Grein

Svava Rán Valgeirsdóttir
Svava Rán Valgeirsdóttir

Svava Rán Valgeirsdóttir | 08.05.2003 | 19:31Gjaldfrjáls leikskóli – mannréttindi barna

Gjaldfrjáls leikskóli er sjálfsögð mannréttindi barna en með leikskólagjöldum gefum við ekki öllum börnum sömu tækifæri til að stunda þar nám. Því miður hef ég í starfi mínu sem leikskólastjóri séð að sumir foreldrar hafa einfaldlega ekki efni á því að setja börn sín í leikskóla. Má þar nefna ýmsa hópa fólks, t.d. nýja Íslendinga, einstæða foreldra og annað tekjulágt fólk. Enn aðrir eiga fullt í fangi með að greiða há leikskólagjöld, þó svo að þeir reyni eftir fremsta megni að standa í skilum með þau.
Fæstir efast um uppeldis- og menntunarhlutverk leikskólans og mikilvægi hans sem undirbúning fyrir áframhaldandi skólagöngu. Í þessu sambandi má sérstaklega nefna börn af erlendum uppruna og mikilvægi þess að þau hafi verið á leikskóla og séu búin að ná góðu valdi á íslenskunni áður en þau hefja grunnskólanám.

Og varðandi sérkennslu, þá skiptir það öllu máli að gripið sé eins fljótt inn í og mögulegt er og barninu sé veitt sú sérfræðiþjónusta sem það þarf á að halda strax í leikskóla. Þannig getum við hugsanlega komið í veg fyrir námsörðugleika síðar á námsferlinum.

Það eru því sjálfsögð mannréttindi barna að geta stundað leikskólanám, óháð efnahag foreldra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur að það eigi að bjóða upp á ókeypis menntun á öllum skólastigum, líka leikskólastigi. Þeir hafa sett fram raunhæfar hugmyndir til að ná þessum markmiðum, sem felast m.a. í því að ríkið leggi fram 2.000 milljónir í sameiginlegt átaksverkefni með sveitarfélögunum. Þeir telja raunhæft að hægt sé að ná þessu markmiði á næstu fjórum árum og strax á næsta ári greiði foreldrar aldrei fyrir meira en eitt barn í einu.

Gjaldfrjáls leikskóli er því veruleg kjarauppbót fyrir barnafjölskylduna.

Ég er stolt af því sem leikskólakennari að minn flokkur, fyrstur allra flokka, setur það á dagskrá að afnema með öllu leikskólagjöldin og viðurkenna þar með leikskólann sem mikilvægt skólastig í íslensku skólakerfi, þar sem öll börn hafa jafnan aðgang.

Að lokum: Þessa dagana streyma inn bæklingar og auglýsingar í sjónvarpinu flytja okkur fögur loforð og börnin fara ekki varhluta af því að nú nálgast kosningar. Sonur minn átta ára spurði mig í gær eftir að hafa fylgst með fréttunum: „Hvernig stendur á því að ekki fleiri ætla að kjósa Vinstri græna en samt eru þeir með langbestu stefnuna?“

Já, hvernig stendur á því? Friðarsinnar, umhverfissinnar og fólk sem aðhyllist vinstri stefnu og jöfnun lífsgæða, við vitum öll að þingmenn Vinstri grænna hafa barist fyrir okkar málum inni á þingi af heilindum og elju, það efast enginn um það. Vinstri grænir hafa haldið uppi vörnum fyrir íslenska velferðarkerfið, barist fyrir náttúru Íslands og gagnrýnt harkalega stefnu íslenskra stjórnvalda vegna afstöðu þeirra til stríðsins í Írak.

Því spyr ég okkur öll: Viljum við virkilega missa þær raddir er tala okkar máli út af þingi? Ég segi nei og set þess vegna X við U.

– Svava Rán Valgeirsdóttir, leikskólakennari, Suðureyri.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi