Grein

Ágúst Gíslason.
Ágúst Gíslason.

Ágúst Gíslason | 08.05.2003 | 09:39Viljum við að Einar Oddur verði áfram þingmaður okkar eða ekki?

Nú þegar kosið er til Alþingis við breytta kjördæmaskipan, þá blasir það við, að þingmönnum landsbyggðarinnar fækkar. Því vandast valið – og þó. Við skulum líta til baka og minnast þeirra vonbrigða sem þjóðin upplifði á árunum frá því að viðreisn lauk og allt þar til þjóðarsáttarsamningarnir frægu voru gerðir árið 1991. Þrátt fyrir að gott fólk ætti sæti á Alþingi á þessum tíma sem endranær og margt mjög vel menntað, þá var efnahagsstjórnin á þessum árum stöðug vonbrigði enda var verðbólgan allt að 80-100% þegar allra verst lét.
Því var það þjóðfélaginu ómetanlegt lán þegar Einar Oddur Kristjánsson frá Flateyri valdist til formennsku í Vinnuveitendasambandi Íslands, maður sem hafði ekki tíma til að ljúka menntaskólanámi vegna þess hve ungur hann tók við stjórn útgerðar í sinni heimabyggð. Það var Einar Oddur sem af alkunnu harðfylgi kom vitinu fyrir alþingismenn þess tíma hvað stjórn efnahagsmála áhrærði, enda þótt sjálfur stæði hann þá utan Alþingis. Og það hefur hann oft gert síðan. Hann er og hefur verið akkeri Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum.

Einar Oddur sem formaður VSÍ bar gæfu til þess og kunni öðrum betur að laða til samstarfs við sig forystu Alþýðusambands Íslands, Landssambands íslenskra útvegsmanna, Vinnumálasambands samvinnufélaganna, Stéttarsambands bænda og annarra aðila vinnumarkaðarins, þannig að þjóðarsáttarsamningarnir næðust fram. Þeir samningar færðu okkur Íslendingum nýja gullöld í efnahagsmálum, sem við enn búum að.

Þá var verðbólgudraugurinn kveðinn niður með áhrifamiklum hætti. Það var þá sem fólk og fyrirtæki gátu farið að gera raunhæfar áætlanir fram í tímann. Það var þá sem unga fólkið hætti að fá verðbólguholskeflu húsnæðislánanna yfir sig og verða stöðugt undir. Höfundur og guðfaðir þessara tímamótasamninga var Einar Oddur Kristjánsson á Flateyri. Að þessum verkum hans fyrir meira en áratug býr öll íslenska þjóðin í dag og þá ekki síst yngra fólkið.

Í framhaldi af þessu kusu Vestfirðingar Einar Odd á þing. Þar hefur hann skorið sig nokkuð úr hópi þingmanna að því leyti að hann þorir – hann þorir að rísa upp og tala, starfa og berjast, jafnvel einn gegn forystu síns flokks, jafnvel einn gegn öllum, ef sannfæringin segir honum það. Hann er þekktur að víðtækri þekkingu á atvinnulífinu og frábærri þekkingu og innsæi í efnahagsmálum þjóðfélagsins. Og umfram allt, hann bugast ekki fyrir neinu öðru en eigin sannfæringu.

Það eru slíkir forystumenn sem þjóðin þarf að hafa á bekkjum Alþingis svo að vel farnist.

Skoðanakannanir benda til þess að þriðja sæti D-listans í Norðvesturkjördæmi sé í hættu. Einar Oddur Kristjánsson er í þriðja sætinu. Málið snýst um það í kosningunum á laugardaginn hvort Einar Oddur verður áfram á þingi eða ekki. Svo einfalt er það.

Við beinlínis verðum að tryggja að Einar Oddur verði áfram fulltrúi okkar og allrar þjóðarinnar á Alþingi.

– Ágúst Gíslason, Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi