Grein

Pétur Tryggvi Hjálmarsson.
Pétur Tryggvi Hjálmarsson.

Pétur Tryggvi | 18.05.2003 | 11:22Um vörn og hættumat í fræðilega óöruggri náttúru

Hættumat í umhverfi okkar hefur sannað sig og þróast verulega á allri síðustu öld. Ekki svo að skilja að hættunum hafi verið eytt, heldur hafa kröfur okkar og atferli breyst. Þar sem við áður þurftum að sýna varkárni og gá vel að okkur, viljum við nú geta gengið af öryggi með lokuð augun. Kannanir á láði, legi, vindum og veðri, hönnun skipa, flugvéla og annarra farartækja er orðin það fullkomin að ekkert ófyrisjáanlegt á að geta gerst.
Þrátt fyrir það fórst ferja á milli Noregs og Danmerkur í apríl 1990 þar sem 158 manns létust, og önnur tæpum 5 árum síðar á milli Eistlands og Svíþjóðar, sem tók með sér 852 líf. Ofangreint er bara tvö dæmi. Dæmi um stórslys þrátt fyrir að hættumat sjóferða um allan heim hafi eytt öllum vafa um öryggi, með rannsóknum og útreikningum á því umhverfi, sem við ferðumst í.

Enginn getur sagt fyrir bílslys, sjóslys eða flugslys. Ein af þeim fáu hættum sem hægt er að segja fyrir á okkar tímum er snjóflóðahætta. Þökk veri þeim sem við störf sín geta sameinað vísindi og reynslu. Þeir eru ekki margir í dag, en það væri ómaksins vert að nýta krafta þeirra til að miðla þekkingunni.

Nú þegar allt þarf að vera vísindalega rannsakað af háskólum og stofnunum er að sjálfsögðu reynt að finna þeim staði á landsbyggðinni. Hér á Ísafirði væri kannski ekki úr vegi að koma á fót stofnun snjóflóða- og snjóalagarannsókna, með það að markmiði að koma í veg fyrir slys af völdum flóða, í stað þess að byggja okkur ef til vill falskt öryggi í formi varnargarða.

Það má færa fyrir því rök, að snjóflóð gæti fallið innan við Bása með þeim afleiðingum að það kæmi af stað flóðbylgju sem drekkir Eyrinni. Ennfremur má færa fyrir því rök að það sé óðs manns æði að búa undir Gleiðarhjallanum eða Kubbanum.

Hættumatsnefnd Ofanflóðanefndar hefur ákveðið (til að byrja með) að skikka sveitarfélag Ísafjarðar til að byggja ofanflóðavörn í Múlanum við Seljaland, akkúrat á þeim stað sem minnstar líkur eru á ofanflóði af nokkru tagi. En þar er hentugasti staðurinn til æfinga á að sýna náttúrunni í tvo heimana.

Landið hefur mótast í þúsundir ára í það form sem því líður best. Ýmsu getum við hagrætt og reynum gjarnan að ala umhverfi okkar upp, svo að það hagi sér eins og við viljum. Að ráðast á og refsa umhverfinu með þeim hætti sem nú er fyrirhugaður verður ævarandi minnisvarði augnabliks reiði og vanmáttar gagnvart náttúruöflunum. Og þar með minnisvarði um okkar versta fjanda, sem er þá álitinn vera það umhverfi sem við lifum í.

– Pétur Tryggvi.

Höfundur er gull- og silfursmiður og býr á Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi