Grein

Níels A. Ársælsson.
Níels A. Ársælsson.

Níels A. Ársælsson | 09.05.2003 | 10:01Ávarp til Vestfirðinga

Kæru Vestfirðingar! Vegna þeirrar óvissu um úrslit þingkosninganna þann 10. maí vil ég segja þetta við ykkur: Allir Vestfirðingar, hvar sem þið búið á landinu eða í heiminum, verðið að sýna hug ykkar í verki og leggja okkur íbúum Vestfjarða lið með því að kjósa ekki ríkisstjórnarflokkana. Ég sendi ykkur neyðarkall á ögurstundu. Eyðing þorpanna okkar blasir við um alla Vestfirði. Það er búið að ræna okkur fiskimiðunum og gefa þau í hendur á landráðamönnum sem gjörspilla og tortíma þeim á altari gróðahyggjunar. Vestfirðingar hafa verið heftir í ánauð örfárra manna sem svífast einskis í græðgi sinni fyrir peningum.
Stór hluti sjómanna og fjölskyldur þeirra á Vestfjörðum er flúinn undan áþján yfirvalda. Flestir sjómenn sem eftir eru á Vestfjörðum eru þrælar kvótaeiganda í verðbréfahöllum Reykjavíkur. Átta af hverjum tíu fiskum sem vestfiskir sjóþrælar draga að landi er rænt af auðvaldinu sem heimtar þá sem sérstakt endurgjald fyrir rétt okkar til að fá að lifa af fiskveiðum eins og allir okkar forfeður hafa gert í 1100 ár.

Þrælahald var innleitt á Íslandi með festingu kvótalagana á Alþingi. Forsætisráðherra Íslands lýsti því yfir í ræðu fyrir tólf árum, að sum sjávarpláss á Íslandi ættu tæpast rétt á sér og skoða ætti þann möguleika alvarlega að flytja sem flesta íbúa úr sjávarplássum landsins nauðuga til Reykjavíkur gegn vægri þóknun.

Þessu megum við ekki gleyma. Honum var og er fúlasta alvara, enda er það komið á daginn. Það eina sem forsætisráðherra hefur ekki staðið við er að greiða gjaldið. Allar eigur okkar og menningararfur eru að glatast. Arfi forfeðra okkar hefur verið frá okkur stolið. Ef ríkisstjórnin heldur velli, þá er komið að leiðarlokum í sögu Vestfjarða sem sjávarbyggða. Allt sem hefur verið byggt upp á síðustu öldum glatast að eilífu. Eftir stendur sagan skrifuð um hin blómlegu sjávarþorp sem eitt sinn voru til en verða nánast minningin ein.

Gerum ekki þau hræðilegu mistök að kjósa ríkisstjórnarflokkana. Ef við kjósum ríkisstjórnarflokkana, þá verður ekki aftur snúið frá þeirri helför sem yfir stendur. Látum ekki ríkisstjórnina komast upp með ætlunarverk sín að senda okkur í ævilanga útlegð og þrældóm. Gerum niðja okkar stollta af baráttu okkar gegn þeirri endalausu kúgun sem við höfum mátt sæta. Látum ekki blekkjast lengur af fagurgala ríkisstjórnarflokkanna. Brjótum af okkur hlekkina og rísum upp gegn kvölurum okkar.

Ekki kjósa X-D.
Ekki kjósa X-B.


– Níels A. Ársælsson, Tálknafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi