Grein

Halldór Halldórsson.
Halldór Halldórsson.

Halldór Halldórsson | 09.05.2003 | 17:21Við þurfum áfram styrka stjórn

Þau atriði sem ég tel upp hér að neðan eru aðeins lítið dæmi um þau framfaramál sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir í ríkisstjórn á undanförnum árum. Það skiptir öllu máli fyrir íslenskt samfélag að áfram verði styrk stjórn efnahagsmála, að skattar lækki, að atvinnulífið eflist og framtíðarsýnin sé skýr. Á fjögurra ára fresti fáum við kjósendur að segja okkar álit á því sem gert hefur verið og hverjum við treystum best til þess að fara með stjórn landsmála. Það er kjósandanum mikilvægt að hafa í huga að kjósa ekki breytingar breytinganna vegna.
Það er gott að hafa Sjálfstæðisflokkinn áfram í stjórn vegna þess að ...


... framtíðarsýnin er björt

● Atvinnulífið hefur eflst þannig að almenn lífsgæði á Íslandi hafa aukist umfram það sem þekkist í helstu viðmiðunarlöndum okkar.

● Forsætisráðherra hefur staðið fyrir setningu stjórnsýslulaga, upplýsingalaga og annarra breytinga í stjórnsýslunni sem hafa bætt réttarstöðu borgaranna og bætt stjórnsýsluna í landinu.

● Verulegar skattalækkanir munu verða ef Sjálfstæðisflokkurinn fær til þess stuðning í kosningunum. Lækkun skatta verður ekki framkvæmd af öðrum flokkum. sagan hefur kennt okkur það.


... uppbygging er mikil og stefnir í enn meiri

● Nám á háskólastigi hefur margfaldast á landsbyggðinni.

● Framundan er uppbygging fræða- og háskólaseturs á Vestfjörðum sem mun leiða til stofnunar háskóla.

● Framundan er stofnun rannsóknarseturs í eldis- og veiðarfæratækni.

● Aldrei hefur verið meira fjármagn til vegamála en á undanförnum árum og gríðarleg uppbygging framundan.


... yfirlýsingar eru skýrar

● Vegna mikilla framkvæmda á Austfjörðum og höfuðborgarsvæðinu, sem eru jákvæðar fyrir hag Íslendinga allra, hefur komið skýrt fram að Sjálfstæðisflokkurinn mun beita sér fyrir upbyggingu í Norðvesturkjördæmi sem mótvægi við framkvæmdir í öðrum landshlutum.

● Ísafjarðarbær og nágrenni verður byggður upp sem þjónustukjarni fyrir Vestfirði með þeim jákvæðu áhrifum sem það hefur á byggð og fjölbreytni atvinnutækifæra, að ekki sé talað um samgöngumálin


... Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að rífa veiðiréttinn af sjómönnum og útgerðarmönnum en aðlaga kvótakerfið áfram að þörfum byggðanna og þeirra sem nýta veiðiréttinn.

● Landsfundarsamþykkt er fyrir línuívilnun fyrir dagróðrabáta á línu. Það þýðir að fyrir hver 100 tonn sem landað verður af þorski munu aðeins 80 tonn dragast frá kvóta. Það þýðir að fyrir hver 100 tonn sem landað verður í öðrum tegundum munu aðeins 50 tonn dragast frá kvóta.

● Forsætisráðherra hefur gefið yfirlýsingu um að breyta þurfi lögum svo að byggðarlög geti komið í veg fyrir sölu aflaheimilda út af svæðinu. Þetta verði gert með því að styrkja lagaheimild sveitarfélaga til að beita forkaupsrétti.


– Halldór Halldórsson,
kjósandi í Norðvesturkjördæmi.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi