Grein

Hafsteinn Linnet.
Hafsteinn Linnet.

Hafsteinn Linnet | 20.06.2003 | 10:06Vestfirðingum fækkað kerfisbundið?

Einn sólríkan dag í september 1996 fór undirritaður í flugferð vestur í Súgandafjörð til að hitta fjölskyldu sína og skoða göngin sem höfðu verið opnuð daginn áður. Er komið var að gangamunnanum í Botni rak í rogastans. Hvað var verið að gera með því að búa til S-beygjur út úr gangamunnanum? Þegar rætt var við heimamenn varð fátt um svör, önnur en þau að þarna væri verið að hægja á umferðinni og fækka ökumönnum sem ækju á ólöglegum hraða.
Nú nærri sjö árum síðar var undirritaður kallaður neyðarkalli vestur í Skötufjörð við Djúp til að laga stjórntölvu veghefils því verið var að gera veginn kláran fyrir slitlag. Veghefillinn sem verktakarnir nota við verkið er með fullkominni stjórntölvu sem heflar veginn upp á millimetra og heldur veghalla upp á brot úr gráðu til að akstursöryggið verði sem mest. Ég kallaður til um miðja nótt til að laga stjórntölvuna því það átti að klæða veginn daginn eftir.

Þegar ég sat í heflinum og var að stilla tölvuna með veghefilsstjóranum tók ég eftir því að vegurinn hallaði öfugt í beygjurnar. Þegar veghefilsstjórinn (sem er lögreglumaður að aðalvinnu) var spurður um ástæðurnar varð fátt um svör önnur en þau að svona væri vegurinn teiknaður. Einu ástæðurnar sem við fundum var sú, að þarna er verið að losa sig við óæskilega Vestfirðinga sem aka of hratt.

– Hafsteinn Linnet.

Höfundur rekur fyrirtæki í Hafnarfirði sem sér um endurvarpsstöðvar fyrir Landssímann, Flugmálastjórn, Landsvirkjun o.fl. Einnig höfum við séð um stjórntölvur í krönum, gröfum, vegheflum o.fl. Við gerum lítið annað en að ferðast og því er okkur umferðaröryggi mikið kappsmál því markmið okkar er verða gamlir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi