Grein

Ásbjörn Þorgilsson.
Ásbjörn Þorgilsson.

Ásbjörn Þorgilsson | 09.05.2003 | 11:15Framboðsfundur

Við hjónin skruppum á framboðafund á Hólmavík á dögunum. Þetta var sameiginlegur fundur allra frambjóðenda í Norðvesturkjördæmi. Það sem vakti athygli mína var að þegar fulltrúar núverandi stjórnarflokka töluðu var engu líkara en að þar töluðu menn og konur af öðru tilverustigi en við hin lifum á. Þeir töngluðust á því hversu óskaplega gósentíð þeir/þau hefðu skapað í þjóðfélaginu í stjórnartíð sinni, annar í 12 ár en hinn í 8 ár.
Fundarmenn sem flestir eru á sama tilverustigi og undirritaður ráku upp stór augu og eyru. Þessi tilveruvídd sem þeir voru að lýsa var greinilega eitthvað sem ekki hefur rekið á okkar fjörur og rekur þó ýmislegt hér á Ströndum.

Umræðan nálgaðist þó okkar raunveruleika þegar stjórnarandstöðufulltrúarnir fluttu mál sitt. Athyglisvert fannst mér að fulltrúar Samfylkingarinnar töluðu þannig að engu var líkara en þeir búist við hreinum meirihluta á þingi eftir kosningar, forðuðust eins og þeir hafa gert í þessari kosningabaráttu að taka undir umbótatillögur Vinstri grænna og Frjálslyndra. Ég hef það á tilfinningunni að þeir skammist sín ennþá og muni gera um ókomna framtíð að það var einmitt þeirra maður, Jón Baldvin, sem leiddi yfir þjóðina þá ógnarstjórn sem setið hefur nú í 12 ár. Það óhappaverk verður seint skafið af Samfylkingunni.

Þar af leiðandi er og verður Samfylkingunni vandi á höndum að velta Framsókn upp úr sambúðinni með íhaldinu. Það sem verra er; það læðist að manni sá grunur að Samfylkingin gæti vel hugsað sér að endurtaka hinn ljóta leik Jóns Baldvins og veita íhaldinu áframhaldandi brautargengi næstu 4 árin. Jón Baldvin gaf skít í vilja þjóðarinnar í það skiptið, þegar hann sveik fyrrum samstarflokka sína og hundsaði útkomu kosninganna með því að hlaupa í eina sæng með íhaldinu og styðja Davíð Oddsson til forsætisráðherra.

Ég spái því að Samfylkingin bíði afhroð í þessum kosningum, þeir hafa ekki þor til þess að segja afdráttarlaust að þeir muni sækjast eftir samstarfi við hina stjórnarandstöðuflokkana eftir kosningar. Það er ekki nóg að segja að helsta keppikeflið sé að fella stjórn Davíðs Oddssonar. Og hvað svo??

Nú ætti stund sannleikans að vera runnin upp og Samfylkingin að lýsa því yfir, að hér eftir myndi flokkurinn leggja sig í líma við að bæta fyrir fyrri misgjörðir. Ég er viss um að ef Ingibjörg hefði staðið þannig að málum væri útkoman í skoðanakönnunum önnur en hún er í dag.

Í dag blasir hins vegar við sú staðreynd, að þrálátt og kalt vorhret virðist ætla að drepa í fæðingu þá von sem við á Vestfjörðum höfðum um að í hönd færu betri tímar eftir kosningar og öll vitum við í hvaða skjól Framsókn mun skríða ef hún fær fylgið endurnýjað.

Að lokum: Það gladdi mig á fundinum að ég fékk það staðfest að grein sem ég reit á bb.is í vetur, þar sem ég gerði grín að tilburðum hins makalausa samgönguráðherra við að slá ryki í augu okkar Árneshreppsbúa, hafði við rök að styðjast. Á áliðnu síðasta sumri var sent hingað norður lið mælingamanna með rauðmálaðar stikur til að stinga niður meðfram vegarslóðanum hingað norður. Þetta virðist hafa haft þann eina tilgang að láta okkur íbúana halda að lagfæra ætti veginn, en í grein minni í vetur lagði ég út af því að tilgangurinn væri aðeins sá að endurnýja stikurnar sem settar voru niður fyrir síðustu kosningar, enda þær mikið úr sér gengnar. Á þessum fyrrnefnda fundi kom heldur ekkert fram sem hnekkti þessari staðhæfingu og vona ég því að tæknimenn Vegagerðarinnar hafi fengið góðar stikur í þetta sinn og endingargóða málningu þannig að hún endist til ársins 2007.

„Gleði“ mín felst í því að jafnvel ótrúverðugustu grínsögur geta reynst trúverðugar staðreyndir þegar að er gáð. Sannast þá máltækið að oft ratast kjöftugum satt orð af munni.

– Ásbjörn Þorgilsson, Djúpavík.

bb.is 12.11.2002
Ásbjörn Þorgilsson: Um stórkostlega skreytingarherferð ráðuneytis


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi