Grein

Ásbjörn V. Þorgilsson, Djúpavík.
Ásbjörn V. Þorgilsson, Djúpavík.

Ásbjörn V. Þorgilsson | 22.05.2003 | 14:04Skammgóður vermir

„Nú, ert þetta þú, skipstjóri góður?“ sagði togarasjómaðurinn hérna um árið þegar hann leit upp frá bætningunni. Hann hafði staðið boginn undir brúarvængnum og fann eitthvað volgt renna niður bakið á sér og datt sem snöggvast í hug að kokkurinn væri að gantast við sig. En þegar hann varð þess áskynja að þetta var bara skipstjórinn blessaður að kasta af sér vatni og hafði valið hálsmálið á honum, þá varð hann bara upp með sér. Blessuð bunan yljaði þó altént og á þessum erfiðu tímum atvinnuleysis og kreppu viku menn sér ekki undan að hlýða skipstjóra sínum. Það voru nægir um plássin.
Þessi saga rifjaðist upp þegar kosningaúrslitin lágu fyrir. Þjóðin hafði litið upp og meirihlutinn valdi að þeir ráðamenn sem pissað hafa ofan í hálsmálið á henni í átta ár skyldu fá að halda því áfram. Ætli ástæðan sé ekki svipuð og hjá togarasjómanninum forðum? Meirihluti þjóðarinnar er skuldum vafinn, hún veit hvað hún hefur og þorir ekki að taka áhættuna. Blessuð bunan hefur þó haldið á henni smáyl í átta ár.

Meirihluti þjóðarinnar veit að það er skammgóður vermir að pissa í skóinn sinn. Nema maður geti haldið því áfram endalaust eða fengið einhvern annan til þess. Meirihluti þjóðarinnar ákvað þess vegna, eins og sjómaðurinn forðum, að standa áfram undir bununni.

Sjómaðurinn títtnefndi hafði líka aðrar ástæður til að víkja sér ekki undan bununni. Skipstjórinn hans, sem þarna stóð á brúarvængnum, hafði oftar en ekki vikið að honum ýmsu smálegu á fylliríi í landi. Kippt honum með sér heim til sín í leigubílnum eftir ball og skipað konu sinni að raða í kassa alls konar dóti úr gnægtabúri sínu, til dæmis fötum af krökkunum hans sem þau voru vaxin upp úr og öðrum nytjahlutum. Nei, svona höfðingjum var sko ekki of gott að fá að bregða á leik, jafnvel þó að í leiknum fælist svolítil ótugt og niðurlæging.

Þessi sama auðmýkt og takmarkalausa virðing fyrir kvölurum sínum virðist einmitt einkenna kosningaúrslitin í Norðvesturkjördæmi. En ef allrar sanngirni er gætt eru úrslit í kjördæminu í heild skiljanleg.

Meginþorri fólks sem þar býr veit að þegar bráir af landsstjórninni og kosningafylliríið nálgast, þá fá fulltrúar þeirra leyfi til að vera rausnarlegir. Þannig hafa íbúar eignast Blönduvirkjun, stórútgerð á Skagaströnd, sem þeir halda enn að sé þeirra eign, og steinullarverksmiðju á Sauðárkróki, sem þeir halda líka að sé ennþá þeirra eign. Auk þess hafa þeir í gegnum tíðina eignast um skamma stund fullt af smáfyrirtækjum, svo sem smábátaútgerðir, loðskinnaverksmiðju og hótel, að ógleymdum vegum og höfnum hér og þar o.fl. o.fl.

Nei, það er skiljanlegt að þetta fólk víki sér ekki undan bununni.

En lítilþægni og þrælslund Vestfirðinga er óskiljanleg. Núna eftir 12 ára stöðu undir bununni, og ekki örgrannt um að bununni hafi oftar en ekki fylgt annað í fastara formi, hafa Vestfirðingar ákveðið að lúta áfram höfði og láta sig hafa það næstu fjögur árin. Þrælslund og þolinmæði Vestfirðinga við landsstjórnina verður vart skýrð með því að þeim hafi á liðnum kjörtímabilum verið vikið einhverju bitastæðu. Þvert á móti.

Á tímabili virtist sem Vestfirðingar væru ekki einu sinni þess verðir að vera taldir með þegar gefin var út skýrsla um þróun byggðar í landinu. Í öðrum og eldri prótókolli var mælst til þess að hætt yrði að mæla með þessu svæði til búsetu, enda prótókollurinn saminn af vatnsgreiddum íhaldsdrengjum suður í Reykjavík, sem illu heilli hefur aldrei verið pissað ofan í hálsmálið á og halda að ofan Elliðaáa búi bara tröll og forynjur sem sitji um að hafa af þeim fé og rugla á þeim hárinu.

En svo gerðist það að Vestfirðingum fannst gusan köld sem niður um hálsmálið kom. Þeir risu upp, rifu kjaft og gáfu út sína eigin byggðaskýrslu og tókst þannig að sannfæra landsstjórnina um að skynsamlegra væri að bíða fram yfir kosningar með að ganga endanlega frá byggðinni. Svo virðist sem landsstjórnin hafi verið komin á meiriháttar kosningafyllirí þegar þessi vægðarbeiðni barst frá Vestfirðingum, því nú tók að rigna yfir þá góðgerðum.

„Veg um Djúpið? – Ekki málið.“

„Ja, bara bílfæran veg“, sögðu Vestfirðingar.

„Ekkert bull elskurnar mínar, tvíbreiðan malbikaðan veg“, dröfuðu stjórnvöld. „Eitthvað fleira?“

„Kannski menningarhús“, sögðu Vestfirðingar.

„Já, eitt eða fleiri?“

„Ba-bara eitt“, svöruðu Vestfirðingar.

„Bara eitt?“, sögðu stjórnvöld og hlógu hrossahlátri. „Bara eitt! Nei, þið fáið þrjú! Ekki minna.“
Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi