Grein

Einar Oddur Kristjánsson.
Einar Oddur Kristjánsson.

Einar Oddur Kristjánsson | 09.05.2003 | 05:53Vandamál fiskveiða og sjávarbyggða

Umræður um sjávarútvegsmál hafa orðið meiri nú í aðdraganda Alþingiskosninganna en oft áður. Það er þó einn hlutur varðandi bolfiskveiðarnar sem mér finnst mönnum sjást yfir og gleyma, en skiptir þó langmestu máli þegar upp er staðið. Á undanförnum 12 árum hafa stjórnvöld talið sér skylt að fara í einu og öllu að tillögum Hafró um það hversu mikil magn af bolfiski sé leyfilegt að veiða. Þetta hefur haft í för með sér gífurlegan niðurskurð þannig að allan þennan tíma höfum við aðeins verið að veiða milli 40 –50% af þeim bolfiski sem við veiddum áður. Þetta hefur verið sjávarbyggðunum gríðarlega erfitt og þrengt óskaplega hagi allra – bæði fólks og fyrirtækja.
Ef við lítum nánar á þorskveiðar okkar Vestfirðinga, þá eru þær núna u.þ.b. 14% af þeim þorski sem veiddur er á landinu og hafa áratugum saman sveiflast þetta í kringum 14-16% af heildaraflanum. Þannig hefur þetta hlutfall verið bæði meðan sóknin var frjáls og núna í seinni tíð eftir að opinber stjórnun fiskveiða hófst.

Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt í lýðfrjálsu landi þótt menn deili um það hvernig fiskveiðistjórnunin er framkvæmd. Og trúlega verða menn seint á eitt sáttir um hvaða leið sé best að fara. En þegar öllu er á botninn hvolft er það magnið sem leyfilegt er að veiða sem skiptir langmestu máli. Það skipti að sjálfsögðu öllu máli hvort 14% af þorskaflanum er af 175 þúsund tonnum bolfisks eins og nú – eða af t.d. 350 þúsund tonnum. Hið sama gildir um þorskveiðar annars staðar við strendur Íslands.

Ég hef lengi efast um fiskveiðiráðgjöf Hafró. Það þjónar kannski engum tilgangi að deila við slíka einokunarstofnun. En ég alveg sannfærður um að það er lífsnauðsynlegt að breyta fyrirkomulagi þessara rannsókna. Við megum ekki gleyma að drifkrafturinn í hinum miklu framförum í náttúruvísindum sem átt hafa sér stað í hinum vestræna heimi á síðustu árhundruðum er hin vísindalega rökræða. Ekkert er því eins mikilvægt fyrir sjávarbyggðirnar og að koma hafrannsóknum okkar inn í líffræðistofnanir háskólanna (og þá að minnsta kosti til tveggja háskóla, t.d. Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri) og tryggja með öllum ráðum að aðgangur að vísindagögnunum sé öllum frjáls.

Í tillögum Árna Mathiesen sjávarútvegsráðherra um líffræðilega stjórnun fiskveiðanna, sem hann setti fram á nýliðnum vetri, kemur fram skynsamlegasta hugsunin sem komið hefur frá nokkrum íslenskum sjávarútvegsráðherra í langan tíma. Mér finnst það því mikið fagnaðarefni hversu heilshugar landsfundur Sjálfstæðisflokksins núna í vor tók undir tillögur hans. Það hlýtur að varða miklu hvernig við veiðum, hvar við veiðum og hvenær við veiðum. Aðeins frjálsar rannsóknir á náttúrunni – á hafinu í kringum Ísland – geta leitt okkur úr þeim mikla vanda sem íslenskur sjávarúrvegur og sjávarbyggðir landsins eru í. Við verðum að trúa því – og eigum að trúa því – að Íslandsmið geti gefið af sér meiri veiðar bolfisks heldur en nú er leyft. Ekkert annað getur tryggt á varanlegan hátt framtíð sjávarbyggða landsins.

– Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður, Flateyri.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi