Grein

Jón Bjarnason.
Jón Bjarnason.

Jón Bjarnason | 06.05.2003 | 16:02Ef sverð þitt er of stutt þá gakktu fetið framar

Oft er sem fólki vaxi í augum smæðin og fámennið utan Reykjavíkur. Það gleymist oft að það getur falið í sér ýmsa kosti að vera smár og knár, auk þess sem orðin smæð og fámenni eiga við Ísland allt. Það sem landsbyggðin þarf mest á að halda er frumkvæði og bjartsýni, sem hvort tveggja fæst með sjálfstæði og ábyrgð heimamanna, þar sem byggt er á grunni mannauðs, tækniþekkingar, menningararfs og náttúruauðlinda hvers héraðs til lands og sjávar. Þessar forsendur ber að hafa í huga við stofnun háskólasetra og æðra tæknináms á Ísafirði og Egilsstöðum, Akranesi og Selfossi sem hljóta að vera næst á dagskrá.
Staðreyndin er sú að smæðin getur verið kostur, ef rétt er staðið að málum. Sjálfstæði, frumkvæði og sveigjanleiki eru alger forsenda þess að litlar menntastofnanir – á hvaða sviði sem er – geti staðist stærri og þungskreiðari stofnunum snúning. Á þetta hefur verið sýnt fram á nokkrum litlum en sjálfstæðum menntastofnunum, svo sem á Hvanneyri, Bifröst, Hólum og Reykjum. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga þennan styrk sem sjálfstæðið gefur þegar framkvæmdar eru góðar hugmyndir um háskólastofnanir í sem flestum landshlutum. Hægt er að taka dæmi af Hólaskóla.

Sjálfstæði – frumkvæði – sveigjanleiki

Hólaskóli hefur vaxið úr nánast engu á síðustu 20 árum og öðlaðist rétt til að brautskrá nemendur með háskólagráðu nýverið. Af vexti og þroska Hólaskóla má draga nokkurn lærdóm fyrir framtíðaruppbyggingu í menntamálum á landsbyggðinni.

Einn helsti lykillinn að velgengni skólans er sjálfstæði hans, en það hefur leyft honum að starfa á sínum eigin forsendum. Í krafti sjálfstæðis síns hefur hann styrkt stöðu sína og breikkað verkefnasviðið með samningum við fyrirtæki, bændur, einstaka háskóla og rannsóknastofnanir hérlendis og erlendis. Oft og tíðum hefur það komið til tals á síðari árum að fella skólann undir einhverja aðra stofnun, fyrir sunnan eða norðan, og gera hann þannig að útibúi sem yrði stjórnað úr fjarlægð. Þessum hugmyndum var sem betur fer alltaf úthýst, þótt stundum væri knúið fast dyra.

Hættan við útibúastefnuna

Sannleikurinn er sá að útibúahugmyndin í uppbyggingu mennta- og rannsóknastofnana út um hinar dreifðu byggðir er mjög brothætt. Sú hætta getur fylgt uppbyggingu ósjálfstæðra útibúa, að þau verði olnbogabörn í fjölskyldu annarra og stærri menntastofnana sem allar hafa fastar hugmyndir um eigin vöxt og viðgang, þannig að þau muni ávallt mæta afgangi. Þetta þýðir vitaskuld ekki að menntastofnanir eigi að halda sig sér og sneiða hjá samvinnu við aðra menntastofnanir.

Á síðari árum hafa mörg atvinnufyrirtæki úti á landi – einkum í sjávarútvegi – farið úr eigu heimamanna og lent í höndum fjarlægra stórfyrirtækja. Atvinnulífinu er þannig stjórnað af fólki sem er ókunnugt aðstæðum og hefur ekki taugar til staðarins. Undir þessum kringumstæðum er erfitt að búast við nýsköpun í tengslum við helstu fyrirtæki staðarins. Af þessum sökum er einnig mikilvægt að þær stofnanir sem byggðir eru upp úti á landi til þess að efla menntun og fjölbreytni lúti ekki sömu lögmálum, heldur séu sjálfstæðar.

Sóknarfæri landsbyggðarinnar

Efling mennta- og rannsóknasetra sem víðast um land er eitt brýnasta mál landsbyggðarinnar. Stofnun símenntunar- og háskólaseturs á Ísafirði er nú í undirbúningi og vinnur Fræðslumiðstöð Vestfjarða þar gott brautryðjandastarf. Á Ísafirði eru miklir möguleikar í að mynda sterka stofnun sem tekur að sér og stýrir rannsóknum og vöktun á fjölbreyttum auðlindum svæðisins og nýtingu þeirra. Rannsóknastöð veiðarfæra væri t.d. hvergi betur komin en þar.

Næst á dagskrá á Akranesi er efling iðnmenntunar, tæknináms, rannsókna og háskólanáms á grunni þess fjölbreytta en sérhæfða iðnaðar sem þar er að byggjast upp. Hver landshluti, hvert byggðarlag verður stöðugt að sækja fram í menntunarmálum. Annars er hætta á stöðnun. Menntun, fjölbreytt atvinna, blómlegt mannlíf og hagvöxtur fara saman. Þar liggja sóknarfæri landsbyggðarinnar.

– Jón Bjarnason alþingismaður,
skipar 1. sæti á lista Vinstri-grænna í Norðvesturkjördæmi.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi