðja til allra sem ég hef verið í sambandi við veg


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi