Grein

Karl Jónsson, framkvæmdastjóri HSV.
Karl Jónsson, framkvæmdastjóri HSV.

Karl Jónsson | 06.05.2003 | 10:42Kæri frambjóðandi: 10 milljónir í ferðakostnað!

Tvisvar sinnum á því kjörtímabili sem nú er að renna sitt skeið á enda hefur þingsályktunartillaga þeirra Hjálmars Árnasonar og Ísólfs Gylfa Pálmasonar um Ferðasjóð íþróttafélaga sofnað værum blundi í Menntamálanefnd Alþingis. Þann 28. janúar sl. var málinu vísað til nefndarinnar í annað sinn á kjörtímabilinu en hvorki heyrðist hósti né stuna frá nefndinni varðandi það. Hvers vegna ekki? Er íþróttahreyfingin á höfuðborgarsvæðinu hrædd við að missa spón úr sínum aski? Spyr sá sem ekki veit en hingað til hefur þetta mál ekki notið þeirrar hylli að vera afgreitt úr nefndinni, af einhverjum ástæðum.
Í tillögunni er lagt til að árlega verði veitt fé af fjárlögum í ferðasjóð íþróttafélaga til að standa straum af kostnaði við ferðir þeirra á viðurkennd mót.

Í greinargerð með tillögunni segir m.a. orðrétt:

„Íþróttaástundun er hverju byggðarlagi afskaplega mikilvæg. Um er að ræða eina mestu forvörn fyrir ungt fólk. Að auki eiga keppnislið einstakra sveitarfélaga drjúgan þátt í að efla samkennd og samstöðu íbúa sveitarfélaganna. Íþróttamannvirkjum hefur fjölgað ört á þéttbýlisstöðum á landinu og möguleikar til íþróttaiðkunar eru víða afskaplega góðir. Það eykur mjög áhuga iðkenda ef þeir eiga kost á því að taka þátt í t.d. Íslandsmóti viðkomandi íþróttagreinar. Augljóslega leggst ferðakostnaðurinn þyngra á sum íþróttafélög en önnur af landfræðilegum ástæðum.

Ferðasjóði íþróttafélaga er ætlað að jafna þennan aðstöðumun og stuðla þannig að öflugra íþróttastarfi í landinu. Hér er um eðlilega jöfnunaraðgerð að ræða.“


Nú ætla ég ekki að blanda mér í kosningabaráttuna né draga taum eins framboðs frekar en annars, heldur aðeins benda frambjóðendum allra flokka á þá staðreynd, að ferðakostnaður er að sliga íþróttafélög á landsbyggðinni og eðlilega meira eftir því sem fjær dregur höfuðborgarsvæðinu. Þær eru ófáar milljónirnar sem íþróttahreyfingin hér á þessu svæði þarf að punga út í ferðakostnað til þess að koma sínum keppnisliðum á keppnisstað.

Nokkuð áreiðanleg athugun mín á greiðslu ferðakostnaðar fjögurra umfangsmestu félaganna innan HSV – BÍ, KFÍ, Vestra og Skíðafélagsins – leiðir í ljós að þessi félög greiddu hvorki meira né minna en rúmlega 10 milljónir króna í ferðakostnað á síðasta ári. Í viðbót við þetta má örugglega gera ráð fyrir hálfri milljón samanlagt í viðbót frá öðrum félögum.

Þetta eru gríðarlegir fjármunir, og athugið að öll þessi stóru félög eru rekin því sem næst „á núllinu“ um þessar mundir sem eitt og sér er gleðilegt. Sú staðreynd varpar fram spurningum hvað hægt væri að gera fyrir þetta fjármagn eða a.m.k hluta þess, því ekki koma félög hér til með að ferðast frítt þrátt fyrir að þessi tillaga nái fram að ganga og það er ótrúlega margt sem kemur upp í hugann sem allt of langt mál yrði að telja upp hér.

Ég skora á frambjóðendur og tilvonandi þingmenn kjördæmisins að greiða götu þessarar tillögu þegar hún verður lögð fram í þriðja skiptið á næsta þingi og hvet þá félaga Hjálmar og Ísólf Gylfa til að láta ekki deigan síga. Þetta er hreinlega lífsspursmál fyrir íþróttahreyfinguna hér á svæðinu og víða um landið. Ég skora líka á frambjóðendur að tjá sig um málefnið nú á lokastigum kosningabaráttunnar og leyfa þannig kjósendum að sjá hvar hugur þeirra liggur í málinu.

– Karl Jónsson,
framkvæmdastjóri Héraðssambands Vestfirðinga.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi