Grein

Sigríður Ragnarsdóttir, skólastjóri.
Sigríður Ragnarsdóttir, skólastjóri.

Sigríður Ragnarsdóttir | 09.05.2003 | 17:14Ungt fólk og tækifærin

Á morgun ganga þúsundir ungra kjósenda að kjörborðinu, margir í fyrsta skipti, og standa frammi fyrir þeirri spurningu hvernig best sé nýta kosningaréttinn. Með atkvæði sínu hefur ungt fólk áhrif á það hver lífskjör þess verða í framtíðinni, á möguleika sína til menntunar og atvinnu og það hvaða áherslur og gildismat verða ríkjandi í samfélaginu.
Eitt mikilvægasta verkefni sérhvers samfélags er að hlúa að æskunni og tryggja að ungt fólk eigi kost á menntun, atvinnu, menningu, listum og góðu andlegu atlæti, sem býr það undir framtíðina. Mörg helstu baráttumál Samfylkingarinnar snerta einmitt tækifæri ungs fólks á nýrri öld.

Brottfallið og námslánin

Samfylkingin ætlar að gera menntun að forgangsverkefni, stórauka fjárveitingar til menntamála frá leikskóla til háskóla. Við viljum ráðast af fullum krafti til atlögu við hið geigvænlega brottfall úr framhaldsskólanum og fjölga valkostunum, Einnig er brýnt að efla símenntun, veita fólki sem hefur hætt námi af ýmsum ástæðum ný tækifæri.

Brýnt er að endurskoða úthlutunar- og endurgreiðslureglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Það verður að hækka framfærslugrunninn og greiða námslánin fyrirfram. Þá þarf að lækka endurgreiðslubyrði námslánanna, gera hluta þeirra að styrk (allt að 30%) og síðast en ekki síst að aflétta ábyrgðarmannakvöðinni til að tryggja fullt jafnræði allra til að taka námslán. Samfylkingin hefur þegar lagt fram frumvarp þar sem þessar áherslur koma fram.

Samfélagið þarf að fjárfesta í ungu fólki, sem leggur á sig langt, dýrt og erfitt háskólanám og skilar arði í krafti aukinnar þekkingar. Hér fyrir vestan hafa menn einmitt leitað á ný mið þekkingar og tækni í fyrirtækjum á borð við Póls og 3X-Stál og þannig snúið vörn í sókn.

Ný sýn – nýtt gildismat

Því hefur oft verið haldið fram á síðustu vikum, að það sé beinlínis hættulegt að skipta um ríkisstjórn í landinu. Það ógni stöðugleikanum og öryggi borgaranna sé stefnt í voða. Undir forystu Ingibjargar Sólrúnar boðar Samfylkingin nýja sýn í stjórnmálum, nýja tegund stjórnmála, sem byggir á víðtæku samráði og skýrum, almennum, leikreglum lýðræðis og sanngirni. Hvernig má vera að það sé hættulegt?

Ég vil eindregið hvetja ykkur, sem eruð að kjósa til Alþingis í fyrsta sinn, að íhuga það vandlega í hvers konar þjóðfélagi þið viljið lifa í framtíðinni og búa börnum ykkar og afkomendum. Er það þjóðfélag, þar sem markaðsöflin og peningahyggjan ráða ferðinni eða er það þjóðfélag rettlætis, jöfnuðar og velferðar, þar sem nýtt gildismat er sett í öndvegi, forgangsröðinni breytt, manngildi sett framar verðgildi?

Það er kannski þetta sem kosningarnar snúast um fyrst og fremst og þið getið lagt ykkar lóð á vogarskálina öðru hvoru megin.

– Sigríður Ragnarsdóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi