Grein

Bjarni M. Jónsson.
Bjarni M. Jónsson.

Bjarni M. Jónsson | 07.05.2003 | 17:13Útræðisréttur strandjarða virtur á ný

Mikið er nú rætt og ritað um fiskveiðimálefni þjóðarinnar og sýnist sitt hverjum. Ein setning, þar sem verið er að fjalla um hlunnindanýtingu, virðist hafa farið fram hjá mörgum. Hún kemur fram í ályktun um landbúnaðarmál sem samþykkt var á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins og hljóðar svo: „Í þessu sambandi er einnig áhugavert að hugað verði að lagaákvæðum um forn útræðishlunnindi“.
Það býr ansi mikið í þessari setningu. Svo virðist vera sem þarna hafi sjálfstæðismenn hitt naglann á höfuðið og að endurheimta megi rétt strandbyggða til nærliggjandi fiskimiða. Það mun þá skila sér til íbúa þessara svæða með rétti til aukinnar vinnu við veiðar og vinnslu ef þeir þá kjósa að nýta sér hann.

Þess má geta að Már Pétursson hæstaréttarlögmaður og Sigurður Líndal lagaprófessor hafa báðir látið hafa eftir sér, að réttur strandjarða virðist hafa gleymst og eignarréttur þeirra verið fyrir borð borinn í lagasetningum um fiskveiðar hingað til.

Ástæða þess að þessi ályktun kemur frá nefnd um landbúnaðarmál er sú, að rúmlega 1.000 jarðir á Íslandi hafa að fornu og nýju átt rétt til útræðis en sá réttur hefur verið gerður óvirkur með núverandi fiskveiðilöggjöf. Hér er því um mikið hagsmunamál bænda og jarðeigenda að ræða.

Geta má þess að margar þessara jarða eru í eigu ríkis, kirkju og sveitarfélaga. Þarna sýna sjálfstæðismenn að þeir hafa áhuga á því að leiðrétta mistök og ágalla sem komið hafa í ljós á núverandi kerfi.

– Bjarni M. Jónsson, Sæbóli á Ingjaldssandi.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins – Ályktun um landbúnaðarmál


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi